Landnýtingaráætlun
Fimmtudaginn 16. febrúar 1989

     Fyrirspyrjandi (Sigríður Hjartar):
    Hæstv. þingforseti. Þingsályktun sem samþykkt var á Alþingi 22. maí 1984 hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hlutast nú þegar til um að undirbúningi og vinnu við landnýtingaráætlun verði hraðað. Við gerð slíkrar áætlunar verði lögð áhersla á sem hagkvæmasta nýtingu og varðveislu landgæða. Gerð verði kostnaðaráætlun um landnýtingarskipulag sem taki til allra meginþátta landnýtingar. Áætlunin verði lögð fyrir Alþingi og á grundvelli hennar verði tekin ákvörðun um framkvæmdahraða.``
    Á undanförnum áratugum hefur fólksfjölgun á Íslandi verið mikil en búsetubreyting margfalt meiri. Um aldamótin bjuggu liðlega 20% landsmanna í þéttbýli en nú eru það um 90%. Þessi mikla búsetu- og lífsháttabreyting hefur gerbreytt viðhorfi manna til landnýtingar. Hugtakið landnýtingu má nota á mjög víðtækan hátt sem spannar ráðstöfun lands til ýmiss konar nota, svo sem landbúnaðar, iðnaðar, þéttbýlis og útivistar. Búsetubreyting hefur dregið úr landnýtingarvandanum á sumum sviðum en aukið hann á öðrum.
    Landnýtingarvandamál eru að verulegu leyti önnur hér en í nágrannalöndunum. Mengunarvandinn er hér hlutfallslega lítill miðað við Evrópulönd og landrými til landbúnaðar yfrið nóg. Mengun af völdum þéttbýlis er þó vaxandi, svo sem skólp- og sorpmengun. Nægir að nefna vanda Reykjavíkur og nágrannabyggða þar sem lausn sorpeyðingar er knýjandi. Áhyggjur manna vegna mengunar frá fiskeldisstöðvum fara vaxandi, en samkvæmt nýjum rannsóknum er áburðarnotkun landbúnaðarins ekki sá mengunarvaldur hér sem hún er í Evrópu. Landnýtingaráætlun hlýtur að fjalla um mengunarvanda.
    Landeyðing hefur hins vegar verið mjög alvarlegt vandamál á Íslandi. Talið er að gróður- og jarðvegseyðingin hafi verið mest á síðari hluta 19. aldar og í byrjun þessarar. Forfeður vorir urðu að lifa af því sem landið gaf með góðu eða illu, en við eigum að hafa þá þekkingu og tækni sem þarf til að stöðva landeyðinguna og snúa vörn í sókn.
    Eitt meginsvið landnýtingaráætlunar á að vera landgræðsla og jafnframt verndun og viðhald þess gróðurs sem fyrir er. Þar með hlýtur landnýtingaráætlun að snerta mjög framtíðarskipulag landbúnaðar. Minnkandi markaður fyrir hefðbundnar landbúnaðarafurðir leiddi til þess kvótakerfis sem þegar hefur valdið þriðjungs fækkun sauðfjár á tíu árum og því minnkandi beitarálagi. En beitarálag vegna hrossa fer vaxandi, einkum í byggð. Kvótakerfið hefur valdið svo mikilli bústofnsfækkun að mörgum bóndanum er ógerlegt að lifa af hefðbundnum landbúnaði einum sér. Því miður hefur loðdýraræktin jafnvel aukið á vanda þeirra bænda sem hana stunda og þarf fleira að koma til.
    Á nokkrum svæðum á landinu eru taldir raunhæfir möguleikar á ræktun nytjaskóga. Áhugi bænda á ræktun bændaskóga er verulegur, en hér vantar enn frekari stefnumörkun og fjármagn af hálfu hins

opinbera.
    Þar sem 90% þjóðarinnar búa í þéttbýli eykst stöðugt þörfin á aðgengilegum útivistarsvæðum í næsta nágrenni þéttbýlissvæða. Vaxandi ferðalög bæði Íslendinga og erlendra manna um landið allt kallar á bætt skipulag ferðamála, bætta aðstöðu til gistingar, bæði í byggð og óbyggð og jafnframt á verndun viðkvæmra gróðursvæða. Landnýtingaráætlun verður að fjalla um þessi mál.
    Virðulegi forseti. Ég hef drepið á örfá atriði sem landnýtingaráætlun ætti að fjalla um. Ég beini spurningu minni til hæstv. landbrh. Hvað líður gerð þessarar áætlunar?