Umhverfisráðuneyti
Fimmtudaginn 16. febrúar 1989

     Flm. (Kristín Halldórsdóttir):
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki vera orðmörg því ég teygði eitthvað tímamörkin hérna í fyrstu ræðu minni, en ég get ekki látið hjá líða að þakka fyrir þessa umræðu sem hefur nú staðið yfir í rúman klukkutíma og verið að mestu leyti málefnaleg og góð.
    Ég þakka t.d. hv. 6. þm. Reykn. fyrir hennar orð. Hún gerði að vísu ekki annað en að endurtaka nokkurn veginn það sem ég sagði í framsöguræðu minni um það frv. sem liggur hér fyrir og sjálfstæðismenn flytja og mínar athugasemdir þar að lútandi voru nánast eingöngu að minna á það frv. og þá sögu sem fram kemur í grg. þar sem sagt er frá því hvernig gengið hefur að koma þessum málum í viðunandi lag. En svo sannarlega er góð vísa ekki of oft kveðin og við fáum væntanlega tækifæri til að endurtaka þá vísu þegar þetta frv. verður til umræðu og þá fá einnig þeir tækifæri til að ræða frekar um hver á hvað og hver hefur verið duglegastur í þessum málum sem hafa verið að deila um það. Ekki ætla ég að blanda mér í það.
    En ég bendi m.a. á það að þetta frv. hafði verið samið, alla vega að stærstum hluta, í Stjórnarráðinu og með því er ég m.a. að vísa til orða hv. 6. þm. Reykn. sem orðaði það svo að frv. væri sterkari aðferð til að koma málum í framkvæmd. Það minnir okkur e.t.v. á þann aðstöðumun sem er milli þingflokka sem aldrei hafa átt aðild að Stjórnarráðinu og hinna. Það er ekkert áhlaupaverk að semja heilan bálk, frv. til l. sem tekur á mjög víðum og stórum málaflokki. Það er töluverð búbót að því að hafa aðgang að stjórnarráði með tækifæri til nefndaskipana og því um líkt.
    Ég held að við höfum gert eins vel og við gátum með þá aðstöðu sem við höfum, en vissulega er misjöfn aðstaða þingmanna eftir því hvort þeir eiga aðild að stjórn eða ekki.
    Hv. 8. þm. Reykv. spurði mig að því hvað ég hefði meint með þeim orðum að sú ríkisstjórn sem nú situr væri e.t.v. líklegri til að standa við fögur fyrirheit um skipan þessara mála en hinar fyrri. Ég hafði reyndar heilmikla fyrirvara í mínu máli, m.a. þá ef henni endist líf og heilsa og jafnvel held ég að ég hafi sagt að hún væri e.t.v. ögn líklegri. Ástæða þess að ég tók svona til orða er kannski fyrst og fremst sú að það er eins og vaxandi áhugi á þessum málaflokki og aukinn skilningur á mikilvægi þess að taka hann föstum tökum og ég held raunar að hver ný ríkisstjórn sé líklegri þeirri sem hún tekur við af til að gera eitthvað í þessum málum einfaldlega vegna vaxandi skilnings og þunga á þessi mál. Ég held að á endanum hljóti þessi þrýstingur að leiða til þess að nauðsynlegar úrbætur verði gerðar.
    Ég vil svo þakka hæstv. menntmrh. fyrir hans orð í þessari umræðu þar sem hann ræddi efni okkar tillögu. Ég er honum út af fyrir sig sammála um að það sé erfitt að ná miklum árangri nema kosta til meira fé, en það er þó ástæða til þess að minna á það og það gerum við í greinargerð með þessari tillögu að fyrst og fremst þurfum við að samræma þessi mál.

Það er unnið að þeim á mörgum stöðum í stjórnkerfinu og brýnasta verkefnið er samræming. Síðan þarf að auka og bæta. En ég er honum sammála um að ef það er ágreiningur um ákveðna þætti verðum við vafalaust að sætta okkur við að fresta þeim og taka samnefnarann og leggja af stað. Það er mjög mikilvægt að fara að gera eitthvað í þessum málum og ég þakka honum hans jákvæðu viðbrögð og upplýsingar um það hvar þetta mál er á vegi statt nú í stjórnkerfinu. En okkar tillaga verður að skoðast sem innlegg í þessa umræðu og í þá vinnu sem sífellt er í gangi varðandi þessi mál.