Kynferðisbrot
Fimmtudaginn 16. febrúar 1989

     Fyrirspyrjandi (Sólveig Pétursdóttir):
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svör hans áðan. Það er ljóst af hans svari að viss vandkvæði hafa komið upp í sambandi við þessar breytingar á hegningarlögunum. Nauðgunarmálanefnd vann vissulega mjög gott starf, en ráðuneytismenn virðast álíta að hér hafi aðeins verið hálfu frv. skilað. Úr þessu þarf að fást skorið og ef það atriði verður til að draga afgreiðslu þessara mála á langinn hlýtur hæstv. dómsmrh. að verða að knýja á um það að hinn helmingur frv. líti dagsins ljós.
    Reyndar gerði nauðgunarmálanefndin tillögur um ýmsar aðrar hliðar þessara mála, svo sem úrræði fyrir kynferðisbrotamenn, bætur og fleira, en þar er vafalaust um brýn úrlausnarefni að ræða.
    Ég treysti því að hæstv. dómsmrh. muni leggja fram frv. hið fyrsta sem breytir í heild ákvæðum hegningarlaganna um kynferðisbrot, ekki bara nauðgunarákvæðunum heldur líka ákvæðum t.d. 203. gr. sem fjallar um kynferðismök við persónu af sama kyni, en sú grein hefur falið í sér miklu lakari vernd en ákvæði sem snerta önnur kynferðisbrot þegar litið er til refsimarkanna. Slíkt fær ekki samrýmst nútímaviðhorfum og hér er breytinga þörf. Mótast sú þörf ekki síst af fjölda alvarlegra mála nú síðustu árin þar sem brotaþolar eru einatt ungir drengir og afbrotamaðurinn karlkyns.
    Þessi misskilningur framkvæmdarvaldsins um endurskoðun á hegningarlögunum hefur með þessu svari hæstv. dómsmrh. nú verið leiðréttur. Vona ég að árangur verði eftir því og ég ítreka þakkir mínar til hæstv. dómsmrh.