Endurunninn pappír
Fimmtudaginn 16. febrúar 1989

     Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):
    Hæstv. forseti. Neyslustefna undanfarinna ára, einkum á norðvesturhveli jarðar, hefur þegar gengið mjög freklega á auðlindir jarðar. Vaxandi skilningur og vitneskja manna um orsakir og ferli mengunar og annarrar spillingar á verðmætum og auðlindum jarðarinnar hafa knúið æ fleiri til þess að vinna samkvæmt lögmálum náttúrunnar og stilla lifnaðarhætti sína í samræmi við þau í stað þess að vinna gegn þeim og því jafnvægi sem þar ríkir og viðhaldið er af hringrás efnanna. Hluti af þessari viðleitni er endurvinnsla og fullnýting úrgangsefna, en Kvennalistinn flutti einmitt þáltill. um það efni á árinu 1987. Slík endurvinnsla er víða komin vel á veg erlendis og þekkja það margir af eigin raun sem búið hafa erlendis, bæði austan hafs og vestan, að þar er heimasorp flokkað til endurvinnslu, ekki síður en iðnaðarsorp, eftir efnisgerð, t.d. í gler, málma og pappír. Það sem ræður þessum gerðum manna er fyrst og fremst nýr hugsunarháttur og ný viðhorf þar sem orðið ,,hagkvæmur`` er ekki einungis túlkað á hefðbundinn hátt með tilliti til efnahagslegra forsendna, heldur og ekki síður af virðingu fyrir náttúrunni og skilningi á mikilvægi þess að vistkerfi hennar og lífkerfi haldist óspillt.
    Þegar rætt er um endurvinnslu hefur athyglin oft beinst að nýtingu pappírsúrgangs. Skógar eru undirstaða pappírsframleiðslu og þrátt fyrir stuttan endurnýjunartíma, miðað við mörg önnur hráefni, er stöðugt gengið á skóglendi jarðar. Við framleiðslu á einu tonni af pappír þarf um 5 tonn af viði. Hér á landi hefur lítið verið reynt til að endurvinna pappír. Árið 1986 voru flutt inn um 36 þús. tonn af pappír og pappírsvörum auk pappírsumbúða utan um innfluttar vörur. Þar af var dagblaðapappír 5,4 þús. tonn og sá pappír sem fer í símaskrána t.d. árlega er um 170 tonn. Má því áætla að árlega sé mörg þúsund tonnum af pappír fleygt á haugana. Nokkrar athuganir hafa verið gerðar á endurvinnslumöguleikum pappírs og tilraunir gerðar með slíkan iðnað hér á landi án þess að um jákvæða niðurstöðu hafi verið að ræða.
    Sem dæmi má taka að sænska umhverfismálaráðuneytið gaf út bækling í maí 1987 með umræðum og ábendingum frá ríkisstjórnarfundi vegna skýrslu sem gerð var um úrgangsefni og ráðstöfun þeirra. Þar kemur m.a. fram að eftir að áhersla var lögð á endurnotkun, fullnýtingu og endurvinnslu þar í landi hefur magnúrgangur sem kemur til endurvinnslu margfaldast. Frá 1975 til 1986 jókst magn endurunnins dagblaða- og tímaritapappírs úr 90 þús. tonnum í 344 þús. tonn og frá heimilum úr 65 þús. í 260 þús. tonn.
    Á sl. sumri hófu landgræðslu- og náttúruverndarsamtökin Landvernd innflutning og sölu á endurunnum pappír til ljósritunar og prentunar sem framleiddur er í Þýskalandi. Með þessu vildu samtökin gefa Íslendingum kost á að nota slíkan pappír sem hafði fram að því verið ófáanlegur hérlendis. Það er skoðun Landverndar að það sé mikið þjóðþrifamál að stuðla að endurnýtingu og styrkja endurvinnsluiðnað.

En þessum málum hefur of lítill gaumur verið gefinn hér á landi til þessa og er sannarlega þörf á hugarfarsbreytingu með þjóðinni í þeim efnum. Mig langar að geta þess að þessi pappír sem þannig er seldur er hvað kostnað varðar mjög sambærilegur við pappír af miðlungsgæðum sem ekki er endurunninn og vegna þess hve stjórnvöld hafa sterkt fordæmishlutverk í þjóðfélaginu finnst mér full ástæða til að bera fram fsp. til hæstv. forsrh., í fyrsta lagi hvort Stjórnarráðið og Alþingi hafa tekið upp að einhverju leyti notkun endurunnins pappírs? Er hann notaður sem bréfsefni, ljósritunarblöð eða rissblöð? Og í öðru lagi: Hyggst ríkisstjórnin hvetja ríkisstofnanir almennt til að hefja notkun endurunnins pappírs?