Landnýtingaráætlun
Fimmtudaginn 16. febrúar 1989

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Í fjarveru landbrh. svara ég þessari fsp. frá hv. 10. þm. Reykv.
    Það var 22. maí 1984 sem Alþingi samþykkti þáltill. um landnýtingaráætlun. Flm. voru úr fjórum stjórnmálaflokkum sem stundum eru kallaðir ,,gömlu flokkarnir`` af sumum hér í þinginu, Davíð Aðalsteinsson, Þorv. Garðar Kristjánsson, Helgi Seljan, Ingvar Gíslason og Jóhanna Sigurðardóttir. Þessi þál. var send landbrn. til fyrirgreiðslu og þáv. landbrh. Jón Helgason setti á laggirnar nefnd með fulltrúum þeirra stofnana sem vinna að þeim verkefnum sem tengjast landnýtingu. Það voru fjölmargir aðilar kallaðir til samráðs í þessari nefnd. Hún hóf störf í janúarmánuði 1985 og hún lauk störfum og skilaði myndarlegu nál. í maímánuði 1986 í riti sem ber heitið ,,Landnýting á Íslandi og forsendur fyrir landnýtingaráætlun``.
    Þetta rit er eitt fyrsta heimildarritið um landnýtingu og áætlanagerð á Íslandi af þessu tagi. Það er mikið að vöxtum og geymir mjög mikinn fróðleik varðandi alhliða landnýtingu sem hafði ekki áður verið aðgengilegur almenningi auk þess sem þar eru margar greinar og skýringarmyndir sem voru sérstaklega unnar á vegum nefndarinnar.
    Þegar fjallað er um landnýtingaráætlun er mjög nauðsynlegt að hafa víða yfirsýn og við jafnvíðtækt verkefni og alhliða landnýtingaráætlun þarf að vera fullt samkomulag og samvinna milli þeirra ráðuneyta, ríkisstofnana og annarra sem fjalla um þennan mikilvæga málaflokk. Eins þarf að vera ljóst hvort það er á valdi eins ráðuneytis að gera slíka áætlun og stjórna framkvæmd hennar eða hvort fleiri ráðuneyti og hver ættu að tengjast því starfi.
    Eins og fram hefur komið er nauðsynlegt að taka tillit til margra þátta þegar unnið er að gerð þessarar áætlunar. Landbúnaðarframleiðslan vegur þar auðvitað mjög þungt, en raunhæf áætlunargerð þarf einnig að taka tillit til þéttbýlismyndunar, náttúruverndar, samgangna, þjónustu og byggðaþróunar í heild sinni.
    Þrátt fyrir tilvist margra áætlana um landnýtingu og landnotkun er engum aðila einum í stjórnkerfinu enn falið með lögum að halda þessum þáttum og þráðum saman, fara yfir áætlanirnar, samræma þær með tilliti til hugsanlegra hagsmunaárekstra eða innbyrðis mótsagna. Þess vegna er nauðsynlegt að skapa skipulagsyfirvöldum grundvöll til að framfylgja lagaákvæðum um skipulagsskyldu landsins alls. Ég tel raunar að það sé höfuðforsenda alls þessa verks sem hér þarf að vinna. Í slíku skipulagi eru vegnar saman kröfur um umhverfisvernd og ýmis afnot af landi og landgæðum. Vel heppnað landsskipulag getur skapað grundvöll fyrir heildarstjórn umhverfismála þar sem hagræn sjónarmið, heilsufarssjónarmið, verndarsjónarmið og friðlýsingarsjónarmið eru fléttuð saman í eina heild.
    Á vettvangi Skipulagsstjórnar ríkisins og félmrn. hafa í mörg undanfarin ár verið unnar tillögur um að setja í skipulagslög ákvæði um landsskipulag sem þá væri áætlun sem tæki til landsins alls og fjallaði um aðalatriði í þróun byggðar, atvinnuvega og

landnýtingar almennt. Á árinu 1982 fól ég sem félmrh. Stefáni Thors arkitekt að gera tillögur að fyrstu drögum að landsskipulagi svo að dæmi sé nefnt um að það hefur verið unnið að þessum verkefnum um alllangt skeið.
    Hlutverk landsskipulags væri að marka stefnu vera til samræmingar fyrir áætlunargerð hinna ýmsu ráðuneyta og að samhæfa einstakar áætlanir sem kunna að verða gerðar fyrir landið allt. Slíkt skipulag væri í samræmi við núverandi ákvæði um skipulagsskyldu landsins alls. Markmið með landsskipulagi hlyti að vera að auðlindanýting verði í samræmi við heildarhagsmuni þjóðarinnar.
    Sú nefnd sem fjallaði um þetta mál á sínum tíma og ég greindi frá áðan taldi rétt að Skipulagi ríkisins yrði falið að vinna að gerð landnýtingaráætlunar, að tvær nefndir yrðu skipaðar til að fylgjast með og vera til ráðgjafar við það verk, önnur skipuð fulltrúum Alþingis og hin fulltrúum þeirra ráðuneyta, ríkisstofnana og annarra aðila sem hagsmuna eiga að gæta við gerð slíkrar áætlunar, eins og segir í nál. Ég tel þess vegna að miðað við þá niðurstöðu sem varð í nefndinni hafi það verið tillaga hennar að félmrn. færi með næstu skref málsins, þau sem snúa að Skipulagi ríkisins.
    Það rit sem ég benti á áðan var sent Alþingi og öllum alþm. og stofnunum sem koma að verkefnum sem varða landnýtingu. Af hálfu landbrn. hefur einnig verið fjallað frekar um þessi mál að undanförnu, m.a. með hliðsjón af því að í stefnuyfirlýsingu núv. ríkisstjórnar segir að gerð skuli landnýtingaráætlun sem taki til hvers konar notkunar landsins.
    Hitt er ljóst hins vegar, virðulegi forseti, að það verður aldrei tekið á þessum málum svo burðugt sé né heldur þeim málum sem hv. 12. þm. Reykv. hreyfði áðan í tveimur fyrri dagskrárliðum öðruvísi en að hér verði til sjálfstætt umhverfismálaráðuneyti sem hefur með öll þessi mál að gera. Það er alveg ljóst af reynslu liðinna ára að þó að góður vilji sé til í einstökum ráðuneytum, hvort sem það er félmrn., landbrn., heilbrmrn., þá er alveg ljóst að það dugir ekki ef ekki er til ráðuneyti sem hefur sameinandi kraft fyrir þær áherslur sem menn vilja hafa í umhverfismálum.
    Núv. ríkisstjórn hefur m.a. fjallað um þessi mál með tilliti til þess að umhverfismál verði færð í eitt ráðuneyti. Það er skoðun Alþb. að í raun og veru verði ekki vel að þessum hlutum staðið öðruvísi en þar verði um að ræða sjálfstætt ráðuneyti sem fari með umhverfismál eða sjálfstæða ráðuneytisskrifstofu.
    Ég vænti þess, virðulegi forseti, að ég hafi svarað fsp. hv. 10. þm. Reykv.