Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1989

     Karvel Pálmason:
    Virðulegi forseti. Ég dreg enga dul á það að hér er vissulega réttlætismál á ferðinni, og ég hef í sjálfu sér ekki breytt neinni skoðun frá því að ég stóð að flutningi slíkrar tillögu fyrir nokkru síðan. Ég er meira að segja þeirrar skoðunar að það eigi að gera ráðstafanir til þess að annar maki geti verið heima á sömu réttindum og hinn, nánast með lögbindingu. Ég tel að sú þjóðfélagsþróun sem hefur farið vaxandi, að stofna til dagheimila og slíkra hluta, að mínu viti um of, sé til þess fallin að breyta þjóðfélagsmynstrinu til hins verra. Það er vissulega svo og ég hef aldrei dregið dul á það að móðurhlutverkinu verður aldrei sinnt á dagvistunarstofnunum og það á að sjálfsögðu að gera ráðstafanir til þess að þjóðfélagið geti byggt á gömlum merg þess uppeldis sem það hefur þróað í gegnum árin og það eigi að verða til þess að hlúa að heimilishaldinu eins og best verður á kosið.
    Nú skal ég ekkert um það segja hvað slíkir hlutir sem hér er gert ráð fyrir kosta. Ég heyrði að hv. þm. Guðmundur Ágústsson nefndi 500 millj. Mér sýnist á grg. að sagt sé 500--700 millj. af Þjóðhagsstofnun. Það skiptir út af fyrir sig ekki meginmáli, en auðvitað verða menn líka að horfa til þess með hvaða hætti á að taka þessa peninga sem hér er um að ræða. Ég er ekki að segja að það sé ekki hægt. Það má auðvitað gera með ýmsum hætti, en menn verða líka að horfa til þess hlutar að eins og auðvitað er nefnt hér, bæði í grg. og í framsögunni, segir aukin skattheimta til sín og hefur sagt til sín, bæði í tíð núv. ríkisstjórnar og gerði líka í tíð fyrrv. ríkisstjórnar, muni ég rétt, og ekkert síður að mínu viti.
    Ég vildi sem sagt ítreka það að ég hef á engan hátt breytt skoðun minni í þessum efnum og tel að nauðsynlegt sé af þjóðfélagsins hálfu að tekið sé til hendinni í því að gera hvorum makanum sem er heimavinnandi kleift að sinna því hlutverki sem ég tel að sé skynsamlegast fyrir þjóðfélagið.