Iðgjöld vegna bifreiðatrygginga
Fimmtudaginn 16. febrúar 1989

     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Ég kem upp til að lýsa stuðningi mínum við þessa till., enda er ég reiðubúinn í flest sem getur orðið til þess að lækka iðgjöld á tryggingum yfirleitt, hvort sem það eru bifreiðatryggingar eða aðrar tryggingar, enda tel ég að tryggingaiðgjöld í landinu séu yfirleitt allt of há.
    Ég vil segja það vegna orða hv. síðasta ræðumanns að mikil er bjartsýni hans ef hann álítur að iðgjöld komi til með að lækka eitthvað vegna samruna þeirra tryggingarfélaga sem nú hafa tekið höndum saman. Ég vona að rétt sé, en ég stórefast um það, og fordæmin fyrir því eru víðar, að þessar lækkanir komi fram. Það má hins vegar velta því fyrir sér hvernig tryggingaiðgjöldum er skipt upp í t.d. áhættuflokka og þá aðallega um bifreiðatryggingar. Ég þekki til þess erlendis að þar skiptir máli hvað ökumaður t.d. er gamall sem er að taka sér tryggingu, hvers kyns hann er, hvort hann er karlmaður eða kvenmaður, hvar hann býr, á hvaða svæði. Er það í höfuðborg, miðlungsstóru plássi eða litlu plássi? Ég hygg að hér á Íslandi sé þessu aðeins skipt í tvo flokka. Það er annaðhvort Reykjavíkursvæðið eða dreifbýlið. A.m.k. þekki ég ekki aðra skiptingu.
    Það er ýmislegt sem má skoða í þessu máli, en eins og ég sagði í upphafi kem ég hér eingöngu til þess að lýsa stuðningi við þetta og er tilbúinn að samþykkja nánast allt sem leiðir til lækkunar á tryggingaiðgjöldum almennt.