Endurunninn pappír
Fimmtudaginn 16. febrúar 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Um leið og ég tek heils hugar undir hin almennu orð hv. fyrirspyrjanda um mikilvægi þess að endurvinna sem flest og helst öll nýtanleg úrgangsefni, alveg sérstaklega til þess að draga úr notkun á ýmsum hráefnum jarðar sem eru vissulega af mjög skornum skammti, verður svar mitt við 1. lið fsp. því miður nei. Ég hef látið kanna notkun á endurunnum pappír og fæ þau svör að hann er ekki notaður í Stjórnarráðinu og að því er ég best veit ekki í ríkisstofnunum. Hann er ekki notaður hér á hinu háa Alþingi. Mér er einnig tjáð að eina endurvinnslan sem hér fer fram sé í sambandi við eggjabakka. Pappír mun vera endurunninn hér í því skyni.
    Við seinni lið fsp. vil ég segja það að ég hef ákveðið að óska eftir því að könnuð verði notkun á endurunnum pappír, bæði með tilliti til þess hvernig spara megi í ríkisrekstri. Að vísu er það rétt sem hv. þm. sagði að kostnaðurinn við hinn endurunna pappír er töluvert mikill og reyndar er því haldið fram af þeim sem ég hef fengið upplýsingar frá að hann sé töluvert lakari að gæðum en mér fannst koma fram í orðum hv. fyrirspyrjanda. Hins vegar er í stjórnarráði og ríkisstofnunum notað óhemjumikið af pappír sem við gætum kallað risspappír eða þess háttar sem notaður er til að senda alls konar lauslegar handskrifaðar nótur á milli aðila og ég sé ekkert því til fyrirstöðu a.m.k. að slíkur pappír sé notaður í því skyni.
    Ég vil hins vegar geta þess að nú er einmitt unnið mjög að því á vegum iðnrn. að kanna hvernig stuðla megi að endurvinnslu ýmiss konar úrgangsefna hér á landi og mun mjög fljótlega verða lagt fram frv. um þátttöku stjórnvalda í slíkri endurvinnslu sem ég tel vera afar stórt og mikilvægt mál. Ég vek einnig athygli á því að á vegum ýmissa sveitarfélaga er nú unnið að athugun á því hvernig nota megi úrgang til orkuframleiðslu sem vitanlega hefur verið skoðað hér fyrr en er nú komið á töluvert annað stig. Stjórnvöld vilja stuðla að því að slík notkun verði einnig hér á landi. Í mörgum tilfellum, t.d. á dreifðum svæðum, getur verið erfitt, er mér tjáð, og liggur í hlutarins eðli, að greina í sundur ýmiss konar úrgangsefni sem þarf að gera því að þau eru þar af skornum skammti. Endurvinnsla á pappír fellur að sjálfsögðu inn í þessar hugmyndir og mér er kunnugt um að einkaaðilar eru hér með hugmyndir um að endurvinna pappír í víðtækara mæli en gert hefur verið. Þó að sjálfsagt sé að nota erlendan endurunninn pappír af þeim ástæðum sem hv. fyrirspyrjandi nefndi hér áðan, sem sagt að draga úr gífurlegri ofnýtingu skóga jarðar, þá er það engu að síður markmið að við endurvinnum þann pappír sem hér fellur til í eigin þágu og ég tel að stjórnvöld eigi að stuðla að þessu.
    Þetta eru svör mín við spurningunni. Ég endurtek þakkir til fyrirspyrjanda að vekja máls á þessu. Ég held að hér sé stórt mál sem er verið að vinna að á mörgum sviðum en má vissulega hraða og ég mun --- ég endurtek það --- óska eftir því að athugað verði að

nota endurunninn pappír þar sem hentar í stjórnsýslunni.