Stjórn efnahagsmála o.fl.
Þriðjudaginn 14. febrúar 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka forseta fyrir að leyfa mér að mæla fyrir þessum tveimur vaxtalagafrumvörpum í samfellu. Ég mæli hér fyrir í fimmta dagskrármálinu frv. til l. um breytingu á lögum nr. 13 frá 10. apríl 1979, um stjórn efnahagsmála o.fl. Þar á ég við þau lög sem í daglegu tali eru oftast nefnd Ólafslög.
    Þetta frv. er flutt til þess að bæta inn í ákvæði þeirra laga nauðsynlegum heimildum varðandi lágmarkstíma verðtryggðra innlána og útlána og varðandi vexti af verðtryggðum skuldbindingum. Breytingin er við 39. gr. laganna þar sem fjallað er um skilyrði verðtryggingar.
    Í fyrsta lagi er lagt til að í stað 3. tölul., sem felldur hefur verið úr gildi, komi inn nýr 3. tölul. Þessi töluliður er efnislega samhljóða ákvæðum í bráðabirgðalögum nr. 44 frá 20. maí 1988, sbr. lög nr. 14 frá 1988, en í þeim lögum er kveðið á um að verðtrygging sparifjár og lánsfjár skuli eigi vera til skemmri tíma en tveggja ára hvað varðar aðrar skuldbindingar en sparifjárinnstæður sem því aðeins mega njóta verðtryggingar að bundnar séu í sex mánuði eða lengur. Hér er lagt til að þessi ákvæði um lágmarkstíma verðtryggðra skuldbindinga verði felld inn í 39. gr. laganna sem fjalla um skilyrði verðtryggingar. Þá er lagt til að bætt verði í lögin nýrri 3. mgr. sem veiti Seðlabankanum með staðfestingu ráðherra heimild til þess að ákveða lengri lágmarkstíma verðtryggðra sparireikninga og útlána og --- og það er mjög mikilvæg tillaga --- að Seðlabankanum verði heimilað að ákveða að vextir verðtryggðra útlána skuli vera óbreytilegir á lánstímanum. Til þess að taka slíka ákvörðun þarf Seðlabankinn heimild viðskrh.
    Þá getur Seðlabankinn einnig á sama hátt veitt undanþágu til skemmri binditíma verðtryggðra fjárskuldbindinga þegar sérstakar aðstæður eru fyrir hendi eins og greinir í tillögugreininni.
    Hér er um mikilvægt þingmál að ræða þótt það láti ekki mikið yfir sér. Ríkisstjórnin vill vinna að því þegar til langs tíma er litið að draga skipulega úr mikilvægi verðtryggingar á lánamarkaðnum, eftir því sem úr verðbólgu dregur, og þar er lenging lágmarkstímans mikilvægt atriði. Hér er þetta þannig hugsað að eftir því sem verðlag gerist stöðugra --- og verðbólgan minni --- sé óhætt að lengja þennan lágmarkstíma og stuðla þannig að því smám saman að vísitölutengingar á skammtímaskuldbindingum hverfi.
    Þá þykir mér einnig vera sanngirnismál, og hefði reyndar átt að vera svo frá upphafi, að óbreytilegir vextir gildi á verðtryggðum lánum, enda má halda því fram með gildum rökum að verðtryggingin eyði stærstum hluta óvissunnar í lánssamningum. Ef vextirnir væru óbreytilegir er næsta víst að þeir yrðu virkara stjórntæki í efnahagslífinu. Menn kynnu þá fremur að fresta fjárfestingu þegar vextir eru háir en auka framkvæmdir þegar lækka, en þannig koma áhrif vaxta víða um lönd fram og ætti svo auðvitað einnig að vera hér. Breytilegir vextir jafnt á verðtryggðum

sem óverðtryggðum skuldbindingum draga hins vegar úr áhrifamætti vaxtanna hvað þetta varðar. Ég tel að þetta sé breyting sem verði að ákveða í hentugan tíma. Hún mun þá bera ríkulegan ávöxt að mínu áliti ef hún er borin fram í hentugan tíma, og það verður vissulega að sæta færis með að gera slíka breytingu. Ég er sannfærður um að hún verður til góðs í okkar efnahagslífi, en ég tel rétt að gera þetta þannig að Seðlabankinn fá heimild til þess að ákveða þetta þegar heppilega stendur á á fjármagnsmarkaðnum. Sé það almennt álit manna að raunvextir séu í hærra lagi, eins og manni gæti virst af því að hlusta á ræður manna hér í þinginu m.a., þá er nú varla rétti tíminn til að binda þessa vexti. En hins vegar þegar betur stæði á kynni að vera rétt að sæta færis og festa vexti af verðtryggðum skuldbindingum, ekki þannig að það sé gert með miðstjórnarákvörðunum hverjir þeir skuli vera heldur að samningarnir skuli þannig gerðir, ef verðtryggðir eru, að í þeim séu ekki breytilegir heldur óbreytilegir vextir á lánstímanum eða a.m.k. einhver tiltekinn hluta hans.
    Virðulegi forseti. Ég legg áherslu á að þau frumvörp bæði sem ég hef mælt hér fyrir hljóti skjóta en vandaða meðferð í deildinni og legg til að þessu frv. eins og hinu fyrr verði vísað til 2. umr og hv. fjh.- og viðskn.