Ríkisreikningur 1979
Þriðjudaginn 14. febrúar 1989

     Sighvatur Björgvinsson:
    Herra forseti. Ég get ekki orða bundist við þessa afgreiðslu. Ekki svo að skilja að ég hafi neinar athugasemdir að gera við þá meðferð sem þetta mál hefur hlotið í hv. fjh.- og viðskn., en ég vil ítreka það sem kom raunar fram hjá hv. frsm. áðan að hér er verið að fjalla um ríkisreikning frá árinu 1979, 10 ára gamlan ríkisreikning.
    Eitthvert mesta umfjöllunarmál á Alþingi á hverju ári sem tekur mestan tíma þingmanna og sennilega mestan tíma í ræðuhöldum er frv. til fjárlaga og afgreiðsla fjárlaga. Síðan gerist það að hér er dengt inn ríkisreikningum fyrir samtals sl. 10 ár þar sem fram kemur hvernig framkvæmdarvaldið hefur staðið að framkvæmd þeirra ákvarðana í ríkisfjármálum sem Alþingi hefur tekið. Og það má segja að þar sé endirinn í öfugu hlutfalli við upphafið því að svo mikið sem við alþingismenn á hinu háa Alþingi Íslendinga ræðum fjárlagafrv., þá opna menn varla munninn þegar afgreiða á árangurinn, sem er ríkisreikningur fyrir hvert ár. Það mál er í fyrsta lagi afgreitt af öðrum aðila í þinginu en þeim sem fjallar um fjárlagafrv. sjálft. Það eru m.ö.o. sameinað þing og fjvn. sem af þingsins hálfu fjallar um fjárlagafrv. og gerir tillögu til Alþingis um afgreiðslu þess og svo eru það hins vegar deildir og fjárhags- og viðskiptanefndir sem fjalla um afgreiðslu ríkisreiknings sem er raunar uppgjör framkvæmdarvaldsins og ríkisstjórnarinnar um hvernig staðið hafi verið við ákvarðanir Alþingis.
    Ég held að menn hljóti að sjá það í hendi sér að þó svo að þetta sé gamalt form og hefðbundið, þá er það ekki gott. Það er ekki gott að sömu aðilar og fjallað hafa um fjárlagagerðina fyrir hönd Alþingis skuli ekki jafnframt fjalla um afgreiðslu ríkisreiknings. Og það er gersamlega út í hött miðað við hve mikla áherslu alþingismenn leggja á afgreiðslu fjárlaga á hverju ári að þá er varla nokkur hv. þm. hér inni sem opnar munninn þegar kemur að því að afgreiða ríkisreikning og aðeins örfáir hv. þm. sem gera sér grein fyrir því í hverju efni ríkisreikningar víkja frá samþykktum fjárlögum og hvaða grundvöll ríkisreikningur á að leggja undir fjárlagagerð hverju sinni.
    Það er, herra forseti, raunar vanvirða við löggjafarvaldið og sýnir hversu framkvæmdarvaldið fótum treður Alþingi Íslendinga og virðir það lítils að framkvæmdarvaldið skuli leyfa sér það að vera að leggja fram ríkisreikning 10 árum eftir afgreiðslu Alþingis á fjárlögum íslenska ríkisins. Það er sjálfsagt besta og mesta dæmið um það hversu framkvæmdarvaldið, embættismannakerfið og ráðherrar Íslands, vanvirða löggjafarasamkomuna og Alþingi.
    Ríkisreikningur, herra forseti, gegnir sama hlutverki fyrir áætlunarbúskap ríkisins og ársreikningur fyrirtækis gegnir varðandi rekstraráætlanir fyrirtækis fyrir komandi ár. Og hvað mundu menn segja um þann fjármálastjóra einkafyrirtækis eða opinbers fyrirtækis sem ekki legði fram ársreikning fyrir fyrirtæki sitt fyrr en 10 árum eftir að árið væri liðið?

Ég er hræddur um að Ríkisendurskoðun mundi gera alvarlegar athugasemdir við framferði hvers þess stjórnanda í ríkisstofnun sem væri að skila ársreikningi 10 árum síðar, 10 árum eftir að það fjárlagaár var liðið sem um var fjallað, og þætti ekki til neinnar fyrirmyndar hjá neinu fyrirtæki.
    En það er þetta, herra forseti, sem framkvæmdarvaldið á Íslandi lætur sig hafa. Það á ekki við um einn eða annan fjármálaráðherra sérstaklega. Þarna er ég að tala um hið ópersónulega framkvæmdarvald, sem kemur fram í mynd eins ráðherra í dag en annars á morgun, að það skuli láta sig hafa það að leggja fram ríkisreikning 10 árum eftir að fjárlagaárið var útrunnið. Hvernig halda menn, herra forseti, að hægt sé að hafa til viðmiðunar reynslu í ríkisbúskap varðandi þá áætlunargerð sem fjárlög eru þegar það liggur ekki fyrir Alþingi Íslendinga og þeim sem eiga að áætla útgjöld íslenska ríkisins fyrr en 10 árum síðar hver reynslan af áætlunum hefur orðið? Hvernig halda menn, herra forseti, að það mundi ganga fyrir mann sem ætti að stjórna fyrirtæki sem ekki fengi slíkar upplýsingar um afkomu fyrirtækisins og útgjöld í einstökum liðum fyrr en 10 árum á eftir tímanum?
    Ég ætla ekki að fara frekar út í þessa sálma nú en þetta er hneyksli. Þetta er algjört hneyksli og Alþingi til skammar að það skuli láta fótum troða sig af framkvæmdarvaldinu svona ár eftir ár. Það er löngu kominn tími til þess að krefjast þess að ríkisreikningar séu lagðir fram eigi síðar en á vormissiri eftir áramót hverju sinni þannig að mönnum geti gefist tækifæri á því að skoða með ekki meira en þriggja til fjögurra mánaða bið hver reynslan hefur orðið af áætlanagerðum í fjárlögum ársins áður. Að þessu á að stefna. Og það er líka löngu orðið tímabært að menn fari að skoða hvernig þeir ætla að standa að afgreiðslu fjárlaukalaga þannig að ekki sé verið að afgreiða heimildir til greiðslu úr ríkissjóði umfram heimldir fjárlaga 10 árum eftir að það hefur átt sér stað.
    Herra forseti. Ég geri mér það fyllilega ljóst að ég tek stórt upp í mig þegar ég segi þetta, en það er engu að síður staðreynd að þetta framferði framkvæmdarvaldsins gagnvart fjárveitingavaldinu og löggjafarvaldinu er hneyksli.