Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1989

     Margrét Frímannsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég kem hér til þess að fagna framlagningu þessa frv. og tel að hér sé vissulega hreyft mikilsverðu máli sem þörf er á að ræða. Ég kem þó kannski fyrst og fremst hér vegna þess skilnings sem ég legg í orð þeirra hv. þm. sem hér hafa talað um að í frv. felist tilraun til að ýta konum eða koma þeim inn á heimilið aftur. Ég lít ekki á frv. sem slíkt heldur að það er verið að gera þeim konum eða körlum sem það vilja mögulegt að vera starfandi inni á heimilinu. Það er nú einu sinni svo að þó það hafi orðið miklar breytingar í þessu þjóðfélagi eru enn til konur og karlar, og sá hópur er nú reyndar býsna stór, sem vilja gjarnan eyða sem mestum tíma með börnunum sínum á fyrstu æviárum þeirra. Við getum ekki horft fram hjá þessu. Þrátt fyrir það að við séum alltaf að tala um breyttar aðstæður í þjóðfélaginu, breytta þjóðfélagsgerð, breytist þetta eðli, þessi þörf, ekki svo glatt.
    Mér fannst nauðsynlegt að koma hér upp til að segja þetta vegna þess að ég er kona og vegna þess að ég er móðir og ég þekki þessar tilfinningar og ég veit líka að það eru ýmsir feður sem eiga þær til og vildu gjarnan á sama hátt dvelja sem mest með börnum sínum. Ég vil svo segja það líka að ég sakna þess að fjmrh. skuli ekki vera hér og lít reyndar á það sem hlutverk hæstv. forseta deildanna að sjá til þess að ráðherrar séu til staðar þegar mál sem þá varða eru rædd. Þetta skiptir töluverðu um tekjur ríkissjóðs og er því mál hæstv. fjmrh. Því ætti hann að vera hér.