Svæði á náttúruminjaskrá
Fimmtudaginn 16. febrúar 1989

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Sigrún Helgadóttir og Danfríður Skarphéðinsdóttir hafa lagt fyrir mig fyrirspurnir. Sú fyrsta er á þessa leið:
    ,,Hvernig er háttað eftirliti með þeim 69 svæðum sem friðlýst hafa verið samkvæmt náttúruverndarlögum og þeim 273 svæðum sem eru á náttúruminjaskrá?``
    Varðandi þennan þátt fsp. vil ég segja þetta um eftirlitið. Þjóðgarðarnir í Skaftafelli og Jökulsárgljúfrum eru í umsjá Náttúruverndarráðs. Í Skaftafelli er eftirlit í höndum þjóðgarðsvarðar sem er búsettur á staðnum. Í Jökulsárgljúfrum er reglulegt eftirlit landvarða á tímabilinu frá 1. júní til 30. ágúst, en utan þess tíma er ekki um að ræða eftirlit með þessum svæðum nema með húsum Náttúruverndarráðs.
    Fólkvangar eru undir stjórn sveitarfélaganna sem eiga land innan hvers fólkvangs. Þar sem um er að ræða eignarland fleiri sveitarfélaga hefur verið komið á fót samvinnunefndum skipuðum fulltrúum þeirra. Í nokkrum tilfellum hefur náttúruverndarnefndum verið falin umsjá fólkvanga. Friðlönd eru flest í umsjá Náttúruverndarráðs, en einnig eru dæmi um samvinnunefndir heimaaðila. Þar sem veruleg umferð ferðamanna er á sumrin hafa verið ráðnir landverðir til eftirlits, í nokkrum tilvikum í samvinnu við Ferðafélag Íslands. Þessi svæði eru: Hornstrandir, Herðubreiðarlindir, Hvannalindir og Friðland að fjallabaki. Þá er takmarkað eftirlit í Gróttu, Vatnsfirði, Dyrhólaey og við Gullfoss. Á öðrum friðlöndum er eftirlit tilfallandi og þá í samráði við landeigendur þar sem því verður við komið. Náttúruvætti eru yfirleitt í umsjá Náttúruverndarráðs nema í kaupstöðum þar sem náttúruverndarnefndum eða umhverfismálaráðum hefur verið falin umsjón. Eftirlit ráðsins með náttúruvættum er í raun og veru mjög takmarkað og óreglulegt. Á sumrin hafa landverðir eftirlit með náttúruvættum á Hveravöllum, Skútustaðagígum og Öskju. Mývatn og Laxá eru vernduð með sérstökum lögum og er eftirlit þar í höndum Náttúruverndarráðs í samráði við stjórn náttúrurannsóknarstöðvarinnar við Mývatn og sveitarstjórn Skútustaðahrepps.
    Svæði á náttúruminjaskrá eru ekki undir sérstöku eftirliti. Náttúruminjaskrá 1988 var send landeigendum og ýmsum framkvæmdaaðilum, alls um 3500 aðilum, til þess að vekja athygli á tilvist þessara svæða og með óskum um samráð ef t.d. mannvirkjagerð sem hefði í för með sér röskun er fyrirhuguð. Þetta var varðandi stafl. 1 í fsp. hv. þm.
    Stafl. 2 er á þessa leið: ,,Hefur verið gerð úttekt á náttúru þessara svæða?``
    Svarið er: Skipuleg úttekt hefur verið gerð á náttúru þeirra svæða sem eru innan marka þjóðgarðanna í Jökulsárgljúfrum og í Skaftafelli. Þá hafa slíkar úttektir einnig verið gerðar að nokkru leyti á öðrum friðlýstum svæðum, en samt sem áður er mikið verk óunnið á þessu sviði. Það er mat Náttúruverndarráðs að það sé brýnt að gera slíkar úttektir og verður unnið að því af hálfu ráðsins, en það er ljóst að um mjög viðamikið og dýrt verkefni er að ræða og fjárveitingar hafa verið naumar í þessu

skyni.
    Stafl. 3 í fyrri tölul. fsp. er á þessa leið: ,,Hvernig er fylgst með breytingum sem orðið hafa á svæðunum, t.d. við landbúnað, ferðamennsku og mannvirkjagerð?``
    Og svarið er: Svo að unnt sé að fylgjast með breytingum sem verða á friðlýstum svæðum og svæðum sem eru á náttúruminjaskrá vegna landbúnaðar, ferðamennsku og mannvirkjagerðar þurfa að liggja fyrir úttektir á náttúru þessara svæða. Svo sem áður er vikið að mun unnið að gerð slíkra úttekta eftir því sem fjárveitingar Alþingis leyfa. Þó er unnið að því ýmist með stökum athugunum eða skipulegri langtímaverkefnum að fylgjast með breytingum á náttúru eftirtalinna svæða, þ.e. í þjóðgörðunum þar sem landverðir skila skýrslum þar sem fjallað er um áhrif af völdum ferðamanna, og er þar einnig fylgst með gróðurfarsbreytingum og fleiru. Í Þjórsárverum eru í gangi athuganir vegna virkjanaframkvæmda og eru þær athuganir kostaðar af Landsvirkjun. Rannsóknir standa yfir á Mývatni vegna kísilgúrtöku úr vatninu og mætti margt og langt mál um það hafa en ekki gefst kostur á því hér. Þá hefur verið gerð úttekt á birkiskógi í Vatnsfirði vegna beitarálags.
    Hv. þm. spyrja að lokum: ,,Hversu mörg svæði á náttúruminjaskrá hefur ríkið keypt samkvæmt forkaupsrétti 34. gr. laga um náttúruvernd, nr. 47/1971?``
    Svarið er: Verulegur misbrestur hefur verið á því samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið frá Náttúruverndarráði að ríkissjóði hafi verið tilkynnt um sölu lands sem er á náttúruminjaskrá. Eftir því sem næst verður komist hefur ríkissjóður enn ekki neytt forkaupsréttar samkvæmt 34. gr. náttúruverndarlaga.
    Að lokum þetta, virðulegi forseti. Hér er hreyft mjög stóru máli, svo og í annarri fsp. sem verður tekin fyrir síðar á þessum fundi. Hv. þm. vitnaði til orða Matthíasar Þórðarsonar frá árinu 1907 og benti með þeim hætti á að umræða um þessi mál hefur staðið yfir alllengi, en árangurinn á ýmsum sviðum hefur orðið minni en við vildum. Í þessu sambandi er kannski fróðlegt að íhuga að umræðan um þetta mál á hv. Alþingi er í raun og veru tiltölulega mjög ný. Það var fróðlegt að athuga fyrir nokkrum dögum í orðabók Háskólans hvenær fyrst finnst dæmi um orðið ,,umhverfismál`` í íslensku máli. Hvenær skyldi það vera? Það var árið 1971 í ritgerð eftir Hjörleif Guttormsson. Ætli þetta sýni okkur ekki hvað við erum þrátt fyrir allt nýlega farin að tala um þessi mál í heild?