Stjórn efnahagsmála o.fl.
Þriðjudaginn 14. febrúar 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Ég vildi einungis þakka hv. 17. þm. Reykv. fyrir undirtektirnar við þessi tvö frv. Oft er nú mjór mikils vísir og ekki skyldi maður dæma allt eftir umfanginu. Reyndar vona ég að þessi umræða sýni það líka að skammar umræður geta verið betri en langar og að mikilvægi mála fari ekki eftir fjölda orðanna sem um þau falla.
    Ég tek ábendingum hv. 17. þm. Reykv. um framsetningargalla, stafsetningu og umbrot þakksamlega. Ég tek undir það að beina því til forseta þessarar hv. deildar að sjá til þess að frv. verði prentað upp milli umræðna. Ég ítreka þó að ég tel að það vaki hvergi í veðri neitt meira eða minna en það sem hér er til lagt. Ekki er það í athugasemdunum og ekki var það í mínu máli hvað varðaði 6. gr. frv. til l. um breytingu á vaxtalögum. Ég fagna því að hv. 17. þm. Reykv. telur viðbótina við 1. mgr. 17. gr. núgildandi vaxtalaga eðlilega og fagna því jafnframt að hann skuli hafa séð að hennar er þörf hvernig sem 9. gr. seðlabankalaganna er vaxin. Miðað við það að þar sé inni heimild til íhlutunar hlýtur þetta að þurfa að vera þarna, eins og samlestur á vaxtalögunum mundi auðveldlega leiða í ljós, ef menn tækju til þess tíma.
    Ég vil að lokum eingöngu segja að þau sjónarmið, sem hreyft var varðandi þau skilyrði sem uppfylla þarf til þess að unnt sé að setja það sem almenna reglu að vextir á verðtryggðum lánum skuli vera óbreytilegir á lánstímanum sem meginregla, eru margvísleg. Hv. þm. hreyfði einu slíku atriði, þ.e. þeim vöxtum sem ríkja á húsnæðislánum og víða eru nú mun lægri en algengustu vextir. Þetta er vissulega mál sem full þörf er á að taka til athugunar þegar slíkar ákvarðanir verða teknar og er einmitt eitt af þeim atriðum sem ég hafði í huga þegar ég sagði að Seðlabankinn og viðskrh. hlytu að meta allar markaðsaðstæður í heild áður en slík ákvörðun yrði tekin, en að þeim skilyrðum uppfylltum, þeim heppilegu aðstæðum, tel ég að það mundi horfa til heilla að taka upp það lag sem hér er gerð um tillaga.