Lokun sendiráða
Fimmtudaginn 16. febrúar 1989

     Fyrirspyrjandi (Geir H. Haarde):
    Virðulegi forseti. Ég vakti athygli á því í mínu innleggi hér áðan að það lá fyrir á blaði frá hæstv. þáv. fjmrh., núv. utanrrh., tillaga um að kanna hvort ekki ætti að loka sendiráðunum í Osló, Stokkhólmi og París, en efla starfsemi annars staðar. Ráðherrann hefur raunverulega engu svarað um, hvort það er enn þá hans stefna. Hann vefur þetta inn í almennar athugasemdir um þetta mál og auðvitað er kannski allt gott um það og ágætt að athuga hvort eigi að stofna sendiráð í Japan eða í Kína jafnvel og allt gott um þennan sparnað hjá lögreglustjóranum í Keflavík. Það er hins vegar ekki það sem ég er að spyrja um. Ég var að spyrja um það hvort ráðherrann ætlaði að halda fast við þær hugmyndir sem hann hafði í haust um þessi þrjú sendiráð. Því hefur hann ekki viljað svara eins og ég benti á. Að því er varðar sendiráðið í París er harla augljóst hvers vegna hann svarar því ekki.