Vaxtalög
Þriðjudaginn 14. febrúar 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Frv. það sem hér liggur fyrir hv. Nd. um breytingar á vaxtalögum er þáttur í þeim efnahagsráðstöfunum sem ríkisstjórnin kynnti í liðinni viku. Með frv. eru gerðar tillögur um endurbætur á vaxtalögunum og þær eru settar fram í ljósi reynslunnar sem fengist hefur af framkvæmd þeirra.
    Í 1. og 2. gr. frv. eru gerðar tillögur um breytingar á 5. og 7. gr. núgildandi vaxtalaga. Þessar tillögur miða að því að skýra ákvæðin betur þannig að þau verði ótvírætt í samræmi við þá ætlan löggjafans þegar vaxtalögin voru sett að vextir af samningsskuldum og skaðabótakröfum breytist í hátt við vegið meðaltal vaxta hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum, annars vegar á nýjum almennum útlánum og hins vegar á almennum óbundnum sparisjóðsreikningum.
    Í 3. gr. frv. er lagt til að ákvæði vaxtalaga um tilkynningarskyldu innlánsstofnana til Seðlabankans um þau vaxtakjör sem hjá þeim stofnunum gilda skuli framvegis einnig taka til verðbréfafyrirtækja eftir því sem við getur átt. Þessi skylda er á þau lögð í því skyni að koma á jafnræði um upplýsingaskyldu á fjármagnsmarkaðinum.
    Í 4. gr. frv. er gerð tillaga um orðalagsbreytingu á 1. mgr. 9. gr. núgildandi vaxtalaga en með því móti verður greinin að mínu áliti nákvæmar orðuð en nú er. Samkvæmt því er ljóst að dráttarvextir skulu greiðast frá og með gjalddaga fram að greiðsludegi. Fari greiðsla fram á gjalddaga skulu engir dráttarvextir greiddir.
    Þá er lagt til að við 9. gr. vaxtalaganna bætist ný málsgrein sem verði 2. mgr. 9. gr., þess efnis að dráttarvextir skuli ætíð reiknast sem dagvextir. Þetta ákvæði er reyndar í bráðabirgðalögum nr. 83 frá 1988, dags. 28. sept. sl., en mér þykir rétt, úr því að hér er flutt frv. til breytinga á vaxtalögunum, að fella þá málsgrein inn í vaxtalögin.
    Í 5. gr. frv. er lagt til að í 14. gr. vaxtalaganna komi ný málsgrein varðandi kröfugerð um dráttarvexti í málshöfðunum fyrir dómastóla. Tillaga þessi er flutt vegna ábendinga sem fram hafa komið frá fulltrúum við Borgardóm Reykjavíkur og frá Lögmannafélagi Íslands. Með þessari breytingu er veitt heimild til þess að gera dráttarvaxtakröfu í stefnum miklu einfaldari en ef um er að ræða peningakröfu sem gjaldfallið hefur eftir gildistöku vaxtalaganna. Vaxtalögin mæla fyrir um það að dráttarvexti skuli greiða af peningakröfum, sbr. 9. og 10. gr. vaxtalaganna. Ef þetta er samþykkt er ekki lengur þörf á þeirri dráttarvaxtaþulu sem alllöng er og tíðkast hefur í stefnum vegna peningaskuldbindinga sem gjaldfallið hafa fyrir gildistöku vaxtalaga.
    Í 6. gr. frv. er gerð tillaga um breytingu á ákvæði vaxtalaga um refsiábyrgð fyrir misneytingu aðstöðu við vaxtatöku, m.ö.o. fyrir okur. Breytingin tengist ráðgerðri breytingu á 9. gr. laga um Seðlabanka Íslands en þar er lagt til að Seðlabankanum verði framvegis heimilað að binda vaxtaákvarðanir innlánsstofnana takmörkunum til þess að vextir verði

hóflegir og ekki hærri en þeir eru að jafnaði í helstu viðskiptalöndum Íslendinga. Svo og til að draga úr óhæfilegum vaxtamun milli inn- og útlána eins og nánar greinir í frv. til laga um breytingar á lögunum um Seðlabanka Íslands sem nú er til umræðu í hv. Ed.
    Ég vek athygli á því að umbrotsgalli er á frv. því auðvitað áttu ekki að vera málsgreinaskil í 6. gr. frv. því hér er um eina málsgrein að ræða, þ.e. skilorðssetningin sem byrjar á orðunum ,,Hafi Seðlabanki Íslands`` átti að koma í beinu framhaldi af orðunum ,,allt að tveimur árum``. En til þess að gera málið skýrara ætti að prenta hér upp í frv. alla 1. mgr. laganna svo menn sjái í hvaða samhengi þessi viðbótartillaga er gerð en hins vegar hefur af mistökum í prentsmiðju verið skipt í tvær málsgreinar.
    Þessi tillaga er gerð til þess að gera það alveg skýrt að viðmiðun við misneytingarmat skuli vera þeir vextir sem gilda eftir íhlutun Seðlabankans ef um hana er að ræða.
    Í 6. gr. frv., sem ég er hér að ræða, er þannig lagt til að tekið verði mið af því hvort ákvörðun skv. 9. gr. seðlabankalaganna hafi verið tekin. Hafi Seðlabankinn hlutast til um vexti útlána hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum á grundvelli 9. gr. laga nr. 36/1986 skulu vaxtamörk útlána hvað varðar refsiábyrgð fyrir okur vera þau sem Seðlabankinn hafði ákveðið. Það er reyndar þörf á þessari breytingu að mínu áliti hvort sem 9. gr. seðlabankalaganna er breytt frá því sem hún er nú eður ei til þess að taka af öll tvímæli í þessu efni eins og sést þegar saman eru lesin ákvæði vaxtalaganna eins og þau nú standa.
    Þá er í þessu frv. lagt til að í vaxtalögin komi nýr kafli sem beri heitið ,,Vaxtakjör opinberra fjárfestingarlánasjóða``. Almenn ákvæði um vaxtakjör fjárfestingarlánasjóðanna voru áður í lögum nr. 13 frá árinu 1975, en þau voru úr gildi felld í lok liðins árs um leið og veðdeildir bankanna urðu skattskyldar, enda var upphaflega ráðgert að gera sjóðina einnig skattskylda. Úr því varð þó ekki og því þykir rétt að opinberir fjárfestingarlánasjóðir búi við samræmdar reglur um vaxtakjör eins og ráð er gert fyrir í þessu frv.
Reyndar er það svo að regla hliðstæð þeirri sem hér er gerð tillaga um er í gildi í einstökum lögum um fjárfestingarlánasjóði, t.d. í lögunum um Iðnlánasjóð sem gefin voru út að nýju í samfelldum texta sumarið 1987. Í samræmi við þetta er viðskrh. hér heimilað samkvæmt tillögunni að setja meginreglur um lánakjör opinberra fjárfestingarlánasjóða og jafnframt eru þar settar nánari verklagsreglur um útfærsluna.
    Hæstv. forseti. Ég hef nú lokið við að lýsa í meginatriðum frv. því til breytinga á vaxtalögum sem hér er til umræðu. Ég leyfi mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.