Iðgjöld vegna bifreiðatrygginga
Fimmtudaginn 16. febrúar 1989

     Flm. (Skúli Alexandersson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka þær undirtektir sem till. þessi hefur fengið hér og bendi á að á sama hátt var umræðan hér á síðasta þingi, þingmenn tóku mjög undir þessa till., og þess vegna er það miður að till. skyldi ekki hafa fengið afgreiðslu á síðasta þingi og vænti ég þess, miðað við þær undirtektir sem hún hefur fengið hér, að nú muni hv. allshn. taka sig til og afgreiða till. fljótt úr nefndinni þannig að við getum þá afgreitt málið hér.
    Í sambandi við það sem ég sagði um viðveru hæstv. ráðherra hér í þingi á undanförnum árum er mér ljúft að taka undir það, sem hv. þm. Albert Guðmundsson sagði, að við minnumst þess að hann var mjög oft í þinginu og ég veit að það sem hann sagði áðan var alveg rétt lýsing á hans starfi sem ráðherra og sem þingmanns. Þegar rætt er um ráðherra, viðveru þeirra hér, er erfitt að flokka menn. Þeir verða vanalega teknir í hóp. Og þó að einhver skari þar fram úr að ágæti gleymist það, því miður.
    Um tillögu hans um að breyta orðalagi till. og segja ,,gera`` í staðinn fyrir ,,undirbúa`` held ég að í mörgu tilfelli sé betra að kveða ekki mjög stíft að orði þegar menn eru að leggja til að breyta í þá átt sem hér er lagt til. Hér er verið að leggja til með hógværu orðalagi að ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að vinna að því að tryggingaiðgjöld bifreiða verði ekki hærri hér á landi en í grannlöndum okkar. Það er kannski ekki mikill meiningarmunur þarna á milli, en fyrirskipunartónninn gengur oft og tíðum verr en að beina til aðila að hlutir verði gerðir. Ég sé því ekki ástæðu til þess að við flm. förum að leggja til þarna neina breytingu á og felum nefndinni að fjalla um þessa till. og koma með hana aftur inn í hv. Alþingi.
    Í sambandi við að nú hafa fjögur tryggingafélög orðið að tveimur skal ég viðurkenna að þar hefur orðið á nokkur breyting og ég nefndi það aðeins í framsöguræðu minni, en ég held að það sé full ástæða til þess einmitt þegar fjögur stærstu tryggingafélögin í landinu eru að sameinast að hafa fullan vara á og fylgjast með því. Það væri vel til fallið að þessi till. yrði samþykkt til þess að fylgjast með því sem gerðist í framhaldi af samruna þessara félaga, hvort það skilaði sér nokkuð til hagsbóta fyrir tryggjendur að félögin verði stærri eða hvort áfram væri haldið eins og haldið hefur verið hingað til.
    Í sambandi við tjónatíðni og að við komumst ekki út úr þessum vítahring fyrr en við náum niður tjónafjölda er það vitaskuld alveg rétt og það er meining tillögunnar að að því verði unnið að tjónum fækki. Við vitum að einmitt með aðgerðum sem er bent á í till. tókst okkur á því ári þegar breytt var úr vinstri umferð í hægri umferð að minnka tjón stórlega. Það var ekki beint gert með neinni sérstakri fyrirskipun heldur með ákveðnum samræmdum aðgerðum. Þessi till. leggur einmitt til að þannig sé unnið að málum að með samræmdum aðgerðum verði leitast við að draga úr tjónum og úr ýmsum kostnaðarliðum bak við iðgjöld trygginga.
    Ég endurtek svo að ég þakka þingmönnum fyrir

þann stuðning sem þeir hafa lýst við till.