Ríkisreikningur 1979
Þriðjudaginn 14. febrúar 1989

     Alexander Stefánsson:
    Herra forseti. Mér finnst ástæða til að koma aðeins inn í þessar umræður sem eru vissulega þýðingarmiklar ef þær væru gerðar undir öðrum kringumstæðum en hér liggur fyrir. Ég get tekið undir það sem hér hefur komið fram hjá hv. 5. þm. Vestf., formanni fjvn., að þetta er ekki tilefni til að setja þessi mál svona upp eins og hér hefur verið gert. Ég hefði haldið að það hefði verið betra að ræða þessa ríkisreikninga saman. En það sem ég vildi fyrst og fremst vekja athygli á, sem ég vænti að hv. alþm. yfirleitt eigi að vita en hafa kannski ekki gert sér grein fyrir, er það hversu gífurleg breyting er að verða á þessum málum nú með tilkomu Ríkisendurskoðunar undir Alþingi. Ég ætla ekki að ræða þetta neikvæða í þessum málum, sem við þingmenn erum sjálfsagt allir sammála um, en með síðustu fjárlagagerð hefur þó verið lögð alveg sérstök áhersla á það að Ríkisendurskoðun taki þetta mál föstum tökum jafnhliða því sem yfirskoðunarmenn ríkisreikninga eru að skila af sér þannig að það komi annað form á þessi mál en áður hefur verið venja.
    Ég geri ráð fyrir því að flestir hv. þm. hafi fengið skýrslu Ríkisendurskoðunar um ríkisreikninginn 1987, sem liggur hér á borðum þingmanna, en þar eru þessi mál skýrð að nokkru. Ríkisendurskoðun er nú þegar búin að hafa með það að gera að koma þessum ríkisreikningum frá árinu 1979 til ársloka 1987 í það form sem þeir eiga að vera. Við eigum núna, eftir örfáa daga væntanlega, eftir að sjá frumvörp um lokaafgreiðslu á ríkisreikningnum 1987 sem ég geri ráð fyrir að fjmrh. hljóti að skila til þingsins áður en langt um líður. Jafnframt þessu þurfa auðvitað að koma fjáraukalög sem ættu að vera í því formi að fjáraukalög fylgdu hverju fjárlagafrv. þegar það er lagt fram fyrir árið áður. Það er alveg útilokað að halda þessu formi óbreyttu. Ég vil undirstrika það að núv. fjvn., sem starfaði á sl. ári, lagði á þetta gífurlega áherslu. Hún setti þau skilyrði í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna, og ég vænti þess að hv. þm. hafi undir höndum ræðu formanns fjvn. með fjárlögum fyrir árið 1989, þar sem hann gerði sérstaklega grein fyrir þessum málum ásamt öðrum fjárveitinganefndarmönnum sem um þessi mál fjölluðu, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu. Það er því ástæðulaust annað en snúa sér að því verkefni að Alþingi hreinsi til í þessum málum þannig að þetta verði komið í það form sem lög og reglur raunverulega gera ráð fyrir því það er útilokað að það skuli ske ár eftir ár, það er sama hvaða ríkisstjórn hefur verið eða fjármálaráðherra hverju sinni, að það sé alltaf verið að veita aukafjárveitingar umfram fjárlög og ýmsar skuldbindingar sem Alþingi fær ekki að fjalla um fyrr en löngu, löngu seinna og jafnvel mörgum árum seinna eins og hér hefur komið fram.
    Þetta vil ég sérstaklega taka fram og ég vil bæta því við að nú fyrir örfáum dögum var fjvn. á fundi með hæstv. fjmrh. þar sem þessi mál voru sérstaklega til umræðu og við fjárveitinganefndarmenn vorum fullvissaðir um að það væri aðeins dagaspursmál

hvenær lokaafgreiðsla á þessum málum gæti komið fyrir Alþingi eins og allir hv. alþm. eru væntanlega sammála um. Mér finnst nauðsynlegt að þetta komi fram.
    Ég tek undir allt það sem hér hefur verið sagt, en ég vil um leið undirstrika það að þingmenn geri sér grein fyrir því hvaða gildi það hefur að Ríkisendurskoðun starfar nú undir forsæti Alþingis.