Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Ég tek undir orð hv. 1. þm. Suðurl. um að það er gjörsamlega óviðeigandi að hæstv. ráðherrar mæta ekki í þingsal þegar verið er að ræða jafnveigamikil og þýðingarmikil mál og það mál sem hér er til umræðu.
    Það er athyglisvert að ráðherrar í núv. ríkisstjórn virðast ekki sinna skyldu sinni sem alþingismenn samkvæmt þingsköpum og virða það ekki að mæta hér á fundum með hv. þm.
    Virðulegi forseti. Ég vil gjarnan að forseti hlýði á mál manna þegar þeir eru að tala hér. ( Forseti: Forseti reynir að hlýða á mál hv. þm. um þingsköp en jafnframt var verið að upplýsa hann um það sem hv. þm. er að tala um svo hann reyndi að nota bæði eyrun og hlusta í báðar áttir.) Gæti það kannski skýrt það þannig að ég þyrfti ekki að halda áfram hver sé staða hæstv. ráðherra og hvar þeir séu staddir í borginni ef þeir eru á annað borð í borginni? Hér er sagt við hv. þm. að þeir geti beðið eftir því að fjmrh., ég segi ekki hæstv. lengur, geti þóknast að mæta klukkan hálffjögur. Ég mótmæli því fyrir hönd alþingismanna að ráðherra geti gefið út það ,,diktat`` að hann komi þegar honum þóknist. Við erum staddir á fundi, klukkuna vantar korter í þrjú og ég krefst þess að hæstv. ráðherrar gegni þingskyldum sínum og við fáum ekki svona skilaboð frá fjmrh. Ég mótmæli því.