Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1989

     Valgerður Sverrisdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég er ekki meðflm. að þessu frv. eins og fram hefur komið þó að mér hafi verið boðið upp á það. En það þýðir ekki að mér finnist þetta slæmt mál. Ég verð hins vegar að segja að það kemur mér svolítið á óvart að hv. 8. þm. Reykv. skuli ekki hafa nýtt sér það þegar hún var í stjórnaraðstöðu að koma með þetta mál fram frekar en núna þegar hún er aftur á móti í stjórnarandstöðu.
    En það sem gerði það að verkum að ég ákvað að leggja hér nokkur orð í belg voru orð hv. 3. þm. Vestf. Mér fannst þau koma nánast aftan úr grárri forneskju því eins og ég skildi hann taldi hann vera það æskilegasta að konan væri bara heima og passaði börnin. ( KP: Manninn.) Við þurfum ekkert að tala um það. Karlarnir fara ekkert inn á heimili til að passa börnin á meðan konan vinnur utan heimilis. Þetta varð til þess að ég varð að segja hér nokkur orð.
    Nú er ég ekki að segja að það sé óæskilegt og það sé miður að konan sé tímabundið inni á heimilinu og gæti sérstaklega ungra barna, en mér finnst það ekki vera neitt til að stefna sérstaklega að. Það er nefnilega þannig að þegar karlmenn eru að tala um þessi mál hafa þeir allt of litla þekkingu á málinu til þess að geta tjáð sig. Þeir hafa nefnilega ekki prófað að vera húsmæður. ( KP: Það geta þeir.) Ég nánast þori að fullyrða að hv. 3. þm. Vestf. hefur aldrei upplifað að vera húsmóðir í lengri tíma. ( KP: Ég get ekki verið kona.) Það hef ég gert. Þú getur verið húsmóðir alveg eins og konur geta verið þingmenn. ( KP: Ég veit það ekki.) Jæja, en ég get bara sagt að eftir að hafa prófað að vera ,,bara húsmóðir``, eins og maður leyfir sér að segja, um tíma með ung börn þori ég að fullyrða að ég var verri móðir á þeim tíma en ég er þegar ég vinn við skulum segja hæfilega mikið utan heimilis. Ég get viðurkennt að það að vera þingmaður þýðir það að vinna er of mikil utan heimilis. Þess vegna er það ekkert til þess að sækjast sérstaklega eftir eða stefna að að konurnar séu eingöngu inni á heimilunum og gæti barna sinna, enda er það orðið svo nú á tímum að fólk á ekki það mörg börn að það sé full vinna nema þá rétt meðan þau eru kornabörn að annast þau eingöngu og þess vegna finnst mér að það sem við hljótum að stefna að sé að það sé nóg dagvistarrými fyrir börn þannig að bæði móðir og faðir geti unnið utan heimilis og það æskilegasta er að þau skipti störfunum á heimilinu jafnt á milli sín, en því miður er það ekki það sem við sjáum fyrir okkur í dag og kannski ekki í nánustu framtíð. Það er vegna þess að karlmenn hafa ekki áttað sig á þeirri þjóðfélagsbreytingu sem er að eiga sér stað og á að eiga sér stað.