Meðlög
Fimmtudaginn 16. febrúar 1989

     Fyrirspyrjandi (Geir H. Haarde):
    Virðulegi forseti. Ég leyfði mér að bera fram fsp. til félmrh. um málefni sem kannski strangt tekið heyrir undir heilbr.- og trmrh., en það var að vísu með vilja gert því mig langaði að fá fram viðhorf félmrh. Hér er um að ræða málefni sem er félagslegs eðlis að hluta til. En fsp. gengur út á það, virðulegi forseti, hvort félmrh. hafi í hyggju að beita sér fyrir breytingum á lögboðinni fjárhæð meðlaga þannig að þau endurspegli betur raunverulegan kostnað við framfærslu barna.
    Hér er um að ræða málefni sem mjög margir eru kunnugir af ýmsum ástæðum. Félag einstæðra foreldra hefur tvívegis gert könnun á framfærslukostnaði barna, síðast árið 1987 og sömuleiðis fjórum árum áður ef ég man rétt. Í báðum þessum könnunum kom fram að hið lögboðna meðlag væri verulega lægra en helmingur framfærslukostnaður barns og var það eitthvað breytilegt eftir aldri barna og þeim forsendum sem gefnar voru í hverju tilfelli.
    Nú er mér ljóst að hér er ekki um sérstaklega einfalt mál að ræða og mörg sjónarmið sem þarna koma við sögu, en ég held að það sé fróðlegt að fá vitneskju um viðbrögð félmrh. við þessu máli og hvort hæstv. ráðherra hyggst beita sér fyrir einhverjum breytingum þó svo að það yrði þá væntanlega að vera flutt af öðrum ráðherra.