Umhverfisráðuneyti
Fimmtudaginn 16. febrúar 1989

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Þetta hefur verið málefnaleg umræða í öllum meginatriðum og ég þakka fyrir hana og þær ræður sem hv. 12. þm. Reykv. hefur hér flutt. En mér heyrðist að hv. 8. þm. Reykv. væri að inna mig eftir því hvað ég hefði átt við með umræðunni um ,,báknið`` í tengslum við þessi mál. Er það ekki rétt?
    Það er ágætt, virðulegi forseti, að fá tækifæri til að ræða smástund um báknið. ( Forseti: Nú vil ég minna hæstv. ráðherra á að hann má aðeins gera örstutta athugasemd.) Ráðherrann hefur talað einu sinni. Má hann ekki tala tvisvar? ( Forseti: Það er rétt hjá ráðherra. Ráðherra hefur aðeins talað einu sinni.) Ráðherrann skal þá bara tala eins og í hálft skipti núna, fjórar mínútur eða svo. ( FrS: Er pottþétt að ráðherrann hafi málfrelsi fremur en fjmrh.?) Ég hygg að það sé ljóst, er það ekki hv. 1. þm. Reykv., að menntmrh. hafi málfrelsi og tillögurétt.
    Varðandi það sem ég nefndi áðan um báknið, þá átti ég ósköp einfaldlega við það að í umræðum t.d. um umhverfismál hefur fólk kannski ekki sett það dæmi upp fyrir sér í leiðinni að það verður að kosta til þess auknum fjármunum að halda utan um þessa þætti hér. Það er alveg óhjákvæmilegt. Það er alveg útilokað í raun og veru að framkvæma náttúruverndarlögin eins og þau eru, því miður, öðruvísi en að það verði kallað þar til aukið fjármagn. Það er ekki sóun af neinu tagi heldur er það einfaldlega að framkvæma lögin eins og þau eru og eins og samstaða var um að þau urðu árið 1971 og síðar. Ég bið hv. þm. að hugleiða í þessum efnum þá staði og þau svæði á landinu sem viðkomandi þingmenn þekkja deili á að þurfi sérstakrar athugunar, eftirlits og rannsóknar við. Mér verður t.d. undir ágætum ræðum hv. 12. þm. Reykv. hugsað til miðhálendisins og þess hvernig staðið er að gæslu og vörslu, eftirliti, rannsóknum á því svæði sem er einn viðkvæmasti hluti landsins, miðhálendið. Ég hef í sambandi við það ekki séð neinar vitlegar tillögur t.d. um hvernig halda ætti á stjórn mála inni á miðhálendinu sjálfu vegna þess að þar er um að ræða allt aðrar m.a. eignarréttaraðstæður en eru í byggð og mjög flókið að taka á því máli.
    Ég held sem sagt að um leið og við segjum umhverfisráðuneyti verðum við að segja að það kostar peninga og við verðum að átta okkur á því hvernig við ætlum að afla þeirra peninga. Ég er fyrir mitt leyti tilbúinn að taka þátt í því, en ég held að við eigum ekki að reyna að blekkja okkur sjálf eða landslýð með því að þetta verði gert fyrir 0 kr. eða ekki neitt. Það er ekki þannig. Það verður að kalla þar til viðbótarfjármuni, en til þess að það sé hægt verður aftur á móti að efla skilning þjóðar og þings á málaflokknum. Ég leyfi mér að vona það, virðulegi forseti, að sú umræða sem hefur farið fram í dag verði í minnum höfð þegar afgreidd verða fjárlög ársins 1990, að allir sem hér eru, jafnbrennandi í andanum í umhverfismálum og raun ber vitni um í dag og fagna ber, verði nákvæmlega jafnreiðubúnir þá

að taka á þessu mikilvæga máli, sem umhverfismálin eru, og verja til þess fjármunum. Og ekki aðeins verja til þess fjármunum heldur að skattleggja í því skyni því að það er nóg af fólki og góðum hugmyndum, það eru nógar hugmyndir uppi til að verja í fjármunum, en það virðist stundum standa á því að menn séu tilbúnir að kalla þá fjármuni inn þaðan sem þá á að taka.
    Það er svo umhugsunarefni, sem hv. 8. þm. Reykv. kom inn á og hv. 6. þm. Reykn., hvernig mál ber að á hverju þingi á hv. Alþingi. Hér erum við að ræða um till. til þál. sem er fín till. til þál., engin deila um það. Það liggur líka fyrir frv. til l. um sama mál og má mikið vera ef einhvern tíma í vetur hefur ekki verið tekin fyrir einhver fyrirspurn um þetta efni líka. Maður spyr: Hvernig er skilvirkni umræðunnar á Alþingi? --- svo að ég vitni til orðs sem fyrrv. hæstv. fjmrh. notaði gjarnan þegar hann var að fá menn til að samþykkja skattana sína. Þetta er nokkuð kostulegt umhugsunarefni. Getur verið að á bak við þennan tillöguflutning hjá okkur oft og tíðum og það að þetta er tekið fyrir á mismunandi vettvangi felist það að hver flokkur vilji gjarnan koma sínum málum á framfæri og sínu fólki til þess að unnt sé að taka á málunum í nafni viðkomandi flokks eða hvað? Það er nokkuð sérkennilegt t.d. að Sjálfstfl. eða þingmenn hans í Nd. munu vera að flytja hér, er mér tjáð, frv. sem hafði verið undirbúið í Stjórnarráðinu. Það er reyndar ekkert nýtt að Sjálfstfl. geri það. Hann tekur iðulega úr Stjórnarráðinu frumvörp sem hann lætur undirbúa þar og flytur þau sem þmfrv. Það er spaugilegast þegar Sjálfstfl. á ekki einu sinni fulltrúa í viðkomandi stjórn eins og var á sínum tíma þegar hann tíndi frumvörpin út úr ráðuneytunum eins og skæðadrífu og flutti þau í þinginu í sínu nafni. Það er nokkuð merkilegt með íhaldið að það hefur yfirleitt langmestan áhuga á þessum málum þegar það er í stjórnarandstöðu, alveg brennandi áhuga, vaða eld og brennistein fyrir umhverfismál og guð veit hvað, en þegar það kemur í stjórn gengur verkið einhvern veginn miklu hægar. Það er öðruvísi á þeim bæ sem við ráðum á núna, ég og hæstv. forsrh. og fleiri góðir menn, eins og kunnugt er. ( FrS: Er þetta dæmi um málefnalegar umræður?) Nú vil ég biðja hv. 1. þm. Reykv. að virða mér það til vorkunnar að ég hef lokið tíma mínum í fyrsta lagi, í öðru lagi get ég aðeins gert örstutta athugasemd og ég vil í þriðja lagi lýsa því yfir að mér er sérstök ánægja að því að fá tækifæri til að ræða við Sjálfstfl. á hvaða vettvangi sem er um umhverfismál, en ég get ekki talað mikið lengur núna þó að ég sjái það á hv. 1. þm. Suðurl. að honum finnst gaman að hlusta.