Ríkisreikningur 1979
Þriðjudaginn 14. febrúar 1989

     Sighvatur Björgvinsson:
    Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég verð að lýsa mikilli ánægju minni með þau ummæli sem hér hafa fallið frá öllum þeim þingmönnum sem tekið hafa til máls. Það sýnir að menn gera sér fulla grein fyrir því að pottur er brotinn og vilja bæta þar úr.
    Ég vil aðeins benda mönnum á eitt, út af orðum hv. 17. þm. Reykv. hér áðan, að það væri e.t.v. meira mál að gera breytingar í meðferð framkvæmdarvaldsins en löggjafarvaldsins á fjárlögum og afgreiðslum þeim tengdum. Það er ekki alveg einhlítt að gera breytingu varðandi meðferð framkvæmdarvaldsins þar á, svo sem eins og marka má af því að hér ganga menn til afgreiðslu á ríkisreikningi, en engin afgreiðsla liggur enn fyrir á fjáraukalögum þannig að þó svo að samþykkt á ríkisreikningi sé raunar ekki annað en samþykkt Alþingis á að rétt sé bókfært, þá liggur engu að síður í þeirri afgreiðslu ákvörðun um að Alþingi muni samþykkja þau fjáraukalög sem til þarf til þess að dæmið gangi upp. Það er náttúrlega í hæsta máta óeðlilegt að það sé verið að afgreiða ríkisreikning þegar fjáraukalög hafa ekki verið afgreidd. Það er líka í hæsta máta óeðlilegt, eins og ég sagði áðan, að önnur nefnd í Alþingi skuli fjalla um ríkisreikning en sú sem fjallar um fjárlög og fjáraukalög. Og það er líka í hæsta máta óeðlilegt að ríkisreikningur sé afgreiddur í deildum Alþingis þegar fjárlög og fjáraukalög eru afgreidd í sameinuðu þingi. Það er því einnig hægt að gera betur í sambandi við afgreiðslu Alþingis á þessum málum og á að gera betur. Hv. alþm. eiga að gera þá kröfu til sjálfra sín að þeir standi sig ekkert síður í þeirri afgreiðslu en aðrir. Auðvitað hefði verið eðlilegast að bæði ríkisreikningur og fjáraukalög yrðu afgreidd á Alþingi á svipuðum tíma, en menn væru ekki að afgreiða ríkisreikning löngu áður en menn væru teknir til við að fjalla um þau fjáraukalög sem þeim eiga að fylgja.
    Í annan stað vil ég nota þetta tækifæri til að taka undir með mönnum og hvetja alþm. til að gera sér grein fyrir þeirri miklu breytingu sem orðið hefur við tilkomu Ríkisendurskoðunar. Og eins og hv. 3. þm. Norðurl. e., sem talaði hér áðan, vil ég vekja athygli manna á þskj. sem dreift hefur verið hér á borð þingmanna: ,,Ríkisreikningur fyrir árið 1987, fylgirit``, því þar eru veittar upplýsingar sem ekki hafa áður komið fram við sambærilegar afgreiðslur, þar sem m.a. koma fram upplýsingar sem eru mjög óvæntar um bifreiðakostnað, risnu og ferðakostnað. Af þessu má marka hve oft er lítill gaumur gefinn að þskj. að svo virðist sem fjölmiðlar og fréttastöðvar --- sem yfirleitt eru á hlaupunum eftir hinu smæsta meðal þess smæsta sem hægt er að skýra frá í fréttum --- svo virðist sem fáir eða engir meðal þeirra fréttamanna, sem eru þó margir, hafi sett sig í færi um að fletta aðeins þessari skýrslu. Í henni kemur m.a. fram að ferða- og risnukostnaður ríkisins á árinu 1987 nemur um það bil 1 milljarði kr. Þar kemur einnig fram t.d. að kostnaður við starfsmannabíla aðeins í A-hluta fjárlaga fyrir árið 1987, hjá ríkissjóði sjálfum, er upp

á 185 millj. kr. Þessar upplýsingar eru veittar í fyrsta skipti fyrir tilkomu Ríkisendurskoðunar.
    Ég vil einnig staðfesta það sem hv. 1. þm. Vesturl. sagði hér áðan að innan fárra daga munu koma fram frekari upplýsingar frá Ríkisendurskoðun og fjmrn. um ríkisreikninginn, þar sem m.a. kemur glögglega fram hvaða ríkisstofnanir og ráðuneyti það eru sem hafa staðið við fjárlagaramma þann sem Alþingi hefur sett þeim og hverjir ekki. Síðan er það auðvitað Alþingis, löggjafarvaldsins og væntanlega fjmrn. að gera kröfu til þess að forstöðumenn stofnana standi við ákvarðanir Alþingis, en verðlauni þá ekki fyrir að gera það ekki.