Þjóðminjalög
Miðvikudaginn 15. febrúar 1989

     Sigrún Helgadóttir:
    Virðulegi forseti. Ég ætla heldur ekki að tefja hér lengi, vildi aðeins koma að smáathugasemdum vegna þessarar umræðu sem urðu um fornleifar, hvar þær ættu heima í kerfinu. Ég held að megintakmark okkar hljóti að vera það að þessar minjar hljóti vernd. Þó þetta séu ekki einhverjar meiri háttar hallir með silfurstjökum og kristalkórónum eru þetta misvel varðveittar og merkilegar rústir út um allt land og þær þurfa t.d. að vera skráðar. Það er mjög mikilvægt að þeim sé ekki spillt og þess vegna þurfa þær að vera skráðar, flokkaðar og kortlagðar áður en allt skipulag fer fram. Á því hefur verið misbrestur um fornleifar almennt að þær hafi verið skráðar nægilega vel, svipað og gert er t.d. með náttúruminjar þar sem náttúruminjar eru skráðar og kortlagðar og gefnar út í handhægu formi sem er mjög auðvelt að dreifa til framkvæmdaaðila og landeigenda þannig að allir viti að um sé að ræða staði sem skipta miklu máli og megi ekki spillast.
    Það er mikilvægt að þessi skráning fari fram og þess vegna þarf að vera gott samband við skipulagsyfirvöld þannig að þau viti hvar þessi svæði eru og geti tekið tillit til þeirra í skipulagi. Samkvæmt tillögu Kvennalistans gerum við ráð fyrir að skipulag fari undir umhverfisráðuneyti og var ein ástæðan fyrir því að fornleifarnar voru settar þar líka.
    Önnur ástæða var sú að rannsóknir á fornleifum eru oft gerðar í mjög miklum tengslum við náttúrufræðinga og þá sérstaklega jarðfræðinga. Aldursgreining og annað slíkt á fornleifum er oft gerð í tengslum við jarðfræðinga. Það eru oft svipuð vinnubrögð sem notuð eru til að mæla upp fornminjar og t.d. mæla upp náttúruminjar og þess vegna er þar annar snertiflötur við umhverfismál.
    Ég held að það hafi því miður oft orðið slys bæði hvað varðar náttúruminjar og fornleifar. Fólk hefur spillt svona minjum, því miður, vegna þess kannski að þetta eru ekki hallir heldur eins og einhver segir: heldur ómerkilegar rústir. Það vil ég þó ekki gera að mínum orðum. Slíkum minjum hefur verið spillt. Þær hafa ekki verið nægilega vel flokkaðar. Þess vegna er það sem við viljum gjarnan að þarna sé unnið saman. Það er mjög eðlilegt t.d. að það væri gefið út í einni skrá bæði náttúruminjar og fornleifar þannig að það væri ekki verið að dreifa t.d. útgáfu á slíkri bók sem þarf að komast til allra sem vinna að einhvers konar umhverfisröskun. Þó það sé ekki nema einhver ýtustjóri, þá þurfa þeir allir að hafa þessa bók og hafa þessa skrá og það er eðlilegt að þarna sé höfð mjög náin samvinna.