Lokun sendiráða
Fimmtudaginn 16. febrúar 1989

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Ég skil nú ekki þessi önugheit hv. fyrirspyrjanda og tel að þau svör sem hann hefur fengið séu fullnægjandi. Svarið er það að það er rétt sem hv. fyrirspyrjandi sagði. Þessum tillögum sem hann las af minnisblaði úr fjmrn. hafði verið hreyft. Þessar tillögur höfðu verið unnar frekar þegar undirritaður kom í utanrrn. Þannig liggja fyrir athuganir á því hverju mætti fá áorkað í sparnaði, annars vegar við það að loka tilteknum sediráðum, hins vegar að draga saman segl í þeim. Þetta er hins vegar ekki sparnaðartillaga fyrst og fremst, heldur er þetta spurning um það að nýta þá fjármuni betur með öðrum hætti.
    Niðurstaðan varð sú að því er varðar breytingar á utanríkisþjónustu, og það er meginkjarni míns svars, að það mál verður skoðað í heild sinni áður en lagðar verða fram einstakar tillögur um breytingar að því er varðar einstök sendiráð. M.ö.o.: framkvæmd á slíkum tillögum er ekki tímabær að svo stöddu. Það er unnið að heildarendurskoðun á hlutverki og starfsemi utanríkisþjónustunnar.
    Að því er varðar svo óskylt mál, hvað gert hafi verið raunhæft af hálfu utanrrn. að því er varðar þau vandamál sem við stöndum frammi fyrir varðandi útflutning á saltfiski til Spánar og Portúgals eða Efnahagsbandalagsríkja, þá er ekki unnt að svara því af öðru tilefni nema í lengra máli. Ég vil þó taka fram að þessi mál hafa verið rædd af minni hálfu mjög rækilega við utanrrh. Spánar og Portúgals og reyndar við utanrrh. Frakka mjög nýlega. Sjútvrh. á fund í byrjun næsta mánaðar með framkvæmdastjóra sjávarútvegsmála innan Evrópubandalagsráðsins, European Commission, núna í byrjun mars. Ég hef haft náið samstarf um þetta við framkvæmdastjóra og stjórnarformenn Sambands ísl. fiskframleiðenda og hafði m.a. með mér í för til viðræðna við utanríkisráðherra þessara landa Magnús Gunnarsson framkvæmdastjóra. Við höfum sent þeim álitsgerðir nákvæmlega um óskir okkar og vilja til breytinga í þessu efni og eftir að fréttir bárust af breytingum á kvótaskipan núna hafa bæði forsrh. og utanrrh. skrifað beint utanríkisráðuneytum þessara landa, komið á framfæri andmælum, tillögum okkar um breytingar og rökum okkar fyrir því. Árangur liggur ekki fyrir og getur ekki legið fyrir snemmendis, það liggur alveg ljóst fyrir, en það er mesti misskilningur ef menn halda að menn hafi sofið á verðinum í þessu máli.