Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1989

     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég gat ekki á mér setið að koma upp aftur. Það var kannski vegna orða hv. 5. þm. Norðurl. e., sem hún beindi að vísu til hv. 1. flm., sem mér fannst ekki alveg sanngjarnt þar sem vitað er að 1. flm. þessa frv. situr ekki hér á þingi nema sem varamaður og hefur þar af leiðandi ekki tækifæri til að flytja öll þau mál sem hún hefði áhuga á á hverjum tíma. En hv. 5. þm. Norðurl. e. fannst skrýtið að það væri verið að flytja svona mál og ekkert hefði verið gert meðan tækifæri var, þegar Sjálfstfl., væntanlega, var aðili að ríkisstjórn.
    Það er kannski ekkert skrýtið að hv. 5. þm. Norðurl. e. hafi komið með þessa gagnrýni við þetta tækifæri. Það finnst mér í sjálfu sér mannlegt. En ég vil benda hv. 5. þm. Norðurl. e. á að ég veit ekki betur en 80% hlutfallið hafi einmitt orðið til við slíkar aðstæður þegar Sjálfstfl. var aðili að því að breyta skattalögunum. Eins og ég sagði hér áðan höfum við alltaf litið svo á að það væri áfangi á réttri leið.
    Hún talaði um að henni fyndist það ekki til að sækjast eftir eða stefna að að konur eða mæður séu heima. Það er kannski ekki málið. Það er hins vegar meginmálið að foreldrum sé gert kleift að velja, að þeim sé ekki refsað skattalega séð fyrir að vilja fara þá leið að annað foreldri sé heima t.d. meðan börnin eru ung og vilji sjálfir hafa þá umönnun barnanna sem annars þarf að leita eftir utan heimilis.
    Ég get svo tekið undir það með hv. 5. þm. Norðurl. e. að auðvitað er eðlilegt að ungar konur sem karlar vilji hafa þá möguleika að velja sér þau störf sem þau hafa t.d. menntað sig til og hafi aðstöðu til að sinna sínum áhugamálum utan heimilis. Það er líka nauðsynlegt.
    En það voru kannski orð hv. 9. þm. Reykn. sem fengu mig líka til að koma aftur í ræðustólinn því að ég vildi gjarnan taka undir það með honum sem hann sagði um tekjuskattinn að hann er af hinu illa og best væri að fella hann niður, eins og hann orðaði það. Það hefur verið baráttumál okkar sjálfstæðismanna eins og hann nefndi og reyndar Alþfl. líka að fella niður tekjuskatt af almennum launatekjum.
    Ég get líka tekið undir það með honum að það er þarft að ræða þessi mál. Ég sakna þess hins vegar að hæstv. fjmrh. skuli ekki vera við þessa umræðu. Ég hefði haldið að hann hefði kannski áhuga á því að heyra viðhorf og umfjöllun um þessi mál hér þegar verið er að flytja frv. um breytingu á einu af þeim meginverkefnum sem heyra undir hans ráðuneyti sem eru skattamálin.
    En ég vildi sem sagt taka undir það með hv. 9. þm. Reykn. og þakka honum fyrir að hann tók jákvætt undir þetta frv. Hann viðurkenndi að þetta væri rökrétt og gott mál og það þyrfti að finna leiðir til að útrýma tekjuskattinum. Ég held að Sjálfstfl. og þá með aðstoð Alþfl. gæti áorkað miklu í þeim efnum ef þeir fá einhvern tíma tækifæri til að vinna saman að slíkum góðum málum.