Viðskiptabankar
Þriðjudaginn 14. febrúar 1989

     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að ræða almennt um þetta frv., enda eru ekki í mínum huga nein sérstök atriði sem ég taldi þörf á að gera athugasemdir við á þessu stigi. En ég vil aðeins víkja að því sem segir í 2. gr. frv.: ,,Bankaráð ákvarðar vexti bankans.``
    Í umsögn um 2. gr. segir: ,,Hér er í fyrsta lagi gerð tillaga um ákveðnara orðalag varðandi hlutdeild bankaráða í vaxtaákvörðunum`` o.s.frv. Það sem ég vildi spyrja hæstv. ráðherra um er hvort með þessu ákvæði verði í framkvæmd breyting á þeirri verktilhögun sem hefur verið í þessu efni. Er það svo að bankastjórnirnar hafi ákveðið vextina áður og án samráðs eða í samráði við bankaráðin. Mér sýnist alla vega að því er segir í umsögn um 2. gr. að eitthvað hafi verið óákveðið um framkvæmd þessara mála. Og vil ég þá spyrja hæstv. ráðherra að því hvort það sé beinlínis tilefni þessa ákvæðis að ef bankastjórnirnar hafa ákveðið vexti, þá hafi þær ekki farið tilhlýðilega með það vald og hvort gert sé ráð fyrir því að það fari betur af þeim ástæðum að bankaráðin hafi valdið til þess að ákvarða vextina.