Útboð opinberra rekstrarverkefna
Fimmtudaginn 16. febrúar 1989

     Flm. (Friðrik Sophusson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa tekið þátt í þessari umræðu og sagt sitt álit á því máli sem við ræðum þessa stundina. Mér heyrðist á máli hans að hann sé jákvæður í garð þessarar hugmyndar og tek undir það með honum að ástæða er til þess að hv. fjvn. kanni þetta mál til hlítar og vinni úr þessu máli þannig að hæstv. ríkisstjórn fái betri og skýrari leiðbeiningar en lesa má út úr sjálfri tillögunni.
    Mér er fullkunnugt um að auðvitað þurfa að finnast mörk þess hvenær á að bjóða út verkefni og hvenær ekki. Hæstv. ráðherra tók tvö nýleg dæmi, annað varðandi innflutning á bjór sem er kannski alveg úti á kantinum í þessari umræðu, hvort það tilheyrir rekstrarverkefnum að flytja inn bjór en gæti vissulega gert það. Ég hafði ekki haft það ímyndunarafl að láta mér detta það í hug þó að ég búist við því að ég njóti þessarar þjónustu ríkisins í ríkara mæli en hæstv. fjmrh. þegar til þess kemur, á ég von á. Hann hirðir af því hagnaðinn, en ég borga skattana mína sjálfsagt í gegnum það þegar ég fæ mér bjórglas ef af verður. Ég minni á það, sem ekki kom fram í ræðu hæstv. ráðherra, að málsvörn innlendu framleiðendanna er sú, og kom reyndar að hluta til fram í ræðu ráðherra, kannski ekki nægilega skýrt, að verð á bjórtegundum, sem ætlunin er að flytja til landsins, sem mig minnir að sé um það bil 12 kr. á hverja dós, sé lægra en þessar sömu verksmiðjur selja í öðrum löndum og jafnvel í heimalöndum sínum til þeirra sem síðan dreifa. Sé svo er hér um að ræða það sem kallað er undirboð eða ,,dumping`` og heimilt er fyrir íslensk stjórnvöld samkvæmt lögum og milliríkjasamningum að svara með því að leggja á sérstaka undirboðstolla sem auðvitað skiptir ekki máli þegar um áfengi er að ræða því að það gilda sérstakar reglur um innflutning á áfengi. Þetta hefur verið málsvörn innlendu aðilanna, hversu haldgóð sem sú málsvörn hins vegar er.
    Ef við hins vegar athugum þetta mál aðeins betur og hugleiðum hvernig á að fara með áfengisútsölur alveg burtséð frá þeirri siðfræði sem í því felst, þá mætti til að mynda hugsa sér að einkaaðilar sæju um dreifingu á þessum varningi, tækju það að sér, t.d. verslunareigendur með ákveðnum tilteknum skilyrðum sem gætu verið mjög ströng, til að mynda þeim að slíkar verslanir yrðu stúkaðar alveg sérstaklega af, aðgangur yrði bannaður öðrum en þeim sem hefðu leyfi til að versla í slíkum verslunum, úrval vörutegunda yrði með ákveðnum hætti o.s.frv. Það er lítill vandi að leigja slíka starfsemi út og ég held að það sé nærtækara ef rætt er um útboð á rekstrarverkefnum að líta til þess fremur en hins, hvaða tilboðum á að taka þegar flutt er inn áfengi, hvort heldur það er bjór eða annað áfengi, til landsins, en eins og allir vita hefur ríkið einkaleyfi á innflutningi áfengis.
    Varðandi rekstur sjúkrahúsa get ég sagt að þessi spurning um lyfjakaupin hefur komið upp áður. Í tíð Matthíasar Bjarnasonar sem heilbrmrh. var þetta athugað og í ljós kom að ekki reyndist hagkvæmt að

bjóða lyfjakaupin út í heilu lagi. Hins vegar hefur það tíðkast um margra ára skeið hjá ríkisspítulum, þ.e. þeim spítulum sem ríkið rekur, og geri ég þá auðvitað mun á því hvort ríkið rekur spítalana og hinu hvort ríkið í raun borgar allan kostnað spítala og aðrir reka, það þekkir auðvitað hæstv. fjmrh., að til að mynda á Landspítalanum eru lyfjakaupin boðin út í dag og hagstæðasta tilboði tekið og munar mjög miklu þegar um slíkt er að ræða. Af þessu hefur sá sem hér stendur nokkra reynslu. Eins og fram kom hjá hæstv. fjmrh. var ég formaður stjórnarnefndar ríkisspítalanna um fjögurra ára skeið þar sem einmitt var á hverjum degi verið að taka ákvarðanir á borð við þessar.
    Það sem mér finnst skipta máli í þessari umræðu er þetta: Hæstv. fjmrh. hefur lýst því yfir að þessi tillaga sé góðra gjalda verð. Ég fæ skilið af hans máli að hann hafi áhuga á því að þessar leiðir séu kannaðar. Hann bendir á að tillagan er ekki mjög skýr. Engin mörk eru gefin upp í tillögunni um hvenær slík útboð eigi að eiga sér stað og hvenær ekki og hann stingur upp á því að hv. fjvn. kanni slíkt. Undir þetta allt vil ég taka og vænti þess að hæstv. ráðherra muni þá í samstarfi við aðra, og býð ég hér fram mína starfskrafta, ýta við hv. fjvn. og, sem ég held að skipti mjög miklu máli, fái starfsmenn ráðuneytisins og annarra ráðuneyta til að leggja hönd á plóginn því að ég held að hér geti verið um verkefni að ræða sem fjvn. getur unnið en þyrfti að fá liðsinni starfsmanna ráðuneytisins og jafnvel annarra ráðuneyta. Vænti ég þess að hæstv. ráðherra beiti sér fyrir því að slíkt verði gert. Skiptir það mig þá ekki öllu máli hvort þessi tillaga verður endanlega samþykkt á hinu háa Alþingi eða hvort það verður sjálfstæð ákvörðun hæstv. ríkisstjórnar að láta þessa athugun fara fram og að henni lokinni verði skýrsla lögð fyrir Alþingi, annaðhvort fyrir eða eftir að einhver tilraunastarfsemi hefur átt sér stað.
    Að svo mæltu vil ég, virðulegur forseti, þakka hæstv. ráðherra fyrir undirtektirnar og vona að í kjölfar þeirra megum við fá að sjá árangur í þessum efnum.