Svæði á náttúruminjaskrá
Fimmtudaginn 16. febrúar 1989

     Fyrirspyrjandi (Sigrún Helgadóttir):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. svör hans og sérstaklega þessi síðustu orð hans.
    Tilgangur með friðlýsingu náttúru getur verið margvíslegur eins og hann aðeins drap á. Í fyrsta lagi er land friðlýst til að auðvelda almenningi aðgang að því, uppfylla þá þörf sem margir hafa, kannski flestir, til að njóta útivistar í fjölbreyttu og tiltölulega óspilltu umhverfi. Oft eru þessi svæði ekki sérstök hvað náttúru snertir. Sérstaða þeirra er oft sú að margir eiga auðveldan aðgang að þeim. Dæmi um svona svæði eru t.d. Bláfjöllin sem friðlýst eru sem fólkvangur.
    Annar megintilgangur friðlýsingar lands er að taka frá og friða náttúru sem er að einhverju leyti sérstök, t.d. vegna fegurðar, fjölbreytni eða að þar er eitthvert það náttúruundur, dautt eða lifandi, sem lítið er af annars staðar og því mikilvægt að varðveita það til vísindalegra rannsókna, menntunar eða kennslu eða, sem getur verið mjög mikilvægt, til að viðhalda vistkerfi þar sem lifa lífverur sem án friðunar væru í útrýmingarhættu.
    Í þriðja lagi má svo nefna þann tilgang með friðun lands að hafa það til samanburðar við land sem er nytjað.
    Hver sem tilgangurinn með friðun landsvæða er, þá er sú aðgerð marklaus ef ekki er fylgst með því að friðuninni sé framfylgt. Mjög margir friðlýstir staðir eiga í vök að verjast, svo sem margar hálendisvinjarnar, vegna ferðamennsku. Gæsla á friðuðum stöðum sem jafnframt eru ferðamannastaðir er best unnin með fræðslu, en til þess að svo megi verða þarf vel uppfrætt fólk til að sinna þeim störfum og nóg af því. Ég óttast og reyndar veit að á þessu sviði er víða pottur brotinn og margt sem betur mætti fara og kom það ljóslega fram í máli ráðherra. Hér tel ég þó ekki við Náttúruverndarráð að sakast heldur miklu frekar skilningsleysi stjórnvalda sem ætla allt of fáu starfsfólki með allt of litlar fjárveitingar að gera kraftaverk.
    Tilgangur minn með þessari fsp. var að reyna að vekja athygli á þessum málum með von um að það vekti til umhugsunar, umræðna og úrbóta.