Seðlabanki Íslands
Þriðjudaginn 14. febrúar 1989

     Fjármálaráðherra (Ólfafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni fyrir þá ræðu sem hann flutti hér áðan sem var mjög ítarleg og málefnaleg og gefur mér tækifæri til þess að fjalla um nokkur mjög veigamikil atriði í þeim höfuðmálum sem hér eru til umfjöllunar.
    Ég get að vísu ekki stillt mig um það hér í upphafi, og vona að það verði nú ekki misskilið, að vekja á því athygli að lítið samræmi er í málflutningi fulltrúa Sjálfstfl. þar sem formaður flokksins dró þá ályktun af tilkynningu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í efnahagsmálum að þar væri ekkert nema loft, ekkert sem neinu máli skipti og ekkert sem kæmi til með að hafa áhrif, en aftur á móti hefur í umræðunni í dag, og reyndar við önnur tækifæri af öðrum fulltrúum Sjálfstfl., komið fram að í þessum aðgerðum ríkisstjórnarinnar sé að finna svo veigamiklar tillögur og svo afdráttarlausa stefnumótun að annaðhvort er því líkt við hin hörðu miðstýringaröfl austan tjalds eða þá að það er talið boða innreið hinna ómenguðu frjálsu peningaafla á Vesturlöndum. Ég tel því skynsamlegt fyrir Sjálfstfl. að reyna að ræða um það á sínum heimavígstöðvum til að einfalda alla meðferð mála hér í þinginu hvaða afstöðu flokkurinn hefur í raun og veru til þessara merku tillagna sem ríkisstjórnin er núna að setja í lög hér á Alþingi með hjálp góðra manna í þinginu. En þetta var nú svona innan sviga í upphafi máls vegna þess að auðvitað var ræða hv. þm. Guðmundar H. Garðarssonar miklu nær veruleikanum en þeir leikrænu tilburðir sem formaður Sjálfstfl. hefur haft hér í þinginu og utan þings í umfjöllun um þessi mál.
    Það eru einkum tveir þættir sem mig langar til að víkja að. Það er annars vegar eðli íslenska bankakerfisins og peningakerfisins og þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur boðað í þessum frv. og svo hins vegar þær breytingar sem eru að verða á peningakerfi helstu nágrannalanda okkar og Evrópu og vinnuaðferðir ríkisstjórnarinnar í meðferð þeirra mála. Hvort tveggja eru algjör lykilatriði í stjórn íslenskra efnahagsmála á næstunni og um ókomin ár.
    Þegar mótuð er stefna í stjórnmálum eiga menn auðvitað tvær meginleiðir. Annaðhvort að búa sér til hugarfóstur á grundvelli tilfinninga og draumóra, og oft gerist það í pólitískri stefnumótun, og hins vegar er að taka mið af veruleikanum og bestu fræðilegri greiningu á eðli þessa veruleika og laða síðan hin stefnulegu viðhorf að þessum þáttum og búa þannig til niðurstöðu. Ríkisstjórnin hefur kosið að fara eftir hinni seinni aðferð, að miða stefnumótun sína við veruleikann og skýra fræðilega greiningu á þeim veruleika. Þetta atriði er sérstaklega mikilvægt að hafa í huga vilji menn í rólegheitum og málefnalega átta sig á þeim tillögum sem hér eru gerðar um breytingar á íslenska bankakerfinu og lagasetningu um íslenska peningamarkaðinn.
    Á undanförnum árum hefur æðimikið borið á því að ýmsir hafa sett fram kenningar um það að íslenski peningamarkaðurinn bæði ætti að vera, gæti orðið og jafnvel væri frjáls samkeppnismarkaður og þess vegna

ætti að beita aðferðum slíks frjáls samkeppnismarkaðar við stefnumótun í vaxta- og peningamálum. Að hluta til hefur þessi kenning verið sett fram af hreinum hugmyndafræðilegum ástæðum eða áróðursástæðum vegna þess að tiltekin hagsmunaöfl hafa talið það þjóna gróðamyndun sinni að slík kenning væri ráðandi við stefnumótunina.
    Á undanförnum mánuðum hefur hins vegar orðið almennt viðurkennt að þessi kenning, um að íslenski peningamarkaðurinn væri eða gæti orðið frjáls samkeppnismarkaður, sé algjörlega röng. Í okkar fámenna þjóðfélagi sem telur aðeins rúmlega eitt hundrað þúsund vinnandi manna eru bankastofnanirnar svo fáar, svo nálægt hver annarri, svo ríkulega stýrt af mönnum sem eru hver öðrum gjörkunnugir að útilokað er að einkenni frjáls samkeppnismarkaðar geti nokkru sinni orðið þar ráðandi. Á hinn bóginn er ljóst að íslenska peningakerfið sé, eins og íslensku olíufélögin, eins og íslensku tryggingafélögin, dæmigert fyrir þá tegund markaðar sem í hagfræðinni hefur verið kenndur við fákeppnismarkað eða á enskri tungu oligopólískur markaður. Og það er auðvitað höfuðatriði þegar menn eru að meta aðgerðir í efnahagsmálum og þróun mála að gera sér í upphafi grein fyrir þessu: Er verið að tala um einokunarmarkað, er verið að tala um fákeppnismarkað eða er verið að tala um frjálsan samkeppnismarkað, vegna þess að niðurstaða allrar fræðilegrar umfjöllunar í hagfræði á undanförnum áratugum er, og skiptir þá engu hvort menn eru hægri menn, vinstri menn eða miðjumenn, það er bara hreinræktuð fræðileg niðurstaða, að það eru allt önnur vinnubrögð og allt aðrar aðgerðir sem beita á á einokunarmarkaði eða á fákeppnismarkaði eða á frjálsum samkeppnismarkaði. Þegar þess vegna menn eru að dæma tillögur og aðgerðir um íslenska peningamarkaðinn verða menn að hafa það alveg skýrt að veruleikinn er fákeppnismarkaður og ég legg áherslu á að veruleikinn er slíkur.
    Grundvallaratriði í þróun hagfræðinnar á síðustu áratugum er einmitt að gera þennan þríþætta greinarmun á einokunarmarkaði, fákeppnismarkaði og samkeppnismarkaði. Væri aðferðum samkeppnismarkaðar beitt á fákeppnismarkað sýna rannsóknir í hagfræði að þær snúast í andhverfu sína eða leiða til óskapnaðar. Á sama hátt má segja að sé aðferðum fákeppnismarkaðar beitt á
samkeppnismarkaði skili þær þveröfugri eða mjög brenglaðri niðurstöðu.
    Þetta grundvallaratriði um eðli íslenska peningamarkaðarins er þess vegna ekki pólitísk afstaða. Hún er fræðileg niðurstaða okkar fremstu sérfræðinga í þessum greinum og þessu eðli verður ekki breytt. Og hvers vegna verður því ekki breytt? Einfaldlega vegna þess að við búum í svo litlu samfélagi með svo fáar stofnanir af þessu tagi að nálægð þeirra hverrar við aðra og þekking stjórnenda þeirra hvers á öðrum mun ávallt, um alla framtíð, eins og nú þegar á undanförnum árum, leiða til þess að starfsumhverfi þeirra sem þeir skapa sjálfir er

fákeppnismarkaður.
    Hvað segir svo hin fræðilega greining hagfræðinnar um fákeppnismarkað? Hún segir í höfuðatriðum þetta: Fyrirtæki á fákeppnismarkaði, í þessu tilviki bankar --- það gildir það sama um tryggingafélög, það sama um olíufélög hér á landi --- hafa ríka tilhneigingu til þess að hækka verð á vöru sinni, í þessu tilfelli vexti, mjög fljótt og ört og hratt. Fyrirtæki á fákeppnismarkaði eru hins vegar lítt fær um það að lækka verð á vöru sinni við breyttar aðstæður, þ.e. vexti, nema með utanaðkomandi stýringu eða utanaðkomandi áhrifaafli eða m.ö.o., í marga áratugi hefur það legið fyrir sem fræðilega sönnuð niðurstaða af eðli fákeppnismarkaðar að það verður að grípa inn í hann, t.d. af hálfu stjórnvalda, til þess að ná hagstæðri hagrænni niðurstöðu, í þessu tilviki lágum vöxtum. Ef aftur á móti íslenski peningamarkaðurinn væri háþróaður samkeppnismarkaður mundi þetta ekki gilda, en það er hann ekki.
    Þetta er höfuðatriði sem fulltrúar Sjálfstfl. og aðrir hér á Alþingi verða auðvitað að gera sér skýra grein fyrir ef þeir vilja byggja stefnumótun sína á réttri fræðilegri greiningu og sönnuðum vísindalegum staðreyndum. Nema þeir séu svo heillum horfnir hugmyndafræðilega séð að þeir gefi bara dauðann og djöfulinn í veruleikann og alla niðurstöðu fræðilegra rannsókna og harkan í hugmyndafræði frjálshyggjunnar sé orðin slík í Sjálfstfl. að þeir berji bara höfðinu við stein veruleikans. Það er þess vegna sem stefnumótun þessarar ríkisstjórnar er í skýrara samræmi við fræðilega niðurstöðu hagfræðinnar á undanförnum áratugum en þessar draumórakenndu tilraunir Sjálfstfl. og samstarfsflokka hans á undanförnum árum til að búa hér til eitthvað sem héti frjáls samkeppnismarkaður í peningakerfinu.
    Þau frumvörp sem ríkisstjórnin hefur lagt fram miða þess vegna að því að skapa þau nauðsynlegu tæki sem þarf til að stýra verðlagi þessa fákeppnismarkaðar, þ.e. vöxtunum, niður, ekki vegna þess að menn séu einhverjir dýrkendur miðstýringar, ekki vegna þess að menn séu að sækjast eftir pólitísku valdi, heldur eru menn einfaldlega að bregðast við veruleikanum og réttum fræðilegum niðurstöðum um eðli þessa markaðar til að ná sem bestum ávinningi á sem skemmstum tíma. Þegar verður búið að stýra þessu niður og jafnvægi hefur skapast geta auðvitað eiginleikar markaðarins á nýjan leik, án slíkrar stýringar, farið að njóta sín.
    Mér finnst stundum eins og umræðan um efnahagsmál hér á Íslandi og í peningamálunum sérstaklega sé með því marki brennd að menn vilji bara alls ekki horfast í augu við þann mikla árangur sem rannsóknir í hagfræði á þessu sviði hafa skilað á undanförnum áratugum og séu svo miklir hugmyndafræðidýrkendur að þeir kjósi frekar að hafa það sem rangt er vegna þess að það samræmist hinum hugmyndafræðilegu forsendum, frekar en að spyrja sjálfan sig: Hver er veruleikinn? Hvers eðlis er hin fræðilega grein?
    Breytingarnar sem ríkisstjórnin leggur til á lögunum

um Seðlabanka, um viðskiptabanka, um verðbréfasjóðina og önnur slík fyrirtæki eru þess vegna óhjákvæmileg tæki til þess að sníða verstu annmarkana, náttúrlegu annmarkana, af fákeppniseinkenni íslenska peningamarkaðarins. Um þetta mætti hafa langt mál, en ég ætla ekki að gera það í dag. Vissulega væri þó mikil ástæða til þess að ræða þetta nánar. Við höfum að vísu vikið að þessu nokkrum sinnum áður á þessu þingi en það birtist núna alveg skýrt og greinilega í þessum frumvörpum. Og ég spyr t.d. fulltrúa Sjálfstfl.: Geta þeir nefnt einhvern íslenskan hagfræðing sem treystir sér til að halda því fram með rökum að íslenski peningamarkaðurinn sé eða geti orðið frjáls samkeppnismarkaður eða eru þeir sammála hinum fræðilegu niðurstöðum um að hér sé um fákeppnismarkað að ræða? Og ástæðan fyrir því að fulltrúar Seðlabankans hafa í greinargerðum sínum brugðist við með þeim hætti sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson vék að hér áðan er auðvitað ekki sú að um einhverjar beinar pólitískar hótanir af hálfu þessarar ríkisstjórnar sé að ræða, heldur þvert á móti það faglega mat Seðlabankans að hér sé um fákeppnis- eða oligopólískan markað að ræða og þess vegna þurfi Seðlabankinn að haga sér í samræmi við það.
    Hitt meginatriðið sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson vék sérstaklega að og var meginefni hans ræðu var að leggja út af eftirfarandi orðum í samþykkt ríkisstjórnarinnar í vaxta- og peningamálum. Með leyfi hæstv. forseta: ,,Á næstu missirum verði reglur um fjármagnshreyfingar og viðskipti fjármálaþjónustu milli Íslands og annarra landa mótaðar á grundvelli tillagna ráðherranefndar Norðurlanda um efnahagsáætlun Norðurlanda 1989--1992.``
    Það er hárrétt hjá hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni að ég átti þátt í því
ásamt fjármálaráðherrum Norðurlanda að ganga frá þessari efnahagsáætlun og klæða hana í þann búning sem þing Norðurlandaráðs mun fjalla um eftir fáeina daga. Hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni er þó væntanlega kunnugt um það, þó að hann hafi ekki vikið að því einu orði í sinni ræðu, að í þessari efnahagsáætlun kemur skýrt fram að fjmrh. Íslands hafði fyrirvara um þann kafla efnahagsáætlunarinnar sem snýr að peningamarkaðinum og þróun fjármálalegra samskipta.
    Í efnahagsáætluninni er það sérstaklega rökstutt að þessi fyrirvari af hálfu Íslands sem samþykktur var af ríkisstjórn Íslands áður en gengið var frá efnahagsáætluninni byggðist á smæð íslenska hagkerfisins og því hve Íslendingar væru sérstaklega háðir sjávarútvegi og náttúruauðlindum í efnahagsstarfsemi sinni. Ég útskýrði síðan þennan fyrirvara á fundi með fjármálaráðherrum Norðurlanda í Kaupmannahöfn í nóvembermánuði og greindi svo frá honum sérstaklega á blaðamannafundi sem haldinn var daginn eftir og einnig á fundi með efnahagsmálanefnd Norðurlandaráðs. Það er þess

vegna alveg ljóst að af hálfu Íslands hefur verið mótaður fyrirvari varðandi framkvæmd þeirra hugmynda og tillagna sem eru í þessum kafla efnahagsáætlunarinnar. Ég vek hins vegar athygli á því að einn af forustumönnum Sjálfstfl. hefur gagnrýnt mig í blaðagrein fyrir þennan fyrirvara og talið hann Íslandi til vansa og lítilsvirðingar. Fjmrh. Íslands hefði átt að samþykkja fyrirvaralaust allar þær tillögur og hugmyndir sem þarna eru og að þær kæmu til framkvæmda hvað Ísland snertir á næstu þremur árum.
    Ég vil þess vegna spyrja hv. þm. Guðmund H. Garðarsson hvort hann telji það rétta ákvörðun hjá ríkisstjórninni og mér að hafa haft fyrirvara um þennan kafla eða hvort það er stefna hans og stefna Sjálfstfl. að Ísland hefði fyrirvaralaust átt að samþykkja öll þau ákvæði sem hann sjálfur rakti hér mjög rækilega í sinni ræðu áðan.
    Þannig er hin formlega staða málsins og alveg nauðsynlegt að hún komi fram vegna þess að hún snertir ekki bara afstöðu mína sem fjmrh. eða afstöðu Alþb. Hún er hin formlega afstaða Íslands í þessari vinnu.
    Síðan er einnig vikið að því í texta áætlunarinnar að Ísland muni síðan taka til sérstakrar athugunar þau atriði sem fram koma í þessari áætlun varðandi þróun peningamarkaðar og fjármagnssamskipta og móta sínar hugmyndir og viðbrögð á grundvelli þeirrar athugunar.
    Það er alveg rétt sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson sagði að það eru að verða mjög afdrifamiklar breytingar í peningamálum, fjármagnshreyfingum, fjármagnsmarkaði, í Evrópu, bæði innan Efnahagsbandalagsins og í ýmsum ríkjum sem tilheyra EFTA. Þetta er hárrétt. Og sú lýsing sem hann fór með er í öllum höfuðatriðum ágæt greinargerð um flestar af þeim hugmyndum sem þar eru á borði eða komnar til framkvæmda. Þess vegna er það líka hluti af veruleikanum sem við þurfum að glíma við að í mikilvægustu viðskiptalöndum okkar, löndum sem við eigum líka menningarlega samstöðu með, sögulega samstöðu með, eru þessar breytingar að gerast, að vísu nokkuð mismunandi hratt eftir löndum, en straumur breytinganna er allur í þessa átt. Hins vegar, eins og vikið var að í hinum formlega fyrirvara Íslands, er íslenska hagkerfið að mörgu leyti sérstakt í evrópsku samhengi, bæði vegna smæðar sinnar og vegna þess að það er ekkert annað dæmi, nema ef vera skyldu Færeyingar og Grænlendingar, um evrópskt hagkerfi sem er að eins stórum hluta háð frumvinnslugreinum og hreinni vinnslu úr náttúruauðlindum og íslenska hagkerfið. Að því leyti má segja að við séum líkari ýmsum hagkerfum sem stundum eru kennd við hinn þriðja heim en hinum háþróuðu iðnríkjum Evrópu sem hafa mótað þessa meginstefnu sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson vék að. En veruleikinn er sá að þessar breytingar eru að gerast í okkar helstu viðskiptalöndum. Þess vegna er það óhjákvæmilegt að íslensk stjórnvöld, Alþingi Íslendinga, stjórnmálaflokkar, taki á næstu mánuðum og missirum til ítarlegrar umfjöllunar að hve miklu leyti samstaða næst um það hér hjá okkur að bregðast

við þessari þróun með breytingum í takt við eða sömu ættar og þarna er kveðið á um.
    Sú umræða er hins vegar ekki hafin. Ég hef hvatt til þess að þingflokkar og þingnefndir kynni sér þessa efnahagsáætlun sérstaklega. Ég sendi hana formlega öllum þingflokkum í lok nóvembermánaðar og hvatti formenn þingflokkanna sérstaklega til þess að hún yrði tekin til umfjöllunar á fundum þingflokkanna. Ég gerði mér hins vegar grein fyrir að það yrði ekkert skyndiverk, en ég taldi að þarna væri á ferðinni svo mikilvægt skjal að nauðsynlegt væri að fulltrúar þingflokkanna fengju það sérstaklega til meðferðar.
    Í samþykkt ríkisstjórnarinnar felst ekkert annað en það að ríkisstjórnin hefur ákveðið á næstu missirum, eins og þar kemur fram, þ.e. á þessu ári og hinu næsta, að taka þessar reglur til ítarlegrar meðferðar og umfjöllunar og móta síðan afstöðu okkar á grundvelli þessara tillagna sem felast í efnahagsáætlun Norðurlanda. Merking þessara orða er sú að við munum í þessari vinnu ganga út frá þeim texta sem þar er að finna en ekki öðrum og víðtækari samþykktum t.d. Evrópubandalagsins eða ýmsum þeim ákvæðum sem þar hafa þróast á peningamarkaði og í fjármagnssamskiptum.
    Í þessari setningu felst ekki nein ákvörðun um niðurstöðu þessarar vinnu. Það er vel hugsanlegt að menn komist að þeirri niðurstöðu að sumar af þessum reglum verði óhjákvæmilega að taka gildi hér á Íslandi. Menn geti komist að þeirri niðurstöðu að aðrar séu varhugaverðar, þær þriðju eigi alls ekki við af ýmsum ástæðum og þannig koll af kolli. Samþykkt ríkisstjórnarinnar er þess vegna yfirlýsing um verkefnaáherslur, um nauðsyn þess að á þessu máli sé tekið og um leið hvatning til Alþingis og þingflokka allra að taka þetta til meðferðar. Ég vil t.d. spyrja hv. þm. Guðmund H. Garðarsson: Hefur Sjálfstfl. fjallað ítarlega um þetta? Hafa öll þessi atriði sem hann rakti hér úr efnahagsáætluninni verið tekin til meðferðar á fundi í þingflokki Sjálfstfl.? Ég hef ekki séð neina yfirlýsingu af hálfu Sjálfstfl. um það að hann vilji að allar þessar reglur eða ákvarðanir gildi um Ísland nú þegar. Ef Sjálfstfl. hefur nú þegar mótað afstöðu sína í þessu máli væri æskilegt að fá það fram. Mér þykir þó líklegra að það sé eins um Sjálfstfl. og aðra flokka í þeim efnum, að hann eigi þá vinnu að mestu leyti eftir. Að þessu leyti tel ég ekki að í þessum texta felist þau dramatsku straumhvörf sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson lét að liggja. Innan ríkisstjornarinnar er hins vegar full samstaða um það að vinna að þessu verki og taka það til rækilegrar skoðunar og ég mun sem fjmrh. ásamt viðskrh. beita mér sérstaklega fyrir því og mun á þingi Norðurlandaráðs gera Norðurlandaráði sérstaka grein fyrir þeim þætti málsins.
    Ríkisstjórnin hefur einnig mótað þá afstöðu, eins og kemur fram í þessum texta, að búa íslenska bankakerfið undir breytingar sem munu fylgja sameinuðum fjármagnsmarkaði Evrópu. En í framhaldi er síðan vakin athygli á því að lykilatriði í því sé að auka hagkvæmni íslenska bankakerfisins þannig að

það geti staðist samkeppni við erlenda banka, m.a. hvað varðar vaxtamun, tryggingar o.fl. Þessi orð fela m.a. það í sér, eins og hv. þm. Guðmundur Ágústsson réttilega rakti hér áðan í umfjöllun sinni um merka blaðagrein, að það verður að fækka íslenskum bönkum, það verður að sameina þá. Sá banki m.a. sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson veitir forstöðu hefur engan öruggan rekstrargrundvöll í framtíðinni nema með því að taka höndum saman við aðrar bankastofnanir, einfaldlega vegna þess að vilji menn ná árangri í hagkvæmni og viðskiptaþróun verða íslenskar bankaeiningar að taka breytingum. Það er yfirlýst stefna þessarar ríkisstjórnar að vinna að því. Núv. viðskrh. hefur varið miklum tíma til þess verks og ég vænti þess að hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson sé þá reiðubúinn að taka þátt í þeirri sameiningu banka sem óhjákvæmilega þarf að verða ef íslenska peningakerfið á að geta lagað sig að þessum óhjákvæmilegu breytingum.
    Ég vona, virðulegi forseti, að þetta svari því sem um var spurt og skýri málið, ekki bara af hálfu okkar alþýðubandalagsmanna heldur einnig af hálfu ríkisstjórnarinnar. Alþb. er mjög ánægt með þá niðurstöðu sem varð í ríkisstjórninni í vaxta- og peningamálum. Við teljum að í þeirri niðurstöðu felist veigamikil viðurkenning á þeirri gagnrýni og þeim viðvörunum sem við höfum flutt hér á Alþingi á undanförnum árum og við teljum að sú stefna taki skýrara mið af raunveruleikanum, sé farsælli til árangurs og muni standa lengur en það fljótræðisverk sem ríkisstjórnin 1983--1987 sameinaðist um þegar hún af hugmyndafræðilegu ofurkappi vildi reyna að umturna íslenska bankakerfinu í andstöðu við veruleikann í eðli þess.
    Virðulegi forseti. Til að draga þetta saman í fáeinar setningar þá er staðreyndin sú að íslenska bankakerfið starfar á fákeppnismarkaði. Stýritækin í vaxta- og peningamálum, starfshættir bankanna verða að taka mið af þeim fákeppnismarkaði. Í umheiminum eru að gerast miklar breytingar í peningamálum og á fjármagnsmörkuðum. Íslenska peningakerfið verður að laga sig að þeim breytingum með einum eða öðrum hætti á næstu árum. Það verður eitt af stórum verkefnum íslenskra stjórnvalda að móta þá aðlögun og velja úr hvaða reglur við viljum að gildi hjá okkur og hverjar ekki. Það er mikið alvöruverk. Það er ekkert fljótræðisverk. Og þess vegna vil ég þakka hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni fyrir að hafa í sinni ítarlegu ræðu hér vakið mjög rækilega athygli á hve margar og veigamiklar spurningar það eru sem ekki bara ríkisstjórnin heldur Alþingi allt þarf að svara á næstu árum þegar við förum að taka afstöðu til þess hvers konar reglur við mótum á grundvelli þeirra tillagna sem settar voru fram í efnahagsáætlun Norðurlandaráðs, áætlun þar sem Ísland hafði og hefur enn formlegan fyrirvara um þann kafla áætlunarinnar sem snertir þetta atriði.