Útvarpslög
Miðvikudaginn 15. febrúar 1989

     Guðrún Helgadóttir:
    Hæstv. forseti. Athugasemd mín skal vera stutt. Ég vil aðeins lýsa því yfir að ég tek undir þetta frv. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að komið verði í veg fyrir að hver sem er geti komið fram í beinni útvarpssendingu og ausið auri yfir hvern sem honum sýnist. Ég hlýt að segja það til gamans að það er nú kannski af því að stjórnmálamenn eru útsettari fyrir slíkt en flestir aðrir að ég hlustaði á einn slíkan þátt ekki alls fyrir löngu og var þar ýmislegt sagt um nafngreinda stjórnmálamenn, en síðan hóf viðmælandi þess sem þættinum stýrði að ræða um starfsmenn Flugleiða. Og þá sagði stjórnandi þáttarins að nú skyldi hann passa sig, nú yrði hann að gæta hlutleysis. En það virtist ekki vera hið minnsta vandamál þegar verið var að ræða um hv. alþm. En þetta var meira til gamans.
    Vitaskuld eigum við ekki að falla í þá gryfju, sem ýmsar aðrar þjóðir hafa gert, að gera fjölmiðlana okkar að uppsprettu slúðurs og ómerkilegs fréttaflutnings sem getur ekki hugsanlega komið nokkurri hugsandi manneskju við. Hingað til hafa bæði dagblöð og fjölmiðlar hlíft okkur, sem búum svo fá í sama landinu, við því að opinbert slúður um náungann viðgangist í fjölmiðlum landsins og ég vil taka undir það með hv. flm. að við skulum vona að við getum áfram verið dálítið sérvitur að þessu leyti og hlíft hvert öðru við slíkum fréttaflutningi. Ég held að hann þjóni engum tilgangi og verði ekki til menningarauka landi voru.
    Ég vil þess vegna eindregið lýsa yfir stuðningi við þetta frv. og tel að það hafi verið full ástæða til að flytja það og mun gera mitt til að veita því brautargengi.