Viðskiptabankar
Þriðjudaginn 14. febrúar 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Ég vildi reyna að svara lítillega því sem kom fram hjá hv. 4. þm. Vestf. Ég tel ekki sjálfsagt að breyting verði á verkaskiptingunni. Hins vegar tel ég það alveg nauðsynlegt að bankaráðið beri ábyrgð á öllum vaxtaákvörðunum bankanna í almennum atriðum en ekki eingöngu einhverjum hluta þeirra. Hvernig þeir svo framselja þetta vald til sinna framkvæmdastjóra, bankastjórnarinnar, það er þeirra mál að ákveða, en það er einmitt það sem það á að vera: Þeirra mál að ákveða. Mér virðist að vaxtaákvarðanir og viðskiptakjaraákvarðanir sem eru almenns eðlis hafi stundum flotið fram hjá bankaráðunum, annaðhvort af því að bankaráðin hafi sýnt þeim tómlæti eða bankastjórarnir ekki lagt fyrir bankaráðin fleira en þeir þurftu. Ég ætla ekki að gefa þessu aðrar einkunnir eða þessar. Hins vegar finnst mér það ótækt að jafnvel formenn bankaráða geti sagt um svona mikilvæga þætti í viðskiptakjörum þeim sem bankarnir búa sínum viðskiptavinum: Þetta er okkur ekki kunnugt um, við höfum ekki um það fjallað. Það tel ég ekki sómsamlega afstöðu. Ég vil þess vegna að það sé alveg ljóst að stjórnarfarslega hafi þeir tekið ábyrgð á slíkum ákvörðunum. Það er engin íhlutun í það hvernig menn skipta með sér verkum eða hvaða ákvarðanir eru framseldar frá bankaráði til bankastjórnar frá degi til dags. Það liggur í hlutarins eðli að bankastjórar eru til þess valdir að taka viðskiptalegar ákvarðanir, en í bankalögunum eru ákvæði sem segja: Bankaráðið skal móta stefnu bankans í vaxtamálum. Það virðist hafa verið skilið mjög laust og mjög frítt. Ég tel ástæðu til þess að lista það svolítið út hvað það þýðir.
    Varðandi athugasemdir hv. 11. þm. Reykv. um vandkvæðin á því að setja fastmótaðar reglur um vaxtakjör á svona skuldabréfa- og viðskiptavíxlamarkaði, þá var margt rétt í því sem hann sagði. Ég er alls ekki með þessum tillögum sem hér eru fluttar að reikna með því að það verði allt saman snyrtilega læst í þessi örfáu erindi sem hér eru flutt, heldur vildi ég gera það skýrt að þarna skuli fara fram samræmt mat og tilraun til þess gerð af hálfu hverrar bankastofnunar að móta þetta þannig að þær geti skýrt það fyrir sínum viðskiptavinum hvers vegna þær bjóða þeim fremur þessi kjör en önnur.
    Um viðskiptamörkin við aðrar stofnanir á lánamarkaðinum ætla ég ekki að fjölyrða í þessari umræðu, en segi það eitt að margar þeirra stofnana eru reyndar í eigu bankanna eða stofnana sem eru nátengdar þeim. Ég tel einsýnt að þar muni af venjulegum sanngirnis- og jafnræðissjónarmiðum gilda hið sama.