Júlíus Sólnes:
    Virðulegi forseti. Hér er vakið máls á mjög athyglisverðu vandamáli sem hefur komið upp í milliríkjasamningum og milliríkjaviðskiptum, sem sé fölsun á upprunaskírteinum.
    Ég er nýkominn úr ferðalagi til höfuðstöðva Fríverslunarbandalags Evrópuríkjanna í Genf svo og höfuðstöðva Evrópubandalagsins í Brussel. Þar áttum við kost á að ræða þetta vandamál og spyrja spjörunum úr ýmsa þá sérfræðinga sem þar starfa um hvernig eigi að taka á þessu og reyna að leysa þetta mikla vandamál sem á sinn uppruna, svo það orð sé nú notað í því skyni líka, í því að töluvert hefur verið um að flytja inn ódýrar vörur frá lágkostnaðarsvæðum, einkum í Austur-Asíu og merkja þær síðan sem framleiddar í einhverju Evrópulandanna, annaðhvort innan Fríverslunarbandalagsins eða Evrópubandalagsins. Þar með er hægt að selja þær vörur hvar sem er innan þess viðskipta- og verslunarsvæðis sem þessar tvær verslunarheildir mynda.
    Það hefur valdið miklum erfiðleikum að finna einhverja lausn sem getur tekið fyrir þessa misnotkun og var helst á þeim að skilja, þeim sérfræðingum sem við ræddum við, að það gæti orðið langt að bíða eftir því að það fyndist viðunandi lausn á þessu. Þó var bent á samning sem gekk í gildi 1. janúar 1988 á milli Fríverslunarbandalagsríkjanna sex og Evrópubandalagsins um einföldun formsatriða við tollmeðferð í viðskiptum með vörur. Í þessum samningi er gert ráð fyrir að taka í notkun samræmt tollskjal, sem þeir kalla á ensku ,,Single Administrative Document``, skammstafað SAD, sem á að gilda í öllum viðskiptum á fríverslunarsvæðinu í Vestur-Evrópu. Þessi fjölþjóðlegi samningur er sá fyrsti sem gengur í gildi milli EFTA-ríkjanna og Evrópubandalagsins á grundvelli Lúxemborgaryfirlýsingarinnar frá 1984. Hugmyndin með þessu samræmda tollskjali er að það verði gert tölvutækt og muni síðan gera öll pappírsgögn ónauðsynleg þannig að vörunni fylgi aðeins tölvutækar upplýsingar. Þannig verði hægt að skrá uppruna vörunnar og þær breytingar sem verða á vörunni. Vara sem á uppruna sinn t.d. í Austurlöndum fjær kemur þá flutt inn til annaðhvort EFTA-ríkis eða Efnahagsbandalagsríkis. Þar er uppruninn skráður inn í þetta tölvuskjal. Það má síðan vera að varan taki einhverjum breytingum í því landi sem flutti hana inn. Síðan er hún flutt út til næsta lands og þá fylgja þessar upplýsingar vörunni þannig að það er hægt að rekja upprunann og reyndar uppruna hinna ýmsu þátta sem mynda vöruna þegar hún er komin á lokastig og verður síðan seld í einhverju þriðja eða fjórða landi.
    Þessu SAD-skjali er ætlað að leysa af hólmi að því er talið um 60 tegundir mismunandi tollskjala sem áður hafa verið í notkun og eru í notkun enn. Hér er því um geysilega merkilega breytingu að ræða og gæti verið að með þessu fyndist leið til að koma í veg fyrir fölsun á upprunaskírteinum þannig að það liggi alltaf fyrir í tölvuskjalinu sem fylgir vörunni allar þær

upplýsingar sem varða uppruna hennar þó svo hún sé búin að fara í gegnum ýmsar breytingar á leið sinni frá upphaflegum framleiðanda og til neytenda.
    Það er þannig verið að vinna að þessum málum þótt hægt gangi í þeirri miklu pappírsmyllu sem stjórn Evrópubandalagsins er, en engu að síður þokast þessi mál í rétta átt. Þetta vildi ég að kæmi fram.