Útvarpslög
Miðvikudaginn 15. febrúar 1989

     Guðni Ágústsson:
    Hæstv. forseti. Ég kem í ræðustólinn til að taka undir efni þessa frv. Ég held að hér sé þarft mál á ferðinni. Það er rétt, sem hér kemur fram, að tískuþættir líðandi stundar þar sem hinum almenna manni gefst kostur á að segja skoðun sína um bæði menn og málefni eru margir ágætir. Ég hlýði á þá stundum. En ég verð þessa var, að þar gefst mönnum kostur á að segja nánast hvað sem er um náungann úti í þjóðfélaginu og því miður gerist það ærið oft, eins og hv. flm. rakti hér, að menn hafa í frammi ærumeiðandi ummæli um náungann sem er algerlega ófært að hleypa í loftið. Ég tel að ábyrgðarleysi fréttamannanna og þeirra sem þessum fjölmiðlum stjórna sé mikið, að það skuli ekki vera klippt á slíkt því að það er rétt sem hér segir að eitt það dýrmætasta sem hver maður á er gott mannorð. Mannorð er hægt að eyðileggja og valda fjölskyldum þessara manna miklum skaða á nokkrum sekúndum. Ég er ekki að segja að stjórnmálamenn liggi þarna fremur við höggi en aðrir. Auðvitað eru þeir umdeildir og það er eðlilegt að þeir séu það. En það eru margir fleiri og það hefur hent fleiri en stjórnmálamenn að fara hraklega út úr þessum þáttum. Mér finnst kostulegt, hvort sem það eru þættir sem kenna sig við þjóðarsál eða þegar menn fá að koma í útvarp og ræða við jafnvel menn sem þar sitja fyrir svörum, að menn þurfi ekki að kynna sig. Þess vegna tel ég það mikilvægt að fjölmiðlum verði þarna settar reglur og ég þakka flm. fyrir það framtak að leggja þetta mál hér fram.
    Ég játa að ég er sérlega hrifinn af þeirri tækni sem hér er minnst á um að sá möguleiki sé tekinn upp að seinka útsendingunni um örfáar sekúndur og þá að hún komist aldrei í loftið ef menn bregðast sínum skyldum. Ég held að það sé ekkert hollt að venja einstaklingana á það að slúðra og tala illa um fólk, hvort sem þeir gefa upp nafn eða ekki. Ég held að það eigi hver að vera ábyrgur orða sinna og þess vegna styð ég þetta frv. og tel það lið í því að forða slysum og sársauka sem þegar hefur átt sér stað í því fjölmiðlaæði sem nú ríkir í þessu landi.