Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1989

     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið er ég meðflm. að þessu frv. og þarf þar af leiðandi ekki að hafa hér langt mál eða bæta við þau ítarlegu rök sem fram komu í framsöguræðu 1. flm., hv. 8. þm. Reykv., hér áðan. Það má segja að það sé tiltölulega stutt síðan staða heimavinnandi húsmæðra fór að fá einhverja umfjöllun í opinberri umræðu. Kannski er skýringa að leita í því að húsmæður hafa verið hinn þöguli hópur í þjóðfélaginu sem gerir ekki kröfur fyrir sjálfan sig.
    En nú eru breyttir tímar eins og svo oft heyrist þegar hagsmuni fjölskyldunnar ber á góma og þjóðfélagið þarf að aðlaga sig þessum breyttu högum fjölskyldunnar í þjóðfélaginu. Það mætti nefna ýmis dæmi um hvernig réttur heimavinnandi húsmóður er fyrir borð borinn. Ég nefni fyrst og fremst húsmóður vegna þess að til skamms tíma hafa það fyrst og fremst verið þær sem eru heimavinnandi þó að það sé nú að verða breyting á slíku og jafnvel mætti fara að tala um heimavinnandi maka því að það getur eins verið faðirinn sem velur það að vera heima.
    En sú staðreynd blasir við að t.d. við skilnað hefur heimavinnandi húsmóðir engin lífeyrisréttindi. Lífeyrisréttur maka fylgir honum við skilnaðinn og nú er þetta orðið stórt vandamál og mikið hagsmunamál vegna þess hve skilnuðum hefur fjölgað.
    Ég lít svo á að það breyti engu um jafnréttisbaráttu að leiðrétta það sem hér er á ferðinni samkvæmt þessu frv. Þetta er réttlætismál og ég hef litið svo á að 80% reglan hafi aðeins verið áfangi á réttri leið og skv. 2. gr. frv. er fyrirvarinn svo góður til að undirbúa þessa framkvæmd ef vilji er fyrir hendi hjá þeim sem nú ráða hér ferðinni að það ætti ekki að verða stórt vandamál með því að huga að því í tíma. Eins og ég sagði áðan er orðið réttlætismál vegna breyttra þjóðfélagshátta að refsa ekki þeim heimilum skattalega sem velja þá leið að annar aðilinn sé heimavinnandi.