Náttúruverndarlög
Fimmtudaginn 16. febrúar 1989

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Sigrún Helgadóttir og Danfríður Skarphéðinsdóttir leggja í fyrsta lagi fram fsp. sem er á þessa leið:
    ,,Hvernig er að Náttúruverndarráði búið, t.d. hvað snertir starfsfólk og fjárveitingar, til þess að það geti haft eftirlit með mannvirkjagerð og jarðraski eins og ráðinu er ætlað samkvæmt 29. gr. laga um náttúruvernd, nr. 47/1971?`` Og í sama tölul.: ,,Hversu oft og í hvaða tilvikum hafa framkvæmdir verið stöðvaðar á grundvelli þessarar lagagreinar?``
    Svarið er þetta: Heimilaðar stöður á skrifstofu Náttúruverndarráðs eru aðeins tvær, framkvæmdastjóri og fulltrúi. Lausráðnir eru tveir starfsmenn er ásamt framkvæmdastjóra sinna öllum málefnum sem skrifstofan sér um vegna framkvæmdar náttúruverndarlaga. Náttúruverndarráð hefur í hvert sinn sem fjárlagabeiðni er lögð fram lagt á það áherslu að starfsemi skrifstofunnar fengist viðurkennd, a.m.k. í óbreyttu formi. Fjárlög 1988 gerðu ráð fyrir að launaliður skrifstofunnar yrði um 4,5 millj. kr., en hann varð um 8 millj. kr. og varð að færa fé af fjárveitingum til annarra verkefna yfir á skrifstofu auk þess sem fengin var aukafjárveiting í lok ársins 1988.
    Fjárlög ársins 1989 gera ráð fyrir að launaliður skrifstofunnar verði 4,7 millj. kr. og til annarra útgjalda hennar verði varið 4,8 millj. kr. Fjárhagsstaða skrifstofunnar er því mjög slæm miðað við fjárlög eins og þau liggja nú fyrir og það hlutverk sem Náttúruverndarráði er ætlað að sinna samkvæmt lögum.
    Það er einn starfsmaður sem fer með meginhluta þeirra mála sem snúa að mannvirkjagerð á skrifstofu Náttúruverndarráðs. Það má segja að það sé útilokað að hann hafi frumkvæði að eftirliti og skoðunarferðum eða fari í slíkar ferðir þar sem innsend málefni sem verður að sinna eru fleiri en skrifstofan kemst yfir með góðu móti þannig að það er lítill tími eftir þá til frumkvæðis. Afgreiðsla mála er því oft ekki eins vel undirbúin og æskilegt væri t.d. hvað varðar gagnasöfnun og vettvangsskoðun. Þá hefur skrifstofan komið upp eftirlitsmannakerfi úti um landið þar sem tíu einstaklingar taka að sér verkefni samkvæmt nánara samkomulagi. Tilkoma þeirra byggðist á því að komið var á formlegu sambandi við ýmsar ríkisstofnanir sem standa fyrir meiri háttar mannvirkjagerð. Nauðsynlegt þótti að hafa sérstaka tengiliði við þessar stofnanir í stað þess að fela það náttúruverndarnefndum sem eiga að fylgjast með þessum málefnum skv. 3. gr. reglugerðar um náttúruvernd, nr. 205/1973. Erindisbréf eftirlitsmanna er þekkt og væri ástæða til að rekja það nánar en er ekki kostur á þeim knappa tíma sem við höfum hér til umráða.
    Fjárhag ráðsins er þannig háttað að eftirlitsmennirnir sinna nær eingöngu verkefnum á vegum ríkisstofnana sem endurgreiða ráðinu kostnað samkvæmt heimild í reglugerð um breytingu á 39. gr. reglugerðar um náttúruvernd nr. 205/1973. Eftirlitsmennirnir eru allir í öðru starfi og hefur það

að sjálfsögðu takmarkandi áhrif á hvernig þeir geta sinnt beiðnum Náttúruverndarráðs.
    Náttúruverndarnefndir starfa í öllum sýslum og kaupstöðum en eru mjög misjafnlega virkar að ekki sé fastar að orði kveðið. Í kaupstöðum lítur Náttúruverndarráð svo á að nefndunum beri að fjalla um framkvæmdir sem unnar eru samkvæmt staðfestu aðalskipulagi og sjá um að út af því sé ekki brugðið t.d. hvað varðar friðlýst svæði, meðferð á fjörum og öðrum svæðum með útivistargildi. Í sýslum eru nefndirnar mun óvirkari og stafar það m.a. af því að nefndarmenn þurfa að ferðast langar leiðir á fundi eða til vettvangsskoðunar og í fjárhagsáætlunum sýslunefnda eða héraðsnefnda er sjaldnast gert ráð fyrir nokkrum kostnaði af störfum þessara nefnda.
    Náttúruverndarráð hefur á undanförnum árum haft afskipti af tugum mála sem falla undir 29. gr. náttúruverndarlaganna. Í mörgum tilvikum er farið fram á að verk sé ekki hafið eða það stöðvað þar til vettvangsskoðun hefur farið fram. Ekki er framkvæmanlegt án mikillar fyrirhafnar að tína hér til öll tilvik í þessu sambandi, enda sé ég ekki að það þjóni út af fyrir sig tilgangi. Náttúruverndarráð hefur reynt að byggja upp gott samráð við framkvæmdaaðila til að koma í veg fyrir náttúruspjöll. Tekist hefur samkomulag í langflestum tilfellum sem ráðið hefur verið kallað til vegna hugsanlegra brota á umræddri lagagrein. Tilvik þar sem Náttúruverndarráð hefur óskað eftir atbeina lögreglustjóra samkvæmt heimild í 29. gr. náttúruverndarlaganna eru eftirfarandi:
    1. Hinn 7. júlí 1982 fór Náttúruverndarráð fram á það við sýslumanninn í Norður-Ísafjarðarsýslu að hann stöðvaði efnistöku í Hestfirði.
    2. Hinn 24. ágúst 1984 óskaði Náttúruverndarráð eftir því að sýslumaður Vestur-Skaftafellssýslu stöðvaði framkvæmdir vegna hafnargerðar í Dyrhólaey.
    3. Hinn 31. júlí 1985 var óskað eftir því að sýslumaður Árnessýslu stöðvaði ólöglegar framkvæmdir við byggingu sumarbústaðar í Hrunamannahreppi.
    Hv. fyrirspyrjendur óska eftir upplýsingum um hve tíð eru meint brot á náttúruverndarlögum. Því miður er ekki kostur á að skrá það sem talið er meint brot. Það væri mikið meira verk en nokkur kostur er á að ná utan um á þeim skamma tíma sem ætlaður er til að undirbúa svör við fsp. Í flestum þeirra tilfella sem Náttúruverndarráð hefur kært vegna brota á náttúruverndarlögum hefur verið um að ræða auk almennra brota meint brot vegna aksturs utan vega á friðlýstum svæðum.
    Þá er að lokum spurt um hversu oft menn hafi verið sakfelldir vegna brota á náttúruvernd. Ekki er gerð grein fyrir því í fsp. eins og hún liggur fyrir hvort um sakfellingu vegna brota á núgildandi náttúruverndarlögum er að ræða og ekki er heldur óskað eftir því að sundurgreindar verði upplýsingar um sakfellingu í undirrétti eða Hæstarétti. Með vísan til þessa svo og þess að hér er um geysilega viðamikið verkefni að ræða, sem er tímafrekt að

svara, eru mér ekki tæk ráð til að svara síðasta tölul. fsp. að svo stöddu, en ég vænti þess að öðru leyti að fsp. hafi verið svarað og ég þakka hv. þm. fyrir þann áhuga sem þær með flutningi fsp. hafa sýnt á málefnum Náttúruverndarráðs og umhverfismála.