Náttúruverndarlög
Fimmtudaginn 16. febrúar 1989

     Fyrirspyrjandi (Sigrún Helgadóttir):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. svör hans. Hann hafði gert mér viðvart að önnur spurning á þskj. 467 væri of yfirgripsmikil til að svara henni núna og þakka ég hæstv. ráðherra þær upplýsingar. Ég læt í ljós þá von að spurningunni verði svarað síðar. Reyndar komu mér þessar upplýsingar nokkuð á óvart. Ég veit reyndar að meint brot á náttúruverndarlögum eru nokkuð tíð. T.d. kvarta landverðir yfir slíku á hverju ári í skýrslum sínum. Sum slík brot hafa verið kærð, en örlög þeirra virðast vera að velkjast lengi í kerfinu og jafnvel gleymast og veit ég nokkur dæmi þess.
    Hvað varðar fyrri spurninguna hlýt ég að láta í ljós vonbrigði um að ekki sé betur búið að Náttúruverndarráði en raun ber vitni og kom mjög ljóslega fram í svari hæstv. ráðherra. Þekking okkar á umhverfinu er alltaf að aukast og vitneskjan um það hve varlega við verðum að fara í allri umgengni. Samfara því aukast stöðugt þær kröfur sem gerðar eru til eftirlitsaðila, bæði hvað varðar magn og gæði eftirlitsins ef svo má að orði komast.
    Þegar bylgja fiskeldisstöðva fór að flæða yfir landið fyrir nokkrum árum stórjók það þá vinnu sem Náttúruverndarráði var ætlað að leysa af hendi, en ráðið fékk ekki að sama skapi að fjölga starfsfólki eins og kom fram áðan. Þar eru enn aðeins tvær stöður eins og fram kom, staða framkvæmdastjóra og ritara, alveg eins og var ákveðið árið 1971 um það leyti sem orðið ,,umhverfismál`` --- eða var það ekki það orð --- kom fyrst fram.
    Nú er gerð sú krafa af forstöðumönnum opinberra stofnana að þeir megi ekki fara fram úr fjárveitingum fjárlaga og mikil orð höfð um það, bæði á fundum og í fjölmiðlum. Ekki sýnist ósanngjarnt að samfara því sé gerð sú krafa við stjórnvöld að fjárveitingar til stofnana séu í samræmi við það hlutverk sem þeim er ætlað núna og í framtíðinni en ekki í samræmi við það sem þeim var ætað fyrir 10 eða 20 árum.