Kynferðisbrot
Fimmtudaginn 16. febrúar 1989

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Virðulegi forseti. Á þskj. 469 er þeirri fsp. beint til mín, eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda, hvort ég hyggist leggja fram frv. til l. um breytingu á XXII. kafla hegningarlaga nr. 19/1940, sem fjallar um kynferðisbrot, í samræmi við álit þeirrar nefndar sem skipuð var af dómsmrh. 12. júlí 1984 samkvæmt sérstakri þál. og nýlega lauk störfum.
    Nauðgunarmálanefnd skilaði frv. til l. um breytingu á hluta af XXII. kafla almennra hegningarlaga, þ.e. greinum 194--199, eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda. Með hliðsjón af þeirri stefnubreytingu sem fram kemur í tillögum nauðgunarmálanefndar um breytingu á hegningarlögum og því að á síðasta Alþingi var frv. um breytingu á 202. og 203. gr. almennra hegningarlaga vísað til ríkisstjórnarinnar hef ég talið rétt að leggja ekki fram frv. eins og það kom frá nauðgunarmálanefnd heldur láta það bíða þar til lokið er við að endurskoða framangreindan kafla hegningarlaganna í heild. Sú vinna stendur nú yfir og vænti ég þess að hægt verði að leggja það frv. fram á Alþingi innan fárra vikna.