Landnýtingaráætlun
Fimmtudaginn 16. febrúar 1989

     Fyrirspyrjandi (Sigríður Hjartar):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. umfjöllun hans um fsp. mína sem hann gerði fyrir hönd landbrh. Í svari menntmrh. kom margt gott fram og ég vil taka undir orð hans um starf landnýtingarnefndarinnar og ágæti þeirrar skýrslu sem hún skilaði í maí 1986.
    Í þessari skýrslu er fjallað um fjölmörg atriði, en það eru tvö atriði sem ég freistast til að fjalla örlítið um því tíminn leyfir ekki meira. Annað þeirra atriða sem mig langar til að drepa örlítið á og getið var um í landnýtingarskýrslunni er virkjunarmálin. Það er verið að virkja og við vitum að fram undan eru enn frekari virkjunarframkvæmdir og hugmyndir manna um orkusölu til útlanda hafa fengið nokkurn byr. Við hönnun virkjana ber að hafa í huga að sem minnst gróðurlendi tapist.
    Hitt atriðið sem mikil áhersla var lögð á í skýrslunni er kortagerðin. Það er ekki unnt að gera raunhæft skipulag fyrir landið í heild eins og hæstv. ráðherra vék reyndar að, það er ekki unnt að gera raunhæft skipulag eða raunhæfa landnýtingaráætlun án nákvæmra korta. Hinar ýmsu opinberu stofnanir sem á kortum þurfa að halda hafa sameinast um stærðina 1:25000. Það hefur verið saminn nýr staðall um kortagerð, en útgáfa slíkra korta er mjög skammt á veg komin. Það má segja að miðað við nútímatækni og kröfur til kortagerðar og landfræðilegs gagnabanka stöndum við nú í sömu sporum og við gerðum um síðustu aldamót. Núna eru sértekjur Landmælinga ríkisins um 55% af heildarfjármagni stofnunarinnar, en á Norðurlöndum eru sértekjur Landmælinga 12--18%. Alþingi þarf að auka mjög fjárveitingar til Landmælinga ríkisins svo sú stofnun geti lokið útgáfu kortanna fyrir aldamót og þar með gert kleift að koma á landsskipulagi og góðri landnýtingaráætlun.
    Virðulegu alþingismenn. Landvernd og landgræðsla á hug þjóðarinnar. Það þarf að nýta krafta okkar allra til þessara mála og gefa einstaklingum og félagasamtökum aukinn kost á að sinna landgræðslu með því að úthluta almenningi landgræðslusvæðum þar sem einstaklingar geta lagt sitt af mörkum, bæði með áburðargjöf og sáningu í einstök svæði og skógrækt í landgræðsluskyni. Eins og hv. 2. þm. Suðurl. drap réttilega á hefur Skógræktarfélag Reykjavíkur þegar gert nokkuð í þessa átt. En nýtum samtakamáttinn og einstaklingsframtakið sem best með ríkisvaldinu.