Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1989

     Karvel Pálmason:
    Virðulegi forseti. Ekki var það mín ætlan að koma af stað skriðu umræðna um þetta mál þó að það sé vissulega þess virði að það sé rætt.
    Ég vil í fyrsta lagi taka undir það sem hv. síðasti ræðumaður sagði. --- Ég segi ekki þingkona eins og menn eru farnir að segja nú og vil helst ekki nota það orð. --- Það er auðvitað mjög æskilegt að forsetar sjái til þess að ráðherrar sem viðkomandi mál heyra undir séu viðstaddir umræðurnar. Það er nánast óvirðing að mínu viti gagnvart hinum óbreyttu þingmönnum að ráðherrar skuli ekki líta svo lágt að vera viðstaddir þegar mál eru hér flutt sem skipta þeirra ráðuneyti máli. Þetta ætti að vera venja og þess vegna tek ég undir þessi ummæli hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur.
    En auðvitað var aðalástæðan að ég kom upp að eiga nokkur orðaskipti við hv. 5. þm. Norðurl. e., ekki þingkonu eins og hún valdi sjálf að nota. ( VS: Nei.) Ég hygg að það megi leita að því á spólu að slíkt orð finnist úr hennar ræðu áðan. En það skiptir ekki máli.
    En ef ég tala aftan úr forneskju talandi því sjónarmiði að það eigi að vera jafnrétti milli foreldra vil ég vera í þeim hópi og þá er ég meiri jafnréttissinni en hv. 5. þm. Norðurl. e. og kannski er ég meiri jafnréttissinni en fleiri hv. þm. hér inni. Ég tel að það eigi að vera jafnrétti milli foreldra, hvort það velur að vera heima eða ekki. Það á ekki bara við um húsmóður þó að ég hafi að vísu sagt áðan að ég tel að það geti enginn gegnt móðurhlutverkinu annar og það heyrði ég að hv. þm. Margrét Frímannsdóttir tók undir. En eigi að síður vil ég sem faðir líka hafa skoðun á því máli og vil líka segja til um það. Þess vegna vil ég hafa jafnræði í þessum hlutum og það taldi ég að kæmi skýrt fram hjá mér þó að ég gæti hugsað mér að ganga miklu lengra miðað við þær aðstæður sem við búum við núna og gera húsmóður það kleift sem er heimavinnandi að vera á heimilinu gegn ívilnunum í sköttum eða beinum greiðslum. Ef þetta er talað aftan úr forneskju vil ég vera í þeim hópi, alveg hiklaust. ( SalÞ: Það eru að breytast viðhorfin í þessu.) Já, en þau hafa ekki breyst hjá sumum hv. þm. af yngri kynslóðinni heyrist mér. ( SalÞ: Þau eru að breytast til hins betra aftur.) Ekki heyrist mér það á sumum hv. þm. hér í deild af yngri kynslóðinni.
    Ég mótmæli því að það sé hægt að alhæfa það, sem hv. 5. þm. Norðurl. e. viðhafði hér, að karlmenn hafi allt of litla þekkingu á þessum hlutum. Ég a.m.k. tel mig í þeim hópi feðra að ég telji mig hafa þekkingu á því hvernig ég vil uppala börnin og vil segja þar jafnt til og móðirin, ekkert meira og ekkert minna. Mér finnst svona málflutningur vera nánast þekkingarleysi og ekki við hæfi hv. þm. sem telur sig móður. ( VS: Ég er móðir. Það er ekki spurning.) Er móðir. Ekki er það vægara til orða tekið í samlíkingunni. --- Ég frábið mér svona að því er a.m.k. mig varðar og ég hygg að svo sé um flesta feður að þeir vilji hafa sín áhrif á uppeldi barna til jafns við móðurina.
    Ég gæti lokið þessu nema eitthvað sérstakt kæmi

frekar upp. En þetta vildi ég þó sagt hafa vegna ummæla hér. Ég tel að það eigi að búa þannig að þessum málum að bæði móðirin og faðirinn eigi að geta valið um hvaða hlutskipti þau velja í uppeldinu og þar eigi ekki að grreina í milli. Það er óréttlætishugsjón að tala í þeim dúr að það sé móðurhlutverkið einvörðungu sem eigi að segja til um það. Það á að vera gagnkvæmt.
    Að því er varðar það sem kom fram hjá hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni varðandi tekjuskattinn og raunar líka hjá hv. þm. Salome Þorkelsdóttur, ég segi þingmanni enn, þá er ég þeirrar skoðunar að tekjuskattur af launatekjum, og ég held að menn þurfi að hafa það aðgreint, er af hinu illa og ætti auðvitað löngu að vera búið að fella hann niður, en um það virðist ekki vera samkomulag milli stjórnmálaflokka eða á Alþingi að gera slíkt. Ég er handviss um að það má finna miklu réttlátari skattheimtu en tekjuskatt af launatekjum sem kæmi jafnar niður og þeir mundu ekki sleppa sem hafa sloppið í gegnum árin og áratugina vegna þessa kerfis. Ég er ekki í neinum vafa um að ef menn vildu horfa á það sem staðreynd að breyta hér til mætti ekki bara finna 500 eða 700 millj., það mætti finna miklu meiri og hærri fjárhæðir til að gera bragarbætur í átt til meira réttlætis í þjóðfélaginu en við búum nú við.
    Ég heyrði að hv. þm. Salome Þorkelsdóttir þakkaði sérstaklega Reykjanesþingmönnum og kannski dugar það. (Gripið fram í.) Já, að sjálfsögðu. En þetta er þarft mál að ræða hér alveg eins nú og það var þegar núv. hæstv. félmrh. flutti þáltill. á sínum tíma og ég á von á því að hæstv. ráðherra sé sömu skoðunar nú og hún var þá.
    Ég vil hins vegar út af því sem hv. 5. þm. Norðurl. e. sagði um 1. flm. að þessu frv., að hún skyldi ekki flytja það meðan hennar flokkur var í ríkisstjórn, segja að mér sýnist þeir hv. þm. vera álíka settir í gagnrýninni núna. Nú er hv. 5. þm. Norðurl. e. líklega stjórnarsinni, vildi ekki vera með sem flm. en telur málið rétt, en gagnrýnir hinn fyrir að flytja málið núna en gera það ekki áður. Mér sýnist hv. 5. þm. Norðurl. e. vera að setja sig í sömu spor og hv. 1. flm. frv. Af því að menn eru aðilar að ríkisstjórn eiga þeir að falla frá hugsjónum. Ef þeir eru innan ríkisstjórnar, hvað eiga þeir þá að
gera? Ja, svari hver fyrir sig. ( GHG: Hlýða foringjunum.) Já, hlýða foringjunum, segir hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson. Kannski er það lífsbrauðið sem hann hefur nagað gegnum árin. ( GHG: Sagt í gamni.) Sagt í gamni, já. Það er rétt að taka það fram, ég þóttist vita það. ( VS: Af hverju er ekki Alþfl. með á frv.?) Nú get ég út af fyrir sig ekki talað í nafni Alþfl. þó að ég vilji veg hans meiri en hann hefur verið. En ég er að lýsa minni skoðun og ég hef sjálfur rétt til að hafa skoðun á hlutum í hvaða flokki sem ég er, burtséð frá því hvort ég er aðili að ríkisstjórn eða ekki. Það skiptir ekki meginmáli. Það eru málefnin sem ráða hjá mér, ekki flokkar.