Flm. (Ingi Björn Albertsson):
    Hæstv. forseti. Ég vil aðeins fá að taka undir þá ósk sem fram kom hjá hv. 1. þm. Suðurl. og get ekki annað en sagt að mér þykir leitt að ég skuli ekki hafa sjálfur komið með þá beiðni, en engu að síður er hún komin fram og ég tek heils hugar undir hana og þá gagnrýni sem hér er sett fram á þá aðila sem eiga að sitja í þessum fögru stólum hér, sérstaklega merktum þeim, en þeir eiga afskaplega erfitt með að mæta hér og sinna sínum þinglegu skyldum eins og fram hefur komið.
    Ég óska þess að þessu máli verði ekki lokið fyrr en ráðherra mætir á svæðið og teldi hreinlega eðlilegt og sjálfsagt að fundi yrði frestað til hálffjögur þannig að við sætum þá við sama borð og hæstv. ráðherra sem þess vegna getur setið í kaffi einhvers staðar úti í bæ þessa stundina.