Umhverfisráðuneyti
Fimmtudaginn 16. febrúar 1989

     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Það eru aðeins örfá orð í sambandi við þessa umræðu um till. til þál. um umhverfisráðuneyti sem flutt er af þingmönnum Kvennalistans. Hér er hreyft hinu þarfasta máli og það er óhætt að segja að það er kannski einmitt á þessum síðustu tímum sem alþjóð hefur gert sér grein fyrir þýðingu þess að taka á umhverfismálum áður en það verður orðið of seint.
    Það kom fram í máli hæstv. menntmrh. að þetta mál hafi verið flutt hér á þingi áður og ég gat ekki látið hjá líða að benda á að það liggur nú einmitt fyrir í Nd. frv. til laga um samræmda stjórn umhverfismála og gefst væntanlega gott tækifæri þegar það mál verður tekið til umfjöllunar að gera eitthvað raunhæft í þessum málum því það er einu sinni svo að frv. eru sterkari aðferð til að koma málum í framkvæmd en þáltill. þó þær séu auðvitað nauðsynlegar og vissulega af hinu góða til að vekja athygli á málum. En reynsla okkar er því miður oft sú að þó að hér séu jafnvel samþykktar mjög góðar þáltill. vill oft dragast að þau mál komist í framkvæmd.
    Allar götur síðan 1975 var farið að undirbúa frv. til laga um samræmingu á umhverfismálum hér á hv. Alþingi og enn þá eru þessi mál ekki komin í höfn svo það er vissulega orðið tímabært að taka á þessum málum. Eins og kom fram í máli hæstv. menntmrh. er kannski einmitt ástæðan sú hvað erfitt er að fá menn til að gefa eftir sína málaflokka í hinum ýmsu ráðuneytum, en eins og raun ber vitni falla þessi mál undir sjö ráðuneyti. Ég minni á að sjálf var ég nýliði á Alþingi þegar ég flutti frv. um þessi mál og það fékk ekki aðra afgreiðslu en til nefndar og búinn heilagur. Það frv. var endurflutt, hafði áður verið flutt sem stjfrv. af þáverandi hæstv. félmrh. Gunnari Thoroddsen. Ætli það hafi ekki verið árið 1978? Eins og hér hefur komið fram hefur meira að segja núv. hæstv. menntmrh. látið semja frv. og ekkert hefur gengið.
    Þetta var á dagskrá hjá síðustu ríkisstjórn og á þeim tíma skipaði þáv. forsrh. Þorsteinn Pálsson nefnd til að semja drög að frv. sem var og gert og var að ég held komist að nokkuð góðu samkomulagi á milli þeirra aðila sem áttu þar hlut að máli. Einmitt það frv. liggur nú fyrir Nd. og er að mestu leyti óbreytt en er nú flutt sem þmfrv. þingmanna Sjálfstfl. sem sæti eiga í Nd.
    Ég vildi bara koma þessu hér að til þess að minna á að þessi mál eru á dagskrá kannski hjá öllum þingflokkum sem endurspeglar einmitt að það er áhugi á þessum málum og þess vegna mætti vænta þess að það yrði hægt að ná einhverjum árangri á því þingi sem nú situr.