Endurskoðun laga um Seðlabanka Íslands
Fimmtudaginn 16. febrúar 1989

     Fyrirspyrjandi (Geir H. Haarde):
    Virðulegi forseti. Ég lagði fram fsp. í byrjun janúar um viðhorf viðskrh. til endurskoðunar á lögum um Seðlabankann í tilefni af því að hæstv. utanrrh. og formaður Alþfl. lét ákveðin ummæli falla í áramótagrein sinni um nauðsyn þess að endurskoða bankann. Auðvitað er það þannig þegar formaður í stjórnmálaflokki, einn af áhrifamestu mönnunum í ríkisstjórninni, lætur orð falla um stofnanir sem heyra undir annað ráðuneyti að eðlilegt er að það sé spurt um viðhorf viðkomandi fagráðherra á því máli og hvort hann hyggist taka mark á þeim ábendingum sem í þessu tilfelli formaður hans flokks hefur komið með.
    Ég hafði reyndar hugsað mér að orða þessa fsp. eilítið öðruvísi, þ.e. hvort viðskrh. hygðist beita sér fyrir endurskoðun laganna í tilefni af þessum ummælum, en það varð að samkomulagi með okkur forseta að fsp. yrði eilítið breytt. Því er hún svo sem hér segir, með leyfi forseta:
    ,,Er viðskrh. samþykkur þeirri yfirlýsingu formanns Alþýðuflokksins í áramótagrein hans að ,,ferill Seðlabankans í íslenskri peningamálastjórn sé orðinn slíkur að ekki verði lengur hjá því komist að taka starfsemi bankans til gagngerrar endurskoðunar; við þurfum nýja löggjöf um Seðlabankann þar sem hlutverk hans og valdsvið verði þrengt og honum fengin forusta á faglegum grundvelli"?
    Hyggst viðskrh. beita sér fyrir endurskoðun laga um Seðlabanka Íslands af þessu tilefni?``
    Nú er það að vísu svo, virðulegi forseti, að það er í raun búið að svara þessari fsp. Það var gert með frv. sem hér var lagt fram til laga um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands sem hæstv. viðskrh. flutti. Þar eru ýmsar breytingar lagðar til á lögunum um bankann. Hins vegar ekkert af því sem hæstv. utanrrh. hefur verið að tala um og hefði mátt ætla að í fælist ákveðin pólitísk stefnumörkun a.m.k. af hálfu Alþfl. Það má því segja að viðskrh. hafi svarað með verkum sínum fsp. sem hér er til meðferðar, enda segir í tilvitnuðum ummælum utanrrh. að hlutverk Seðlabankans og valdsvið hans verði að þrengja. Hins vegar er ljóst að í nýjum efnahagsráðstöfunum ríkisstjórnarinnar segir beinlínis, með leyfi forseta, í ræðu forsrh.: ,,Seðlabankinn mun óhjákvæmilega gegna lykilhlutverki í framkvæmd stefnu ríkisstjórnarinnar í peninga- og vaxtamálum.``
    Þessir tveir ráðherrar, hæstv. forsrh. og hæstv. viðskrh., hafa raunverulega svarað í verki minni fsp., en ég tel engu að síður eðlilegt að viðskrh. fái tækifæri til að gera það hér úr ræðustól sömuleiðis.