Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Það mál sem hér á að fara að tala um, útboð opinberra rekstrarverkefna, 61. mál, er mál sem lagt er fram á þingi í október á sl. ári og hefur af ýmsum ástæðum ekki komist að og er ég alls ekki að kenna hæstv. forseta um það. Það eru ýmis atvik sem liggja til þess og skal ég ekki fara að deila um af hvaða ástæðu það er. Ég hef hins vegar verið oftast tilbúinn til að flytja framsöguræðu.
    Á síðasta fundi, þ.e. þegar fundur var í sameinuðu þingi á mánudaginn var, held ég að það hafi verið, var ætlunin að taka þetta mál fyrir og þá bað ég hæstv. forseta um að ná til fjmrh., sem þetta mál kemur mjög sérstaklega við, og það var gert þá og hann kom á staðinn, enda hefur hann sérstakan áhuga á því máli sem hér á að fara að ræða. Mér finnst satt að segja nánast óviðeigandi nú að taka málið fyrir fyrr en hæstv. ráðherra getur verið viðstaddur umræðuna og óska eftir því og skal fallast á það þar sem mörg önnur mál eru á dagskrá að þetta mál frestist um sinn í dag ef við gætum náð um það samkomulagi, ég og hæstv. forseti, þar sem ég tel mjög nauðsynlegt að fjmrh. verði við. Ef það á ekki að gerast neyðist ég til að flytja framsöguræðuna í málinu án viðveru virðulegs ráðherra. En í trausti þess að virðulegur forseti hugleiði þetta og kveði þá upp sinn úrskurð lýk ég máli mínu um þingsköp.