Hagvarnaráð
Fimmtudaginn 16. febrúar 1989

     Fyrirspyrjandi (Geir H. Haarde):
    Virðulegi forseti. Á árinu 1985 voru samþykkt hér á Alþingi lög sem gerðu ráð fyrir nokkrum breytingum á starfsemi Almannavarna. Lagabreyting þessi var gerð eftir nokkra umfjöllun og störf sérstakrar nefndar sem vann í málinu um nokkurn tíma.
    Eitt af því sem kom inn í þessi lög sem nýjung var sérstakur kafli, VI. kafli, um hagvarnir, en þar segir m.a. að forsrh. skuli skipa sérstakt hagvarnaráð er í eigi sæti ráðuneytisstjórar ráðuneytanna og einnig segir að verkefni hagvarnaráðs sé að vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um hagvarnir. Síðan segir, með leyfi forseta, í 24. gr.:
    ,,Hagvarnaráði ber að gera ráðstafanir til þess að í ráðuneytum og stofnunum ríkis og sveitarfélaga ( Forseti: Ég verð aðeins að trufla hv. 17. þm. Reykv. Þeim forseta sem hér situr nú var ekki kunnugt um að hæstv. forsrh. sem á að svara fsp. hafði óskað eftir að þessu máli yrði frestað af sérstökum ástæðum, vegna veikinda embættismanns í ráðuneytinu, svo að ég held að það sé ekki um annað að ræða en falla frá því að flytja fsp. lengra en komið er og fresta henni.) Ég fellst á það, virðulegi forseti. ( Forseti: Ég bið velvirðingar á þessu gagnvart hv. 17. þm. Reykv.)