Kynferðisbrot
Fimmtudaginn 16. febrúar 1989

     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð. Að gefnu tilefni og vegna setu minnar í áðurnefndri nauðgunarmálanefnd vil ég geta þess að þegar nefndin í upphafi skilgreindi verksvið sitt og viðfangsefni var ákveðið að endurskoða einungis þær lagagreinar sem minnst var á í máli ráðherra áðan. Síðan kom í ljós eftir því sem á leið vinnuna að það var í raun nauðsyn að endurskoða lagabálkinn og kafla laganna sem fjalla um skírlífis- og sifskaparbrot í heild sinni. Þá var það ákveðið í samvinnu við ráðuneytið að það yrði gert af formanni nefndarinnar og fulltrúum frá ráðuneytinu. Þannig yrði sú endurskoðun framkvæmd. Þess vegna var ekki um að ræða að nefndin skilaði hálfunnu verki, síður en svo. Hún stóð við þau viðfangsefni og þær ætlanir sem hún setti sér og gerði jafnvel gott betur. Í þessu tilviki var álitið bæði hagkvæmast og skynsamlegast að vinna þetta mál þannig.