Viðskiptabankar
Þriðjudaginn 14. febrúar 1989

     Sólveig Pétursdóttir:
    Hæstv. forseti. Aðeins örstutta athugasemd varðandi frv. þar sem um er að ræða atriði sem mér finnst ekki vera alveg ljóst. Það er um 3. gr. frv. Þar segir í athugasemd um 3. gr., og verð ég að fá að lesa það upp, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Í íslenskum stjórnarfarsrétti hafa ekki almennt verið lögfestar reglur til að girða fyrir hagsmunaárekstra handhafa framkvæmdarvalds við töku ákvarðana, gagnstætt því sem er um handhafa dómsvalds hér á landi. Rétt þykir nú að gera í lögum strangari kröfur um svo mikilvægar stofnanir sem banka, þar sem hagsmunaárekstrar geta haft meiri afleiðingar en oft endranær og því mikilvægt að tryggja óháðar ákvarðanir. Þessi ákvæði eru hliðstæð þeim sem eru í bankalöggjöf nágrannalanda okkar.``
    Hagsmunaárekstrar geta að sjálfsögðu víða átt sér stað og það er auðvitað mjög oft sem farið er með þá fyrir dómstóla. Hér er verið að bera saman annars vegar dómara og hins vegar bankaráðsmenn og þess ber að geta að dómarar þurfa að sæta mjög ströngum hæfisskilyrðum og þar að auki dæma þeir um rétt manna í þessu þjóðfélagi og þar getur verið um verulega hagsmuni að ræða, en ekki bara peningalega. Hér er lögð rík áhersla á ábyrgð bankaráðsmanna í 3. gr. frv. og er ég ekki að mótmæla því í sjálfu sér. Á því getur verið full þörf. En mig langar til þess að spyrja hæstv. bankamálaráðherra: Hver metur það hvort bankaráðsmenn víki sæti og hvaða viðurlög liggja þar við?