Lokun sendiráða
Fimmtudaginn 16. febrúar 1989

     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu en mig langaði til vegna orða bæði fyrirspyrjanda og svo síðar vegna svara hæstv. utanrrh. að varpa þeirri spurningu fram við hæstv. ráðherra hvort það hafi verið rangt skilið að hann hafi að mig minnir á sl. hausti látið þau orð falla að það ætti að leggja niður, að hans mati, tvö sendiráð á Norðurlöndunum. Ég man ekki alveg nákvæmlega hvaða sendiráð hæstv. ráðherra tiltók. Er það hugsanlega liður í stefnumörkun núverandi ríkisstjórnar og samdráttaraðgerðum að leggja niður tvö sendiráð á Norðurlöndunum? Þá væri fróðlegt að vita hvort hæstv. ráðherra hafi einnig haft í hyggju þegar hann var fjmrh. að leggja niður sendiráðið í París. Ég varpa þessu svona fram og vildi gjarnan fá svar við þessu.
    Svo er það önnur spurning sem væri fróðlegt að fá svar við. Það er ágætt að vera með hugrenningar og vísindalegar athuganir og rannsóknir og skýrslugerðir í ráðuneytunum, en hvað hefur hæstv. utanrrh. gert raunhæft í sambandi við vandamál í útflutningi saltfisks? Nú vitum við það, hv. þm., að Evrópubandalagið er að þrengja mjög að mörkuðum Íslendinga, m.a. með því að minnka svokallaða frjálsa kvóta fyrir innflutning á saltfiski frá þriðja ríki, þ.e. ríkjum utan bandalagsins. Það er verið að þrengja þessa kvóta mjög mikið á sama tíma og verið er að hækka tolla. Hvað hafa utanrrn. og hæstv. utanrrh. gert raunhæft í því að tryggja stöðu Íslendinga gagnvart þessari þróun?