Lánsfjárlög 1989
Föstudaginn 17. febrúar 1989

     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Eiður Guðnason):
    Herra forseti. Fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar hefur fjallað um 103. mál, frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1989. Nefndin hefur haldið marga fundi um málið. Ég hygg að fundir nefndarinnar séu orðnir 30 eða þar um bil, að vísu ekki allt um þetta mál, en ég hygg þó að á um það bil hemingi fundanna hafi verið fjallað um frv. til lánsfjárlaga. Einkanlega fór sú umfjöllun fram í nóvember og í desember og nú aftur eftir að þing kom saman í febrúar.
    Til fundar við fjh.- og viðskn. komu rúmlega 50 einstaklingar frá 32 stofnunum, fyrirtækjum og samtökum. Ég hygg að sjaldan hafi jafnmargt fólk komið til fundar við nefndina út af lánsfjárlögum eins og nú. Það hefur verið orðið við öllum þeim óskum og tilmælum sem fram hafa komið um að fá fólk til fundar við nefndina og síðast í morgun kom formaður stjórnar Verðjöfnunarsjóðs, Árni Kolbeinsson ráðuneytisstjóri. Enda þótt við værum búin í rauninni formlega að afgreiða málið úr nefndinni var óskað eftir því og auðvitað var orðið við því.
    Ég vil geta þess hér í upphafi að með nefndinni störfuðu þeir Halldór Árnason, skrifstofustjóri Fjárlaga- og hagsýslustofnunar, og Sveinn Agnarsson, starfsmaður Ríkisendurskoðunar.
    Ég mæli hér sem sagt fyrir áliti meiri hl. fjh.- og viðskn. Nefndin klofnaði í afstöðu sinni til málsins og meiri hl. skilar nál. á þskj. 485 og brtt. á þskj. 486.
    Nú er það svo að frv. til lánsfjárlaga og lánsfjárlög eru býsna lík frá ári til árs þannig að margt og mikið af efni frv. er nánast óbreytt frá í fyrra og þetta hygg ég að sé rétt að hafa í huga. Auðvitað hafa tölur breyst og tölur hafa mjög breyst eftir að frv. var lagt fram, og kem ég að því síðar, en í meginatriðum er það eins og lánsfjárlögin í fyrra. Þar eru svo sem engin meiri háttar frávik.
    Ég vil nefna hér og rekja hverjir komu til fundar við nefndina. Ég held að það sé nauðsynlegt. Nefndin fékk til fundar við sig eftirgreinda aðila: Þórð Friðjónsson, formann stjórnar Framkvæmdasjóðs, Guðmund Malmquist, forstjóra Byggðastofnunar, Gunnar Hilmarsson, formann stjórnar Atvinnutryggingarsjóðs --- hann kom raunar oftar en einu sinni á fund nefndarinnar, bæði fyrir og eftir áramót --- Bjarna Braga Jónsson, Ingva Örn Kristinsson og Jakob Gunnarsson frá Seðlabanka, Halldór Jónatansson, forstjóra Landsvirkjunar, Ingólf Aðalsteinsson og Júlíus Jónsson frá Hitaveitu Suðurnesja, Húnboga Þorsteinsson, skrifstofustjóra félmrn., Magnús E. Guðjónsson frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, Snæbjörn Jónasson vegamálastjóra og Helga Hallgrímsson aðstoðarvegamálastjóra, Jónas Bjarnason, Arinbjörn Kolbeinsson og Björn Pétursson frá Félagi ísl. bifreiðaeigenda, Leif Kr. Jóhannesson frá Stofnlánadeild landbúnaðarins, Benedikt Jónsson og Gunnar Guðbjartsson frá Lífeyrissjóði bænda, Hákon Sigurgrímsson frá Stéttarsambandi bænda, Hermann Guðjónsson vita- og hafnamálastjóra og Eyþór Elíasson frá Hafnabótasjóði, Gunnar H. Hálfdánarson

og Kjartan Gunnarsson frá Féfangi, Kristján Óskarsson frá Glitni, Þórleif Jónsson frá Landssambandi dráttarbrauta og skipasmiðja, Björn Magnússon frá Félagsheimilasjóði, Guðbrand Gíslason frá Kvikmyndasjóði, Þorvald Alfonsson og Guðmund Tómasson frá Iðnþróunarsjóði, Braga Hannesson frá Iðnlanasjóði, Birgi Þorgilsson frá Ferðamálaráði, Hólmfríði Árnadóttur og Snorra Tómasson frá Ferðamálasjóði, Hrafn Magnússon og Þórarin V. Þórarinsson frá Sambandi almennra lífeyrissjóða, Gunnlaug Sigmundsson og Jón A. Kristjánsson frá Þróunarfélagi Íslands, Markús Örn Antonsson útvarpsstjóra, Hörð Vilhjálmsson, fjármálastjóra Ríkisútvarpsins, og Ingu Jónu Þórðardóttur, formann Útvarpsráðs, Má Elísson frá Fiskveiðasjóði, Pál Hersteinsson veiðistjóra, Guðmund Karlsson og Magnús Jónsson frá Herjólfi hf. í Vestmannaeyjum, Sigurð E. Guðmundsson, Hilmar Þórisson og Percy Stefánsson frá Húsnæðisstofnun ríkisins, Halldór S. Kristjánsson, skrifstofustjóra í samgrn., og Atla Frey Guðmundsson, deildarstjóra í viðskrn., og er þá ótalinn Árni Kolbeinsson sem kom til fundar við nefndina í morgun.
    Ég mun nú, herra forseti, gera grein fyrir brtt. sem meiri hl. nefndarinnar flytur, en samkvæmt brtt. meiri hl. hækka lántökuheimildir frv. um 7940 millj. kr. og að baki þessari breytingu til hækkunar eru fjórar meginástæður.
    Í fyrsta lagi er lagt til að lántökuheimild fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs hækki um rúmlega 5,7 milljarða og verði samtals 10,4 milljarðar. Í 35. gr. frv. til lánsfjárlaga var farið fram á heimild fyrir fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs að taka 3,4 milljarða kr. lán á árinu 1988 til að fjármagna greiðsluhalla ríkissjóðs á því ári og gera upp skammtímaskuld við Seðlabankann vegna greiðsluhalla ríkissjóðs á árinu 1987. Síðar kom í ljós að yfirdráttur í Seðlabanka Íslands yrði miklum mun meiri vegna þess að tekjur ríkissjóðs reyndust miklum mun minni en áætlanir höfðu gert ráð fyrir. Bráðabirgðauppgjör sýndi að yfirdráttarskuld við Seðlabankann stefndi í að verða 8,3 milljarðar í árslok 1988.
    Með lögum nr. 94 frá 23. des. var aflað heimildar til 6,5 milljarða kr. lántöku í þessu skyni og með því að fullnýta heimildir ríkissjóðs til ádráttar
á veltilánum erlendis reyndist unnt að greiða niður skuld ríkissjóðs við Seðlabanka um 3,3 milljarða. Þá stendur eftir skammtímaskuld ríkissjóðs við Seðlabanka að upphæð 5 milljarðar kr., en hana þarf að gera upp fyrir lok marsmánaðar á þessu ári.
    Þessu til viðbótar hækkaði innlend lántaka ríkissjóðs í meðförum Alþingis á fjárlögum um 735 millj. kr. og verður 5,4 milljarðar rúmlega. Sú hækkun stafar af minni tekjuafgangi en fjárlagafrv. gerði ráð fyrir og áhrifum gengisbreytingar krónunnar á árinu 1989. Heildarlánsfjárþörf ríkissjóðs á yfirstandandi ári verður því 10,4 milljarðar. Ráðgert er að afla rúmlega 5,1 milljarðs af þeirri fjárhæð á erlendum lánamarkaði og 5,3 milljarða innan lands.
    Í öðru lagi er lagt til, og þá geri ég grein fyrir

breytingum, að í lánsfjárlög komi heimildarákvæði fyrir 1750 millj. kr. lántöku fjárfestingarlánasjóða sem skiptist þannig að Fiskveiðasjóður verði með 1200 millj., Iðnþróunarsjóður 150, Iðnlánasjóður 350 og Útflutningslánasjóður 50 millj. kr.
    Í lánsfjárlögum 1988 var sú stefna mörkuð að afnema ríkisábyrgð af lántökum opinberra fjárfestingarlánasjóða að undanskildum Framkvæmdasjóði, Byggðastofnun og byggingarsjóðum ríkisins. Af þeirri ástæðu voru engar lántökuheimildir þessum sjóðum til handa í lánsfjárlögum 1988, en þar sem ekkert varð úr lagasetningu um afnám ríkisábyrgða þá hafa sjóðirnir áfram ríkisábyrgðir á lántökum, og þó svo að núv. ríkisstjórn hafi ekki fallið frá þeirri stefnu að afnema ríkisábyrgðir á lántökum verða þær ekki afnumdar að sinni. Þess vegna er nauðsynlegt að taka inn í lánsfjárlögin heimildarákvæði fyrir erlendum lántökum þessara opinberu fjárfestingarlánasjóða.
    Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar að upphæð 105 millj. kr. vegna gengisfellingar krónunnar í janúar og febrúar 1989 og annarra breytinga sem orðið hafa á verðlagsforsendum. Af þeirri fjárhæð eru 60 millj. kr. til Landsvirkjunar, 15 millj. til ýmissa hitaveitna og 25 millj. kr. til flóabátsins Baldurs, en smíði hans á að ljúka á þessu ári.
    Í fjórða lagi eru nokkur erindi sem nefndinni hafa borist og lagt er til að tekin verði upp í lánsfjárlög 1989. Lagt er til að Hitaveitu Suðureyrar verði veitt lántökuheimild að upphæð 60 millj. kr., fyrst og fremst vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar og er sú heimild í samræmi við samkomulag fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs og hreppsnefndar Suðureyrarhrepps frá 30. des. 1988. Það samkomulag var gert á grundvelli heimildarákvæðis í lánsfjárlögum 1988. Þá er lagt til að Hríseyjarhreppi verði heimiluð 35 millj. kr. lántaka til að kaupa nothæfa ferju til að annast fólks- og vöruflutninga milli Hríseyjar og lands og milli Grímseyjar og lands. Kaup þessi tengjast uppstokkun í rekstri Ríkisskipa og þeirri ákvörðun að hætta við að reyna að endurbæta hafnaraðstöðuna í Grímsey þannig að hin stóru flutningaskip frá Ríkisskipum geti athafnað sig þar. Þetta mál var töluvert rætt í nefndinni og ég held að þetta sé mjög skynsamleg ákvörðun og gangi þetta eftir, svo sem ætlunin er, held ég að þarna hafi fengist góð og skynsamleg lausn á samgöngum eyjarskeggja í Grímsey og Hrísey og verði hægt að sinna þessum málum með töluvert ódýrari hætti en unnt hefur verið fram að þessu.
    Þá er lagt til að Byggðastofnun verði veitt viðbótarheimild til erlendrar lántöku að fjárhæð 200 millj. kr. vegna lánveitinga til viðgerða og endurbóta á skipum og ég vænti þess að hæstv. iðnrh. geri kannski nánari grein fyrir því máli síðar í þessari umræðu. Hér er ekki um að ræða nettóaukningu á erlendum lántökum, heldur er verið að veita þessum lánveitingum um annan farveg en áður var kannski um talað.
    Loks er lagt til að Framleiðnisjóði verði heimiluð 60 millj. kr. lántaka sem varið verði til sérstakrar

endurskipulagningar á fjárhag og rekstri loðdýrabúa. Er þetta í samræmi við áform ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til stuðnings loðdýrarækt á árinu 1989. Þær heimildir sem ég hef hér gert grein fyrir nema samtals 335 millj. kr.
    Þá er fallist á beiðni Byggðastofnunar um að stofnunin fái 150 millj. af 500 millj. kr. lántöku sem Framkvæmdasjóði var ætlað að taka og endurlána fyrirtækjum í fiskeldi. Það er gert með hliðsjón af því að Byggðastofnun lánaði á árinu 1988 þriðjung af þeim 300 millj. sem þáv. ríkisstjórn heimilaði til að endurlána fyrirtækjum í fiskeldi. Að þessum breytingum gerðum eru heildarlántökur innan lands og erlendis á árinu 1989 áætlaðar 36 milljarðar 570 millj. Þar af eru innlendar lántökur 15 milljarðar 750 millj. og erlendar lántökur 20 milljarðar 820 millj.
    Breytingar á II. kafla frv. til lánsfjárlaga sem lagðar eru til eru í samræmi við þær breytingar sem urðu á fjárlagafrv. 1989 í meðförum fjvn. og Alþingis.
    Framlag í ríkissjóð af hækkun bensíngjalds og þungaskatts hækkar úr 600 millj. í 680 millj. og framlag til Félagsheimilasjóðs hækkar úr 15 millj. í 21 millj. Þá er ný grein sem gerir ráð fyrir að framlag til Listskreytingasjóðs ríkisins verði eigi hærra en 6 millj. kr. á árinu 1989 þrátt fyrir ákvæði laga
um sjóðinn.
    Loks er umorðun á frumvarpsgrein sem snertir greiðslu kostnaðar af forfalla- og afleysingaþjónustu í sveitum. Þar er gert ráð fyrir að Stofnlánadeild landbúnaðarins þurfi ekki að vera milligönguaðili um greiðslu þessa kostnaðar, en hann er greiddur af þeim hluta framleiðendagjalds sem svo er kallað sem tekið hefur verið inn í verðlag búvara. Þetta er bara til einföldunar og gert í góðu samráði við þá sem hlut eiga að máli að þetta hættir að millifærast í gegnum Stofnlánadeildina.
    Breytingar á III. kafla frv. eru þær að 35. gr. verði felld niður, en í þeirri grein var að finna heimild til fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs til að taka lán á árinu 1988, en eins og ég hef áður um getið var þeirrar heimildar aflað með lögum frá 23. des. 1988, um bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði og heimildir til lántöku á árinu 1988.
    Þá er í 36. gr. leiðrétt heimild fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs til lántöku innan lands á árinu 1988 umfram heimild í lánsfjárlögum og það er til samræmis við raunverulegar lántökur ríkissjóðs á síðasta ári.
    Það er auðvitað ákaflega margt hér, herra forseti, sem væri ástæða til að víkja að. Í nefndinni hefur verið fjallað ítarlega um hverja einustu grein frv. og ég sé ekki ástæðu til þess að fara yfir það allt saman. Ég get samt endurtekið það, sem ég hef áður sagt og sagði í stjórnarandstöðu við þáv. hæstv. fjmrh., núv. 1. þm. Suðurl., að það er vond lögfræði og það er ekki góður siður að ríkið setji lög um ákveðna tekjustofna og setji síðan önnur lög sem taki þau lög af. Þetta er ekki góður siður og þessu þurfum við að breyta, en þetta er svona í þessum lánsfjárlögum eins og verið hefur í mörg ár. Ég er jafnóánægður með þetta og ég hef áður verið, en því verður ekki breytt

núna. Þetta er auðvitað hinn mesti ósiður.
    Það eru kannski eitt eða tvö atriði sem ég vildi víkja sérstaklega að. Á fund nefndarinnar komu fulltrúar Herjólfs hf. í Vestmannaeyjum, en í 9. gr. er að finna heimild til þess fyrirtækis að taka lán á árinu 1989 að fjárhæð 100 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt vegna nýrrar ferju. Það kom fram af máli þeirra að það er orðið mjög brýnt mál að endurnýja þetta skip. Það er öryggisatriði og gerðar hafa verið tilraunir til að leita að notuðu skipi. Það hefur ekki tekist og það er sjálfsagt tímaspursmál hve lengi það er verjanlegt að nota núverandi skip. A.m.k. kom það mjög sterkt fram í þeirra máli.
    Annað vildi ég nefna varðandi 37. gr. Þar er heimild til Framkvæmdasjóðs Íslands til að taka lán á árinu 1988 að fjárhæð allt að 429 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt og endurlána fiskeldisfyrirtækjum allt að 300 millj. kr. og hluthöfum Arnarflugs hf. allt að 129 millj. kr. Þessi lántaka var heimiluð snemma á sl. ári og 18. mars 1988 skrifaði þáv. forsrh. Þorsteinn Pálsson Framkvæmdasjóði bréf og bað sjóðinn að hafa milligöngu um þessa lánsútvegun. Sjóðurinn hefur gert það. Hins vegar hefur ekki komið til þess að dregið væri á lánið eða það væri notað vegna þess að hluthafar Arnarflugs hafa ekki getað lagt fram þær tryggingar sem sjóðurinn tekur gildar.
    Ég vil gjarnan víkja aðeins að þeirri umræðu sem hefur orðið um flugfélagið Arnarflug. Það hefur mikið verið talað um að ríkið kæmi þar til aðstoðar með einhverjum hætti. Skuldir eru miklar --- einhver milljónahundruð, ég skal ekki fullyrða hér í þessum ræðustól hve mörg --- og hefur verið leitað ýmissa leiða til þess að bjarga fyrirtækinu eins og kallað er, fyrirtæki sem er í rauninni löngu orðið gjaldþrota. Ég man þá tíð þegar hér störfuðu tvö flugfélög að samtímis fóru frá Keflavíkurflugvelli tvær hálftómar flugvélar á sama tíma til sama áfangastaðar, þegar Flugfélag Íslands og Loftleiðir störfuðu hér hlið við hlið. Þá þótti öllum brýnt að beita sér fyrir sameiningu þeirra félaga í eitt fyrirtæki, sem að vísu gekk ekki átaka- eða sársaukalaust fyrir sig en tókst, og hygg ég að allir séu í rauninni ánægðir með það að á þann veg skyldi til hafa tekist. Þá var það talið alveg nauðsynlegt að hér starfaði bara eitt flugfélag vegna þess að þessi þjóð hefði ekki ráð á því að reka hér tvö flugfélög. Síðar breyttust sjónarmið í þessu máli hjá ýmsum þeim sem höfðu kannski verið ákafastir talsmenn sameiningarinnar og þá var allt í einu talið nauðsynlegt að hafa hér tvö flugfélög til að tryggja eðlilega samkeppni eins og það var kallað.
    Ég held að allt tal um nauðsyn þess að hafa hér tvö íslensk flugfélög sé út í hött og tóm vitleysa. Það er næg samkeppni um flug hingað. Erlend flugfélög fljúga hingað nú þegar, SAS-flugfélagið mun tvöfalda ferðafjölda sinn. Það er að vísu bara ein ferð í viku eins og er, en þeir tvöfalda ferðafjölda sinn áður en langt um líður. Breskt flugfélag ætlar að fljúga hingað, þýskt flugfélag ætlar að fljúga hingað þannig að það verður nóg samkeppni á þessum litla markaði.

Hins vegar er það firra og fjarstæða að þessi þjóð eigi að reka tvö flugfélög sem annast millilandaflug og ég lýsi því hér og legg á það þunga áherslu að við megum þakka fyrir eftir fáein ár í þeirri samkeppni og þeim samruna þeirra fyrirtækja sem á eftir að verða í Evrópu ef okkur tekst að
halda úti hér einu flugfélagi sem heldur uppi millilandaflugi og við getum haft þessar samgöngur í okkar eigin höndum. Þess vegna á bara að leyfa því fyrirtæki sem heitir Arnarflug, og stóð til að lána hluthöfum þess 129 millj. kr., það á bara að leyfa því að fara á hausinn vegna þess að það er fyrir löngu farið á hausinn. Það á ekki að senda skattgreiðendum reikninginn. Íslenskir skattborgarar eiga ekki að halda uppi rekstri Arnarflugs eða borga með þeim farþegum sem það félag flytur. Það væri fáránlegt.
    Ég ætla ekki að hafa um þetta sérstaklega mikið fleiri orð, en af því að þetta mál hefur verið í umræðu og það er vikið að þessu hér í lánsfjárlögum, þá fannst mér nauðsynlegt að víkja að þessu og lýsa þeirri eindregnu skoðun minni að ég mun ekki taka þátt í því að velta skuldum Arnarflugs yfir á íslenska skattgreiðendur og ég vona að hæstv. fjmrh. sé mér sammála um það.
    Meiri hl. nefndarinnar leggur til, herra forseti, að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef nú gert grein fyrir og er að finna á þskj. 486.