Lánsfjárlög 1989
Föstudaginn 17. febrúar 1989

     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):
    Herra forseti. Það vakti athygli mína að frsm. meiri hl. nefndarinnar skýrði frá því að hæstv. iðnrh. ætlaði að taka þátt í umræðum varðandi hluta lánsfjárlaganna. Það væri kannski hægt að óska eftir því að hæstv. viðskrh. yrði viðstaddur þá alla umræðuna því að með sama hætti og skipasmíðaiðnaðurinn varðar iðnrh. þá varða lánsfjárlögin í heild og framkvæmd þeirra auðvitað viðskrh. að verulegu leyti. Það væri kannski rétt að óska eftir því að viðskrh. væri hérna viðstaddur, ef það er þá hægt að aðskilja þá, þá væri mér sama um það að annar þeirra kæmi, að þeir yrðu ekki samtímis í deildinni. ( Forseti: Það mun verða athugað.)
    Herra forseti. Við skrifum undir nál. saman, fulltrúar Borgfl. og Sjálfstfl. í fjh.- og viðskn., sem vegna anna í þinginu hefur ekki gefist tími til þess að útbýta, en von er á því á hverri stundu, og mun ég af þeim sökum fara yfir nál. í framsöguræðu minni.
    ,,Frv. til lánsfjárlaga ber stefnu ríkisstjórnarinnar glöggt vitni. Stefnt er að auknum lántökum erlendis og vaxandi umsvifum opinberra aðila á innlendum lánamarkaði. Á hinn bóginn er ekki að sjá að í deiglunni séu neinar þær aðgerðir sem stöðvi hallarekstur fyrirtækja í útflutnings- og samkeppnisgreinum. Fyrirsjáanlegt er að lánsfjárþörfin er stórlega vanmetin í lánsfjáráætlun. Enginn vafi leikur á að efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar hefur sterka tilhneigingu til að ýta raunvöxtum upp á við.
    Frv. til lánsfjárlaga er seint á ferðinni að þessu sinni sem er afleiðing af þeirri óvissu er verið hefur í efnahagsmálum og farið vaxandi eftir að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar settist að völdum. Það er íhugunarefni nú við afgreiðslu þessa frv. hversu langt hefur verið farið fram úr lánsfjárlögum á sl. árum sem gefur vísbendingu um eðli þessarar umræðu.
    Á árinu 1986 var gert ráð fyrir erlendum lántökum að fjárhæð 7,5 milljörðum kr. en þær reyndust tæplega 12 milljarðar kr. eða 55--60% umfram áætlun. Árið 1987 voru sambærilegar tölur rúmlega 8 milljarðar kr. en lántökur reyndust ríflega 12 milljarðar kr. eða 50% umfram áætlun. Bráðabirgðatölur um erlendar lántökur til langs tíma á síðasta ári nema rúmlega 16 milljörðum kr., en gert var ráð fyrir rúmlega 9 milljörðum kr. við afgreiðslu lánsfjárlaga fyrir árið 1988. Frávikið er um 80% umfram áætlun og skýrist að stórum hluta af erlendum lántökum til að fjármagna ríkissjóð. Þrátt fyrir þetta var vandi ríkissjóðs engan veginn leystur á sl. ári og hefði í reynd þurft að taka veruleg lán til viðbótar erlendis, en miðað við árslok nam yfirdráttarskuld ríkissjóðs í Seðlabanka um 5 milljörðum kr. Sú skuld verður ekki fjármögnuð nema með erlendri lántöku sem beðið er um heimild fyrir í því frv. sem hér er til umfjöllunar. Í reynd er því niðurstaða ársins 1988 sú að á sl. ári hefðu erlendar lántökur þurft að nema 21 milljarði kr. sem er ríflega 130% umfram það sem gert var ráð fyrir við afgreiðslu lánsfjárlaga hér á Alþingi fyrir ári.
    Með hliðsjón af framansögðu er ljóst að lánsfjárlög

og lánsfjáráætlun hafa engan veginn gefið rétta mynd af ástandinu á hverjum tíma. Það er því meira en vafasamt að ákvörðun ríkisstjórnarinnar nú, um að erlendar lántökur muni nema 21 milljarði kr. á þessu ári, standist. Reynslan sýnir að þrjú sl. ár hafa erlendar lántökur farið fram úr upphaflegum áætlunum sem nemur 50--130%. Engum ætti því að koma á óvart þótt í ljós komi að ári að erlendar lántökur á árinu 1989 hafi numið 30--40 milljörðum kr. Það er að vísu mikið frávik en engan veginn ólíklegt miðað við það ástand í efnahags- og atvinnumálum sem nú er í landinu. Þar kemur hvort tveggja til almenn tilhneiging ríkisstjórna til að fegra lánsfjáráætlun og þær sérstöku aðstæður nú þegar útflutningsatvinnuvegirnir eru látnir ganga fyrir erlendu lánsfé og gengið er á eigið fé fyrirtækjanna. Loks er vafalaust að ríkissjóður verður rekinn með verulegum halla þrátt fyrir nýju skattaálögurnar og viðskiptahallann sem Seðlabankinn telur að verði 11 milljarðar kr. Þetta gerist á sama tíma og fyrirsjáanlegt er að lífskjör muni halda áfram að versna en atvinnuleysi hefur verið meira sl. mánuði en um árabil eða jafnvel áratugi.
    Ríkisstjórnin hefur verið stórtæk í lántökum á erlendum markaði og ekki sýnilegt að þar verði neitt lát á. Rétt er að rifja upp að við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1988 voru verulegar skattahækkanir samþykktar sem höfðu það m.a. að markmiði að raunvextir lækkuðu með því að dregið yrði úr lánsfjárþörf ríkissjóðs. En allt fór þetta á annan og verri veg. Fjármál ríkisins fóru úr böndunum í höndum tveggja fjármálaráðherra og niðurstaðan varð sú að ríkissjóður var rekinn með ríflega 7 milljarða halla sem fjármagnaður er með erlendum lántökum. Sé reiknað með 7% raunvöxtum verður vaxtakostnaðurinn um hálfur milljarður kr. á ári og er það lýsandi fyrir þá bagga sem nú er verið að binda þjóðinni, lýsandi fyrir afleiðingar þeirrar óstjórnar sem Íslendingar búa nú við og felst annars vegar í því að þjóðartekjurnar dragast saman vegna rangrar stefnu í atvinnu- og efnahagsmálum. Hins vegar er reynt að fylla upp í ginnungagap ríkissjóðs með síaukinni skattheimtu sem ekki skilar sér í auknum tekjum af því að skattþyngingin magnar niðursveifluna í atvinnulífinu og rýrir þannig
tekjustofna ríkissjóðs.
    Í lánsfjáráætlun er gert ráð fyrir að 15,5 milljarðar kr. verði teknir að láni innan lands af ríkissjóði og öðrum opinberum aðilum. Þar munar mest um skuldabréfakaup Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna sem samkvæmt lánsfjáráætlun munu nema ríflega 8,8 milljörðum kr. Um sl. áramót voru 10 þús. lánsumsóknir hjá sjóðunum og gert ráð fyrir að afgreiða 3500--4000 umsóknir en sjóðunum berast árlega 3600 umsóknir. Gert er ráð fyrir sölu á spariskírteinum ríkissjóðs fyrir allt að 5,3 milljörðum kr. Þessi lánsfjáröflun er háð mikilli óvissu. Aðeins hafa selst spariskírteini fyrir ríflega 300 millj. kr. frá áramótum á sama tíma og spariskírteini hafa verið innleyst fyrir 1200 millj. kr.,

sbr. frétt í Morgunblaðinu 16. þessa mánaðar. Þar kemur enn fremur fram að eftirspurn sé dræm hjá verðbréfasölum eftir spariskírteinum ríkissjóðs en hins vegar seljist banka- og sjóðabréf vel. Markaðurinn virðist ekki taka við verðtryggðum bréfum með minna en 8% vöxtum, en spariskírteini ríkissjóðs, sem gefin hafa verið út á þessu ári, bera 6,8% og 7% vexti. Nú stendur upp á ríkisstjórnina að skýra fyrir almenningi hvenær og hvernig hún ætli að efna með raunhæfum hætti fyrirheitið um lækkun raunvaxta um 3% þannig að vextir af spariskírteinum ríkissjóðs, sem mynda grundvöll annarra vaxta, verði 5%.
    Ekki leynir sér að í frv. til lánsfjárlaga og í lánsfjáráætlun er vanáætlað fyrir verulegum fjárhæðum svo skiptir milljörðum króna og taka verður að láni erlendis. Þar ber fyrst að nefna Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins, en það fé, sem frystideildin hefur til ráðstöfunar, mun ganga til þurrðar í apríl eða maí, en ekki sýnilegt að ríkisstjórnin hafi neina tilburði til að bæta rekstrarstöðu sjávarútvegsins með almennum aðgerðum. Þegar kemur fram á árið mun það valda vaxandi erfiðleikum í öðrum útflutningsgreinum og hjá fyrirtækjum í samkeppnisiðnaði. Sjútvrh. hefur skrifað Byggðastofnun bréf þar sem vakin er athygli á vanda smábátaútgerðar en talið er að það þurfi um 500 millj. kr. til að leysa vanda hennar sem ekki er gert ráð fyrir í lánsfjáráætlun. Síðast en ekki síst má nefna að forsrh. hefur beint því til Byggðastofnunar að koma til aðstoðar í þeim byggðarlögum þar sem atvinnuleysi er skollið á eða vofir yfir af því að Atvinnutryggingarsjóður útflutningsgreina telur fyrirtækin ekki á vetur setjandi, enda gengur ráðstöfunarfé hans mjög til þurrðar. Ekki þurfa menn að vera giska kunnugir með ströndinni til að vita að hér er ekki verið að tala um neinar smáupphæðir.
    Eins og hér hefur komið fram stefnir í mikla spennu á innlenda lánamarkaðnum sem fyrst og fremst er tilkomin af óseðjandi fjárþörf ríkissjóðs og annarra opinberra aðila. Samtímis hafa útflutningsatvinnuvegirnir verið reknir með verulegum halla sem auðvitað kallar á aukna lánsfjárþörf. Ekki bætir svo úr skák að grundvelli verðtryggingar hefur verið breytt, eignarskattar hafa verið hækkaðir og einstakir ráðherrar og ríkisstjórnin í heild hafa lýst yfir að vaxtatekjur almennings verði skattlagðar. Allt þetta hefur valdið umróti og óvissu og stuðlar þannig að hækkun vaxta.
    Minni hl. fjh.- og viðskn. leggur áherslu á mikilvægi þess að rétta við útflutningsatvinnuvegina og ná jöfnuði í viðskiptunum við útlönd sem hvort tveggja er forsenda þess að stöðugleiki náist á ný í íslensku efnahags- og atvinnulífi. Til þess að ná fram þessum sjálfsögðu markmiðum í efnahagsmálum er nauðsynlegt að raunvextir lækki, kippa verður til baka þeim breytingum sem gerðar voru á skattalögunum á jólaföstu og skrá gengi krónunnar í samræmi við raunveruleikann. Minni hl. minnir á að nú eru við völd sömu flokkar og lögfestu lánskjaravísitöluna á sínum tíma. Reynslan hefur sýnt að það hefði verið skynsamlegt í upphafi að ákveða að vextir skyldu vera

óbreytanlegir á verðtryggðum lánum til langs tíma. Nú er hins vegar búið að raska grunni lánskjaravísitölunnar einu sinni sem virðist ætla að leiða til langvinnra málaferla. Ekki er við öðru að búast en að lánveitendur og kaupendur verðbréfa muni krefjast hærri vaxta í framhaldi af þessari aðgerð til að vega á móti þeirri óvissu sem ríkisstjórnin hefur skapað um grundvöll verðtryggingarinnar.
    Meiri hl. nefndarinnar flytur brtt. um að lánsheimildir til Fiskveiðasjóðs, Iðnþróunarsjóðs, Iðnlánasjóðs og Útflutningslánasjóðs séu teknar inn í I. kaflann, en við afgreiðslu síðustu lánsfjárlaga markaði ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar þá stefnu að afnema bæri ríkisábyrgðir af skuldbindingum opinberra atvinnuvegasjóða. Markmiðið var að auka ábyrgð þeirra sem reka sjóðina og jafna samkeppnisstöðuna gagnvart öðrum lánastofnunum. Þannig átti m.a. að tryggja að sjóðirnir gættu aðhalds í útlánum og gerðu nægilegar arðsemiskröfur til þeirra framkvæmda sem lánað var til. Með því að meiri hl. leggur nú til að sjóðirnir verði aftur teknir inn í lánsfjárlögin vekur það spurninguna um hver sé afstaða ríkisstjórnarinnar til þess hvort ríkisábyrgð á fjárfestingarlánasjóðunum skuli haldast eða ekki.
    Í frv. er gert ráð fyrir að skerða framlög til vegagerðar, sbr. ákvæði laga nr. 19/1986, um fjáröflun til vegagerðar, um 680 millj. kr. af tekjum af bensíngjaldi og þungaskatti og skal féð renna í ríkissjóð. Ef meiri hluti Alþingis nær þessu fram er stigið óheillaskref þar sem samkomulagið um
álagningu bensíngjalds og þungaskatts var á sínum tíma bundið því skilyrði að það rynni heilt og óskipt til vegagerðar. Það var m.a. rökstutt með því gagnvart dreifbýlinu að öruggar og greiðar samgöngur milli héraða og landsfjórðunga væru forsenda heilbrigðrar byggðastefnu. Á höfuðborgarsvæðinu eru ýmsar fjárfrekar framkvæmdir orðnar mjög aðkallandi vegna slysahættu og vaxandi umferðar.
    Að öðru leyti verður fjallað um einstakar greinar frv. í framsögu,,, segir að lokum í nál. og undir það skrifa Halldór Blöndal, frsm., Sólveig Pétursdóttir og Júlíus Sólnes.
    Ég ætla þá að víkja að einstökum greinum í frv. eftir því sem ástæða er til í framhaldi af því nál. sem ég hef hér gert grein fyrir. Ég vil fyrst víkja að því sem síðast var talað um í nál. og það eru vegamálin.
    Það er auðvitað mjög hörmulegt að ríkisstjórnin skuli nú grípa til þess óyndisúrræðis að taka fé af umferðinni til þess að fylla upp í gatið hjá ríkissjóði og er það raunar í fyrsta skipti sem það hefur verið gert. Með þessu er brotið á bak aftur gamalt samkomulag milli þingmanna hér sem á sínum tíma voru sammála um að nauðsynlegt væri að afla aukins fjár til vegagerðar, aukins innlends fjár og það var bundið því skilyrði, sú lagasetning, sem fjallar um gjald af bensíni og þungaskatt, að ríkissjóður færi ekki að hrifsa afraksturinn, peningana til sín. Það var auðvitað aukin skattheimta sem fólst í lagasetningunni á sínum tíma en þeir þingmenn sem að henni stóðu voru sammála um að menn mundu sætta sig við þetta,

almenningur mundi sætta sig við þá auknu skattheimtu gegn því að hún rynni til þess að lagfæra vegina og var sannarlega ekki vanþörf á. Það hefur hins vegar komið í ljós að þeir flokkar sem standa að hæstv. ríkisstjórn hafa lítinn skilning á nauðsyn þess að góðum samgöngum sé haldið uppi í landinu og skiptir þá ekki máli hvort við tölum um samgöngur á landi, sjó eða í lofti. Þetta kom fram í sambandi við hafnalögin með því að framlög til hafnamála voru mjög skorin niður á þessu ári og væri ekki vanþörf á að teyma ríkisstjórnina á milli hafnanna í landinu þegar norðangarrinn geisar og leyfa henni að sjá hvernig þær eru útleiknar vegna þess sinnuleysis sem þeim hefur verið sýnt.
    Við höfum fréttir af því núna að það sökk bátur í Borgarfirði eystra en tjónið af völdum þess er meira en kosta mundi ríkissjóð að lagfæra höfnina þannig að þar myndaðist öruggt skjól. Sömu sögu getum við sagt af höfnum á ýmsum stöðum öðrum og ef menn mundu þar að auki kynna sér vátryggingariðgjöldin yrðu menn fljótir að sjá þá miklu sóun sem felst í hinum háu vátryggingariðgjöldum víðs vegar um landið og þeim miklu skemmdum sem oft verða á skipastólnum.
    Í öðru lagi er óhjákvæmilegt að rifja upp að bæði Alþfl. og Framsfl. stóðu á móti því í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar að myndarlega yrði staðið að vegamálunum. Þá náðist málamiðlun á þá lund að hluti af vegafénu yrði settur á biðreikning sem að hluta er endurgreiddur með fjárlögunum í ár. Eftir að ráðherrar úr Alþb. komu inn í ríkisstjórnina hefur síður en svo rofað til í vegamálunum og er það ömurlegt hlutskipti fyrir þingmann úr Norður-Þingeyjarsýslu að láta það verða sitt fyrsta verk í fyrsta lagi að skera niður vegamálin og í öðru lagi að skera niður hafnamálin. Og að þingmaður úr svo afskekktu byggðarlagi skuli taka það að sér að standa að þeirri skerðingu á vegafénu sem gerð er tillaga um hér af stjórnarmeirihlutanum á því þskj. sem hér er til umræðu. Með þessu er auðvitað verið að gera mjög lítið úr þessum hv. þm. og raunar furðulegt að hann skuli taka að sér embætti samgrh. við þessi skilyrði.
    Ég tel nauðsynlegt, herra forseti, að rekja í nokkrum orðum þær upplýsingar sem nefndinni bárust þegar sérstaklega var fjallað um samgöngumálin, vegamálin og tel rétt að lesa hér upp nokkra kafla úr fundargerð, með leyfi hæstv. forseta. Hér er fyrst stuttlega rakið hvað fram fór þegar á fund nefndarinnar komu Snæbjörn Jónasson vegamálastjóri og Helgi Hallgrímsson, yfirverkfræðingur í Vegagerð ríkisins. Í fundargerð segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Í 26. gr. frv. er ákvæði um að 600 millj. kr. af hækkun bensíngjalds og þungaskatts skuli renna í ríkissjóð. Fyrir vikið mun Vegagerð ríkisins ekki geta staðið fyrir öllum þeim framkvæmdum á næsta ári sem henni var ætlað í vegáætlun frá 1987. Að sögn Snæbjarnar Jónassonar mun þar vanta upp á um 600 millj. kr. Þar af eru 300--350 millj. kr. vegna

vegaganga í gegnum Ólafsfjarðarmúla. Í vegáætlun 1987 var ekki gert ráð fyrir göngunum.
    Snæbjörn Jónasson vakti einnig athygli á að bensíngjald og þungaskattur hefðu ekki hækkað í takt við verðlag á þessu ári.
    Gert er ráð fyrir að tekjur af þungaskatti og bensíngjaldi verði um 3,7 milljarðar kr. næsta ár og þar af muni 600 millj. kr. renna í ríkissjóð. Framlagið í ríkissjóð er óháð því hverjar raunverulegar tekjur af þessum álögum verða. Verði þær minni skerðist framlag í Vegasjóð sem því nemur og eykst ef þær verða hærri. Til þess að ná inn þeim 600 millj. kr. sem upp á vantar til að Vegagerðin geti staðið við vegáætlun er nauðsynlegt að hækka bensíngjaldið. Gjaldið er nú 12,60 en yrði að hækka í 15,50 um áramótin til að
endar næðu saman. Vegna verðstöðvunarinnar eru litlar líkur á að samþykki mundi fást fyrir slíkri hækkun og henni yrði því að fresta til 1. mars. Hækkunin yrði þá að vera meiri eða 16 kr. Samkvæmt núgildandi lögum má bensíngjald vera allt að 16,60 kr. á lítra.
    Ekki er hægt að fresta framkvæmdum við Ólafsfjarðarmúla því að verksamningar hafa allir verið undirritaðir. Gert er ráð fyrir að göngin verði opnuð fyrir umferð í árslok 1990.
    Í fyrra voru 285 millj. kr. af tekjum Vegasjóðs settar inn á sérstakan reikning og sagði Snæbjörn Jónasson að sér sýndist að í fjárlögum fyrir 1989 væri gert ráð fyrir að endurgreiða Vegagerð ríkisins um 180 millj. kr.
    Vikið var að jarðgangagerð á Íslandi og kom fram að samkvæmt því arðsemismati sem Vegagerð ríkisins leggur til grundvallar við athuganir sínar eru göng undir Hvalfjörð einu framkvæmdirnar sem mundu skila arði. Hér er ekki tekið tillit til félagslegra þátta og minni slysahættu.``
    Þetta er útdrátturinn af fundi Vegagerðarinnar með fjh.- og viðskn. Eins og sést er þessi fundargerð frá því í desembermánuði, 6. des., og eru tölur í samræmi við það. En auðvitað vekur það í fyrsta lagi athygli að ríkisstjórnin hefur séð ástæðu til þess að skera vegaféð enn meira niður en þarna er þó gert ráð fyrir. Í öðru lagi vekur athygli að ríkisstjórnin er búin að hækka bensíngjaldið þrátt fyrir verðstöðvun. Og í þriðja lagi er nauðsynlegt að minna á hér við þessar umræður að formaður Alþb. hefur á fundi á Ísafirði komist mjög kæruleysislega eða strákslega að orði um göngin í gegnum Ólafsfjarðarmúla og greinilegt að þaðan andar mjög köldu til Múlans, mjög köldu og er það náttúrlega fáránlegt með hliðsjón af því að samgrh. úr þessum sama flokki lét ljósmynda sig við Múlann fyrir norðan þegar sprenging fór fram inni í Múlanum og enn fáránlegra að fyrrv. bæjarfulltrúi Alþb. á Ólafsfirði hefur í Ríkisútvarpinu verið að hrósa Steingrími J. Sigfússyni sérstaklega fyrir það að Múlagöngin séu eingöngu og einvörðungu honum að þakka. En á hinn bóginn upplýstist það á fundinum á Ísafirði að það er mat formanns Alþb. ( Fjmrh.: Þetta er bara rugl.) Matthías Mathiesen og Matthías

Bjarnason báru ábyrgð á því og þeirra er líka um leið sóminn af því að ráðist var í það að fara í Ólafsfjarðarmúlann. (Gripið fram í.) Hvað gleymdist, hæstv. fjmrh.? ( Fjmrh.: Hann gleymdi að útvega peningana.) Gleymdi að útvega peningana. ( Fjmrh.: Já.) Þessi fullyrðing hæstv. fjmrh., að gleymst hafi að útvega peningana, er í réttu samhengi vegna þess að þessi hæstv. ráðherra er ekki alþingismaður. Og vegna þess að hann er ekki alþingismaður, þá varðar hann auðvitað ekki um það samkomulag sem þingið hefur gert og einstakir þingmenn. En ef hæstv. ráðherra hefði haft það traust af kjósendum í Reykjaneskjördæmi að vera kosinn á þing, þá hefði hann getað fylgst með því að á fundi fjvn. skrifuðu allir fjárveitinganefndarmenn undir yfirlýsingu þess efnis að nefndin mundi hlutast til um það að fé til Ólafsfjarðarganganna yrði útvegað öðrum þræði með lánum og hins vegar með ríkisframlagi til þess að tryggt yrði að framkvæmdin við göngin gæti gengið fyrir sig með eðlilegum hætti. (Gripið fram í.) Það er nú ekki siður, lánsfjárlög eru nú venjulega ekki samþykkt mörg ár fram í tímann. Þetta veit hæstv. fjmrh. einnig þannig að allt er nú þetta í skötulíki sem ráðherrann segir. Og eins og hér kemur fram er niðurskurðurinn á ríkisfénu svo mikill, að það er ekki einu sinni hægt að standa við að framkvæma það sem Alþingi þó skuldbatt sig til síðast þegar lánsfjárlögin voru hér til afgreiðslu.
    Mér þykir hins vegar vænt um það að hæstv. fjmrh. skuli líka hér í deildinni hafa amast við göngunum í gegnum Ólafsfjarðarmúla, ( Fjmrh.: Það er rangt.) amast við því að ráðist var í þau á sínum tíma, ( Fjmrh.: Það er bara alrangt.) sem sýnir auðvitað betur en allt annað að ef við sjálfstæðismenn hefðum ekki tekið af skarið og ef við hefðum ekki þvingað þá alþýðuflokksmenn til þess að samþykkja það að byrjað yrði á göngunum á síðasta ári, þá hefði ekki orðið af þeim núna. Fjmrh. hefur þyngt skattana meir en nokkur annar forveri hans. Enginn forveri hans hefur gengið jafn vel fram í nýrri skattheimtu. Það er þessi hæstv. fjmrh. sem nú ætlar að skerða vegaféð um 680 millj. kr. Og samt sér hann eftir því að þurfa að verja fjármagni í göngin fyrir Ólafsfjarðarmúla.
    Annar hæstv. ráðherra sem hefur talað um Ólafsfjarðarmúlann þannig að ekki misskilst að hann og flokkur hans voru andsnúnir því að byrjað var að sprengja göngin á sl. sumri er formaður Alþfl. sem hefur bæði leynt og ljóst gert lítið úr nauðsyn þess að ráðist yrði í göngin og talað um að það væri mjög vafasöm framkvæmd.
    Hæstv. fjmrh. og hæstv. utanrrh. væri báðum hollt að kynna sér þær skýrslur sem fyrir liggja um snjóflóð í Ólafsfjarðarmúla, þeim væri hollt að kynna sér hversu oft hefur legið við slysi á þessum slóðum. Ef þeir hefðu gert það, þá efast ég um að þeir hefðu smekk eða geð í sér til að tala um þessa framkvæmd með þeirri léttúð sem þeim er eiginlegt. ( Fjmrh.: Þingmanninum væri hollt að kynna sér ráðherraferil Matthíasar Á. Mathiesen í þessum málum.) Ég hef

kynnt mér hann og það var fyrir forgöngu hans og Matthíasar Bjarnasonar sem hafist var handa um að sprengja göng í gegnum Múlann á sl. sumri. Ef hæstv. fjmrh. er
að gera lítið úr því sem hæstv. fyrrv. samgrh. náði fram, þá væri honum hollt að bera þær fjárveitingar sem voru til hafnaframkvæmda á sl. ári saman við þær fjárveitingar sem eru til hafnaframkvæmda nú. Honum væri hollt að bera saman hvernig staðið er að vegalögum nú og vegalögum á sl. ári og honum væri líka hollt að minnast þess að það samkomulag sem almennir þingmenn gerðu í fjvn. á sínum tíma varðandi göngin í gegnum Ólafsfjarðarmúla eru heilagur pappír hér í þinginu. Ef fjvn. kemur sér saman og skuldbindur þingið fram í tímann, öll fjvn., er ekkert fordæmi fyrir því að einhverjir gaurar ofan úr fjmrn. geti hrundið slíku samkomulagi og allra síst menn sem ekki eiga sæti á Alþingi, allra síst menn sem ekki hafa haft nægilegan trúnað í sínu kjördæmi til að ná kjöri. Ég held að þeir ættu umfram aðra menn að virða það sem kjörnir fulltrúar á löggjafarsamkundunni koma sér saman um. (Gripið fram í.) Hæstv. forseti. Það er nú skemmtilegur undirtónn og skemmtileg músik að heyra nöldrið í fjmrh. svona við hliðina á sér og ég vil biðja hæstv. forseta endilega að leyfa hæstv. fjmrh. að halda þessu áfram því að það hefur góð áhrif á alla, ( Gripið fram í: Á ræðumann.) þetta suð. ( Forseti: Má forseti vinsamlega biðja menn um að hætta samtali í deildinni og benda þeim á að það er auðvelt að biðja um orðið og fá að koma í röð á mælendaskrá hér á fundi.) Ég ítreka beiðni mína til hæstv. forseta að hvetja fjmrh. fremur en hitt til að halda þessu suði áfram. ( Forseti: Þessi forseti vill gjarnan halda reglu á fundinum og finnst betra að einn tali í einu.)
    Fulltrúar frá Félagi ísl. bifreiðaeigenda, Jónas Bjarnason, Arinbjörn Kolbeinsson og Björn Pétursson, komu á fund fjh.- og viðskn. og ég tel nauðsynlegt að lesa upp það sem stendur í fundargerð um þeirra sjónarmið, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Samkvæmt athugunum Félags ísl. bifreiðaeigenda kostar akstur á malarvegum 17% meira en akstur á vegum með bundnu slitlagi og rekstrarkostnaður er 35--38% hærri. Bundið slitlag er nú á um 17,5% af vegum landsins, en þremenningarnir sögðu að líklega mundi þetta hlutfall lækka nokkuð í ár vegna þess að skerðingin á framlögum til Vegagerðar ríkisins mundi fyrst og fremst bitna á nýframkvæmdum og lagningu bundins slitlags. Þeir töldu þetta hlutfall vera hið lægsta í Evrópu og að fara þyrfti allt suður til Afríku til að finna sambærileg dæmi. Nefndarmenn bentu hins vegar á að samanburður sem þessi væri ákaflega villandi. Hægur vandi væri að fá mun hagstæðari samanburð með því t.d. að bera saman lengd vega með bundnu slitlagi á hvern íbúa.
    Arinbjörn Kolbeinsson benti á að með því að seinka því að leggja bundið slitlag á vegi landsins væri verið að mismuna íbúum þess. Auk þessu væru góðir vegir forsenda þess að almenningur ferðaðist um sitt eigið land og því grundvöllur fyrir frekari

uppbyggingu ferðamannaiðnaðar í landinu.
    Þremenningarnir töldu sýnt að ríkisfé væri hvergi betur varið en til vegaframkvæmda. Arðsemi þeirra væri mikil og auk þess væri knýjandi nauðsyn að ljúka sem allra fyrst gerð vega með bundnu slitlagi um allt land. Þeir sögðu það skoðun Félags ísl. bifreiðaeigenda að réttlætanlegt væri að hækka bensíngjald og þungaskatt ef tryggt væri að því fjármagni væri öllu varið til vegagerðar. Að sama skapi væri það fráleit ráðstöfun að hækka þessar álögur en nýta þær til annars en vegaframkvæmda. Fram kom ótti við að tekjur Vegasjóðs mundu verða minni en gert væri ráð fyrir. Vegna fyrirsjáanlegs samdráttar í þjóðfélaginu mætti gera ráð fyrir að notkun bifreiða drægist eitthvað saman og þá um leið bensínnotkun.
    Spurt var um afstöðu Félags ísl. bifreiðaeigenda til þess að breyta innheimtu þungaskatts af dísilbifreiðum og færa hann í átt að staðgreiðslu. Jónas Bjarnason sagði Félag ísl. bifreiðaeigenda vera hlynnt þessari breytingu. Hún mundi væntanlega leiða til hlutfallslegrar fjölgunar dísilbíla auk þess sem eigendur dísilbifreiða mundu væntanlega kaupa bíla með hentugri vélarstærð en nú tíðkast. Notkun dísilolíu hefur marga kosti í för með sér. Mengun af henni er minni en af bensíni og hún er ódýrari í innkaupum. Auk þess endast vélar dísilbifreiða lengur.``
    Eins og hér kemur fram segja fulltrúar Félags ísl. bifreiðaeigenda að þeir sjái ekkert athugavert við það að bensíngjald og þungaskattur hækki að því tilskildu að fjármagninu sé öllu varið til vegagerðar. Og þetta var sú stefna sem Alþingi hafði markað. Það er þess vegna mikill trúnaðarbrestur milli almennra þingmanna, kjörinna þingmanna, og ríkisstjórnarinnar nú þegar fjmrh. og samgrh. skirrast ekki við að ganga á samkomulagið sem ég hef áður gert grein fyrir.
    Ég vil að lokum aðeins ítreka þá vaxandi slysahættu sem er hér á höfuðborgarsvæðinu vegna hinnar miklu umferðar sem fer mjög vaxandi einnig, og ég vil enn ítreka að eitthvert mesta byggðamálið nú er að treysta samgöngur á milli héraða. Þeir sem fylgdust með fréttum nú í óveðrinu vita að það lá við stórslysum, t.d. á Öxnadalsheiðinni, bæði uppi á heiðinni og líka í brekkunni sjálfri sem engir fjármunir eru til að sinna í lánsfjárlögum nú, en einmitt í þeim rútum sem hvolfdi eða fóru út af voru unglingar héðan frá Reykjavík, skólabörn sem voru að fara norður til þess að fara á skíði og það hefði
auðvitað verið hörmulegt ef þar hefði orðið stórslys sem lá við, þannig að við erum ekki að tala um einhvern lúxus. Við erum að tala um einhver brýnustu mál sem uppi eru í þjóðfélaginu núna, að samgöngumálunum sé sómasamlega sinnt, og eiga þessar athugasemdir auðvitað með sambærilegum hætti við um hafnalögin.
    Í I. kafla þessa frv. er fjallað um þær lántökur sem ríkissjóður mun beita sér fyrir á árinu. Vil ég þá fyrst aðeins skýra frá því að í verulegum atriðum hefur ekki verið farið eftir tillögum eða þeim umsóknum

sem bárust til Fjárlaga- og hagsýslustofnunar, og er ég síður en svo á móti því að nokkurs aðhalds gæti í sambandi við veitingu ríkisábyrgðar fyrir lánum til margvíslegra nota, en ég hygg þó að í sumum greinum sé afstaða meiri hl. vafasöm, svo að ekki sé meira sagt, og vil ég þá sérstaklega taka til tregðu meiri hl. til að fallast á nauðsyn þriggja hitaveitna til lántökuheimilda og um leið minna á að í öðru frv. sem liggur hér fyrir deildinni eru uppi tillögur um það að ganga nærri fjárhag hitaveitna og samveitna með því að setja ákvæði um hækkanir undir Verðlagsstofnun og verður komið nánar að því síðar á þessum fundi ef tími vinnst til.
    Ég vil láta í ljós sérstaka ánægju yfir því að ríkisstjórnin hefur fallist á að skipasmíðapeningarnir skuli áfram verða hýstir í Byggðastofnun og staðið að þeirri fyrirgreiðslu með sama hætti og verið hefur. Það er auðvitað þungu fargi létt af þeim aðilum sem standa fyrir og bera ábyrgð á rekstri skipasmíðastöðva að þessi skyldi hafa orðið niðurstaðan, en ég hygg að það sé óhætt að fullyrða að sú uppsveifla sem varð í nýbyggingum fiskiskipa nú síðast á sl. ári kom hvergi nærri íslensku skipasmíðastöðvunum. Og sumar þeirra eru svo hart keyrðar nú í þessari viku að þar eru nánast engin verkefni. Þessi iðnaður á auðvitað mjög undir högg að sækja af þeim sökum að gengi krónunnar er rangt skráð, sem mjög torveldar skipasmíðastöðvunum samkeppnina við sambærilegar stöðvar erlendis um leið og lántökuskatturinn, 6%, er mjög ranglátur og kemur illa við þessar stöðvar. Hæstv. fjmrh. hafði lýst því yfir hér í deildinni að lántökuskatturinn yrði felldur niður og hafði ég búist við því að hann mundi sjá svo til að brtt. yrði flutt hér við lánsfjárlögin sem fæli það í sér að þessi skattur vegna skipasmíðaverkefna yrði felldur niður. En auðvitað hefur ríkisstjórnin ekki heimild til þess að fella skattinn niður með stjórnvaldsákvörðun þar sem brtt. um það hefur verið felld hér í deildinni. Ég hafði því vænst þess að hæstv. fjmrh. hefði séð sóma sinn í því að sjá um að brtt. þess efnis fylgdi hér með. Eins hygg ég að sanngjarnt og rétt sé að þau fyrirtæki sem nú standa höllum fæti, og Byggðasjóður hefur verið beðinn sérstaklega um að aðstoða þau fyrirtæki sem Atvinnutryggingarsjóðurinn ekki treystir sér til að lána, verði undanþegin lántökugjaldinu, en ríkisstjórnin vill heldur ekki á það fallast og væri fróðlegt að fá frá hæstv. fjmrh. rökstuðning fyrir því.
    Ég vil láta í ljós sérstaka ánægju yfir því að það tókst að ná inn í lánsfjárlögin heimild fyrir því að hægt verði að kaupa ferju fyrir Hrísey og Grímsey á árinu. Þetta hefur verið mikið áhugamál okkar þm. í Norðurl. e. og um það hafði verið gert samkomulag í síðustu ríkisstjórn að á lánsfjárlögum nú yrði þess gætt að þessum þörfum eyjarskeggjanna í og fyrir utan Eyjafjörð yrði sinnt. Ég hefði að vísu kosið að orðalag væri víðara þannig að opið stæði að um nýsmíði á ferju gæti orðið að ræða en skal ekki gera ágreining þó að hér sé heimildin bundin við það að notuð ferja sé keypt til þess arna og vil þá treysta því að þær tilraunir sem samgrh. nú gerir til þess að festa

kaup á slíkri ferju megi bera árangur.
    Í II. kafla þessa frv. eru ýmis skerðingarákvæði og það er rétt sem frsm. meiri hl. sagði hér áðan að margt af þessu er gamlir kunningjar og auðvitað eru þessi skerðingarákvæði til komin sakir þess að við setningu einstakra laga hafa þingmenn ekki gætt þess að ætla sér hóf og ekki viljað gera sér grein fyrir hvaða afleiðingar lögin hefðu ef þeim yrði framfylgt til fullnustu.
    Ég sé ekki ástæðu til að fjalla hér um alla liði, en vil aðeins geta um það að mjög hæpið er að láta 20. gr. frv. standa þar sem gert er ráð fyrir því að heildarframlag ríkissjóðs til Atvinnuleysistryggingasjóðs megi eigi fara fram úr 277 millj. kr. á árinu. Framlagið var 500 millj. kr. á sl. ári. Ég vildi spyrja hæstv. fjmrh. ef hann vildi vera hér viðstaddur --- mér væri alveg sama þótt náð yrði í félmrh. Það er kannski best að ná í félmrh. því að þetta heyrir kannski frekar undir hann. Er ekki rétt að biðja um að fá félmrh. inn í salinn, það er kannski betra? ( Forseti: Hér er nú hæstv. fjmrh. mættur.) Ætli ég biðji ekki heldur um félmrh., að fá hann í salinn. ( Forseti: Við skulum athuga hvort hæstv. ráðherra er í húsinu.)
    Á meðan ég bíð þess að hæstv. félmrh. komi hér vil ég aðeins gera grein fyrir athugasemdum frá Stéttarsambandi bænda þar sem þeir gera svofellda athugasemd við 11. gr. frv. --- en hæstv. landbrh., ætli hann sé í húsinu? ( Forseti: Nei.) En hæstv. forsrh. til að svara nú fyrir alla þessa hjörð sína sem er út um hvippinn og hvappinn? ( Forseti: Já, hæstv. forsrh. sýnist mér vera í húsinu samkvæmt tölvukerfinu hér, en landbrh. og félmrh. eru ekki stödd í húsinu.)
    Hæstv. forseti. Það eru náttúrlega vandræði þegar verið er að ræða lánsfjárlögin og gripið er inn á ýmsum þáttum að einstakir ráðherrar skuli ekki vera vistaddir til þess að svara fyrir sína málaflokka. ( Forseti: Óskar hv. þm. að forsrh. sé gert viðvart?) Ég óska eftir að fá hæstv. forsrh. hér úr því að hinir eru ekki viðlátnir. ( Forseti: Já, það skal reynt.) ( ÁrnG: Mér þykir nú líklegt að flokksbræður ræðumanns muni bera fram sömu óskir í Nd. þar sem forsrh. situr.) Það sýnir svo sem hversu smátt er skammtað að hæstv. fjmrh. ver hér tveim línum í lánsfjárlögum til þess að skera niður framlag ríkissjóðs vegna bóta fyrir eyðingu refa og minka. Það er talað um að þessar bætur á sl. ári nemi um 12 millj. kr., en ríkissjóður sér ástæðu til að skera þetta niður um litlar 4 millj. Þó er hér um útlagðan kostnað að ræða og má segja að þetta sé kannski lýsandi fyrir smámunasemi hæstv. ríkisstjórnar. Já, hann er hér ekki húsnæðisráðherrann og ráðherra félagsmála og hélt ég þó að framlög til byggingarsjóðanna væru ríkur þáttur í lánsfjáráætlun. ( Forseti: Ég vil tilkynna hv. þm. að hæstv. forsrh. er upptekinn í umræðum í Nd. en kemur vonandi eins fljótt og unnt er.)
    Eins og fram kom í greinargerð var vikið þar nokkuð að útflutningsatvinnuvegunum. Ég vil aðeins til viðbótar því sem þar stendur taka fram að stjórn Atvinnutryggingarsjóðs metur það svo að eitt af

hverjum þremur fyrirtækjum sem hún hefur fjallað um sé svo illa statt að nauðsynlegt sé að nýtt fé komi til og stjórn Atvinnutryggingarsjóðs telur jafnframt að eins og grundvelli útflutningsframleiðslunnar er háttað nú sé ekki von til þess að einstaklingar eða fyrirtæki vilji hætta miklu fé í sjávarútveginn. Á hinn bóginn kemur fram hjá stjórn Atvinnutryggingarsjóðs að þeir fjármunir sem hún hefur til ráðstöfunar muni rétt ríflega hrökkva fyrir þeirri fyrirgreiðslu sem hún sér fram á að veita verði þeim fyrirtækjum sem stjórn Atvinnutryggingarsjóðsins telur lánshæf. En á hinn bóginn hefur hæstv. forsrh., það er náttúrlega ekki hægt að tala um þetta heldur, falið Byggðasjóði að hlutast til um það að fyrirtækjum sem nú hafa stöðvast þar sem nú ríkir atvinnuleysi komist í gang á nýjan leik og gerir hæstv. forsrh. ráð fyrir að þar verði jöfnum höndum um það að ræða að Byggðasjóður leggi fram óafturkræft fé eða festi kaup á hlutabréfum og að Byggðasjóður láni til viðkomandi fyrirtækja til þess að fyrirtæki verði opnuð og fólkið fái atvinnuna. Nú er það spurning mín til hæstv. fjmrh. hvort hann hafi átt viðtal við hæstv. forsrh. um þessi mál. ( Gripið fram í: Hann heyrir þetta ekki. Hann liggur í felum, maðurinn.) Hæstv. forseti, ég óska eftir að hlé verði gert á fundinum til kl. 2 til þess að hægt sé að gera grein fyrir nál. minni hl. Það er auðvitað algjörlega út í bláinn að halda umræðunni áfram þegar ráðherrar sýna henni ekki meiri athygli en þetta og ekki er hægt að fjalla um eitt einasta atriði í frv. Þess vegna fer ég fram á að fá að gera hlé á ræðu minni og að tíminn til kl. 2 verði notaður til að smala ráðherrum saman. Ég hafði fallist á það við hæstv. forseta að greiða fyrir þessari umræðu, að hún gæti farið fram fyrir hádegi, auðvitað í krafti þess að ráðherrarnir mundu sjá um að þeir gætu losnað engu síður en þingmenn. En úr því að ekki er áhugi fyrir umræðunni hjá ríkisstjórninni ítreka ég þessa beiðni og vænti þess að við henni verði orðið. ( Forset i: Forseti mun láta kanna hvort hæstv. forsrh. getur ekki hreyft sig úr Nd. en hann var þar upptekinn í umræðum rétt áðan. Ég mun gera ítrekaða könnun á því hvort hann geti ekki komið hingað á fundinn. Ég bið hv. þm. að hinkra aðeins við á meðan.) Ég hlýt að ítreka mína beiðni. Það vantar hér félmrh., það vantar hér forsrh. og landbrh. Það er umræða í báðum deildum þannig að maður hafði ástæðu til þess að ætla að ekki þyrfti að gera sérstakar ráðstafanir til þess að þessir hæstv. ráðherrar sætu þingfundi eins og þeim bar skylda til. Nú skal ég ekki segja hvort einhver þeirra er erlendis. Það á vel vera þó svo að það hafi farið fram hjá mér og eru það auðvitað löggild forföll því að ekki ætlast ég til þess að skotið verði undir þá sérstakri þotu sem fer hraðar en hljóðið til að fá þá hingað á fundinn. Ég ítreka hins vegar beiðni mína um það að fundi verði frestað til kl. 2. ( Forseti: Sættir hv. þm. sig ekki við það ef reynt verður að ná í hæstv. forsrh.?) Mér finnst, hæstv. forseti, að þetta sé orðin langavitleysa hér og það sé ekki nema sanngjarnt að orðið sé við þessari beiðni. ( Fjmrh.: Man hv. þm. ekki samtal okkar hér fyrir

nokkrum dögum síðan?) ( KP: Hæstv. forsrh. situr fast undir ræðu varaformanns Sjálfstfl. í Nd.) ( Forseti: Forseti hefur gert ráðstafanir til þess að ítreka beiðni við hæstv. forsrh. og biður hv. þm. að sýna biðlund enn um stund þar til skilaboð berast.)
    Hæstv. forseti. Ég var að reyna að koma þeirri fyrirspurn áðan til hæstv. fjmrh. hvort hann hefði rætt við hæstv. forsrh. um það hvernig hann hugsaði sér að Byggðasjóður stæði að því að koma aftur af stað þeim fyrirtækjum víðs vegar um landið, sem nú hafa stöðvast, til þess að bæta úr atvinnuástandi á stöðunum. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann geri ráð fyrir því að ríkissjóður muni hlaupa undir bagga með sérstökum framlögum, aukafjárveitingum eða lánveitingum, sem síðan verði látin falla á ríkissjóð vegna þess að eiginfjárstaða Byggðasjóðs er orðin þannig núna að það er með öllu óhugsandi
að hann geti hlaupið undir bagga eins og ástandið er í sjávarútveginum og eins og ástandið er í loðdýraræktinni og eins og ástandið er í ullariðnaðinum og eins og ástandið er hjá skipasmíðaiðnaðinum og eins og ástandið er yfirleitt í þeim fyrirtækjum sem þurfa að sæta almennri samkeppni. Mig langar líka til að spyrja hæstv. fjmrh. hvort það hafi komið fram í viðtölum hans við forsrh. hversu mikill þessi vandi er, hvað hann gerir ráð fyrir að Byggðasjóður þurfi að fá mikið fé til þess að geta innt þetta starf af hendi, en minni á um leið að gert er ráð fyrir því að sú aðstoð sem hæstv. sjútvrh. beindi til Byggðastofnunar að meta vegna smábátanna er talin munu kosta um 500 millj. kr.
    Ég vil í sambandi við bændur lesa upp erindi eða athugasemdir sem borist hafa frá Stéttarsambandi bænda. Við 11. gr. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ekki er gerð athugasemd við þá fjárhæð sem tilfærð er í greininni. Hins vegar er vakin athygli á því að í árslok 1989 fellur niður skylda ríkissjóðs og Stofnlánadeildar landbúnaðarins til þess að standa undir lífeyrisgreiðslum þeirra sem fá lífeyri samkvæmt II. kafla laganna um Lífeyrissjóð bænda. Þar er um að ræða þá bændur sem fæddir eru 1914 eða fyrr og ekki áttu þess kost að ávinna sér réttindi með greiðslum til sjóðsins. Greiðslur þessar eru áætlaðar 114 millj. kr. á árinu 1989 og útilokað að sjóðurinn geti staðið undir þeim af eigin aflafé þegar greiðsluskyldu ríkisins og Stofnlánadeildar lýkur.``
    Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hvort þetta mál hafi sérstaklega verið rætt í ríkisstjórninni eða milli hans og hæstv. landbrh. og hvort von sé á því að hæstv. landbrh. muni flytja frv. um þessi mál nú á þinginu.
    Ég þarf náttúrlega ekki að segja frá mínu brjósti þó ég geti vel gert það að hér er auðvitað um mikið sanngirnismál að ræða sem ég tel óhjákvæmilegt að brugðist verði við.
    Ég vil í sambandi við 12. gr. kynna þau sjónarmið Stéttarsambands bænda að í tillögu aðalfundar þess 1988 var gert ráð fyrir breytingum á tryggingakerfi landbúnaðarins og að Bjargráðasjóður yrði lagður niður. Tillagan er svohljóðandi:
    ,,Aðalfundur Stéttarsambands bænda 1988 felur

stjórn Stéttarsambands bænda að hlutast til um það við ríkisstjórn og Alþingi að greidd verði að fullu á eðlilegum tíma lögboðin framlög samkvæmt jarðræktarlögum og búfjárræktarlögum. Fundurinn telur óviðunandi þann drátt sem hefur orðið á þessum greiðslum tvö sl. ár.`` --- Þetta á nú að vísu við 23. og 24. gr. og ég vil sem sagt taka undir þessi mótmæli bænda og minna á að þarna er um það að ræða framlög úr ríkissjóði vegna framkvæmda sem fóru fram á sl. ári og hefði verið hægt að standa betur og öðruvísi að í landbrn. --- ,,Enn fremur vekja samtök bænda athygli á að mjög misráðið sé að fella öll framlög niður með þeim hætti sem frv. gerir ráð fyrir. Hér er um að ræða fjármuni til kynbótastarfsemi í landinu, þar á meðal sæðingarstöðva, einangrunarstöðvarinnar í Hrísey og stóðhestastöðvarinnar í Gunnarsholti. Þessi starfsemi hefur skilað gífurlegum árangri í auknum og bættum afurðum á undanförnum áratugum og fram undan eru e.t.v. enn stórstígari framfarir. Það væru alvarleg mistök ef þessi starfsemi yrði lögð niður vegna fjárskorts og mundi það ekki síður bitna á neytendum en bændum þegar til lengri tíma er litið.``
    Ég vil koma þessum athugasemdum hér á framfæri og að síðustu lesa ályktun Stéttarsambands bænda varðandi Bjargráðasjóð eins og ég hafði áður boðað:
    ,,Aðalfundur Stéttarsambands bænda 1988 leggur til að lögum um Bjargráðasjóð verði breytt þannig að einstakar búgreinar geti verið undanþegnar gjaldskyldu til sjóðsins samþykki viðkomandi búgreinasamband og stjórn Stéttarsambands bænda það.
    Fundurinn felur stjórn Stéttarsambands bænda að vinna að því að fá breytt lögum um Viðlagatryggingu Íslands þannig að hún taki yfir tjón af völdum grasbrests og óþurrka og uppskerubrests í garðrækt.
    Áfram verði unnið að samningu tryggingaskilmála fyrir kúa- og sauðfjárbú og miðað við að þau geti keypt sér frjálsa búfjártryggingu um áramótin 1989--1990, enda liggi þá fyrir að þær séu hagkvæmari en núverandi tryggingar Bjargráðasjóðs. Þá liggi einnig fyrir hvort lögum um Viðlagatryggingu Íslands hafi verið breytt. Enn fremur komi þá til samþykki viðkomandi búgreinasambanda og Stéttarsambands bænda.
    Lokatakmarkið er að bændur geti keypt sér allar tryggingar búsins í einum pakka, misstórum eftir þörf manna, á sem hagstæðustum kjörum. Forsenda þess er að lögboðin brunatrygging húsa í sveitum sé gefin frjáls.``
    Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann hafi eitthvað um þessi mál að segja, hafi rætt þau sérstaklega innan ríkisstjórnarinnar eða við landbrh. Enn fremur vil ég spyrja hæstv. fjmrh. um það hvað sé nýtt að frétta af fjárhag Framleiðnisjóðs landbúnaðarins, en í fjölmiðlum hefur komið fram að hæstv. landbrh. hefur verið önnum kafinn við að binda Framleiðnisjóðnum nýja bagga. Í þessum lánsfjárlögum er gert ráð fyrir því að 60 millj. kr. lánveiting verði heimiluð vegna Framleiðnisjóðsins. Mjög æskilegt væri að fá frekari upplýsingar um hvernig fjárhag sjóðsins er háttað, en

þær upplýsingar sem ég
hef hér handbærar eru allar úreltar eða frá sl. ári og taka ekki til þeirra ráðstafana sem landbrh. hefur boðað.
    Ég vil að gefnu tilefni frá formanni fjh.- og viðskn. spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann hafi nýlega átt viðræður við hæstv. samgrh. um málefni Arnarflugs, en formaður fjh.- og viðskn. virtist hafa af því þungar áhyggjur að til stæði að styrkja Arnarflug með opinberu fé. En samkvæmt því frv. til lánsfjárlaga sem hér liggur fyrir er einungis gert ráð fyrir því að hluthöfum verði lánaðar allt að 129 millj. kr. og hef ég litið svo á að þá yrði auðvitað séð um að viðunandi trygging fengist fyrir þessu fé. Hins vegar gaf formaður fjh.- og viðskn. tilefni til að spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann eða samgrh. hafi í hyggju að veita þessa fyrirgreiðslu án þess að krefjast fullnægjandi tryggingar sem ekki hefur komið fram í fjh.- og viðskn. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. enn fremur vegna fjarveru hæstv. landbrh. hvað sé að frétta af því að reglugerð verði sett í sambandi við Fiskeldissjóðinn, en því hafði verið lofað af hæstv. landbrh. þegar þing kom saman í þrjá, fjóra daga eftir áramótin að stjórnarandstaðan og menn úr landbn. og fjh.- og viðskn. beggja deilda fengju að fylgjast með gerð reglugerðar. Ég hef ekkert frétt af þessu máli. Mér er ekki kunnugt um að reglugerðin hafi verið gefin út og er fróðlegt að fá að vita hvernig það mál stendur.
    Ég skal svo ekki, herra forseti, hafa um þetta fleiri orð, aðeins ítreka að þessi lánsfjárlög bera með sér að í þeim er ekki sagður nema hálfur sannleikurinn. Í þessum lánsfjárlögum eru stór göt sem vita bæði að rekstri ríkissjóðs og þó einkum að þörfum atvinnuveganna. Vil ég ítreka það, sem ég sagði fyrr, að á þessari stundu er ófyrirsjáanlegt um hversu miklar fjárhæðir verður þar að tefla, en þó er sýnilegt í sambandi við Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins að þær fjárhæðir sem þar er talað um leika naumast á lægri tölum en 400--500 millj. kr. í sambandi við smábátaútgerðina. Ef fara á að óskum hæstv. sjútvrh. og svara hans erindi jákvætt, þá erum við þar einnig að tala um fjárhæðir sem nema um 500 millj. kr. Og ef við gerum svo ráð fyrir því að hlaupið verði undir bagga með þeim fyrirtækjum sem hafa stöðvast víðs vegar um landið, með þeim fyrirtækjum sem hæstv. forsrh. hefur vísað til Byggðastofnunar, þá erum við að tala um fjárhæðir sem skipta milljörðum. Bara á þessum þrem póstum er greinilegt að vanáætlunin verður kannski 3, 4, 5 milljarðar kr. Síðan er allt annað vantalið.
    Ég vil einnig minna á að lánsfjáráætlunin í sambandi við byggingarsjóðina er byggð á brauðfótum. Það kemur skýrt fram í því að sú áætlun sem Seðlabankinn gerði í febrúarmánuði hefur verið skorin niður um nokkur hundruð millj. kr. sem auðvitað byggir á því að Seðlabankinn gerir sér grein fyrir því að atvinnustigið á þessu ári verður miklu lakara og verra en áður hafði verið ætlað. Það er þess vegna algjörlega ljóst að sú áætlun er í rúmasta lagi.

En á hinn bóginn veldur sú afstaða ríkisstjórnarinnar að draga verulega úr fjárveitingum til húsnæðismálanna, þar andar líka köldu frá ríkisstjórninni til þess sem áður hafði verið byggt upp, sú afstaða ríkisstjórnarinnar veldur því að það er alveg í járnum að Húsnæðisstofnun geti staðið við þau lánsloforð sem gefin hafa verið á árinu 1989. Og síðast þegar ég vissi af, fyrir einni viku, þá hafði Húsnæðisstofnun ríkisins ekki gert neina útlánaáætlun fyrir þetta ár. Þá var enn ekki farið að svara því fólki sem samkvæmt eldri áætlun átti að fá sín húsnæðislán greidd í febrúarmánuði eða janúarmánuði á þessu ári og er þó sú starfsvenja hjá stjórn Byggingarsjóðs ríkisins að senda lánsloforð með árs fyrirvara.
    Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann hafi átt viðtal við hæstv. félmrh. um það hvenær þess væri að vænta að útlánaáætlun Byggingarsjóðs ríkisins, sem drög voru gerð að í desembermánuði, verði endurskoðuð með hliðsjón af nýjum aðstæðum. Og ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hvort eitthvað sé af því að frétta að hægt verði að veita framkvæmdalán til þeirra verktaka, ekki síst úti á landi, sem eru að byggja íbúðir samkvæmt almennum reglum Byggingarsjóðs ríkisins. En það hefur nú legið niðri um skeið, um einhver missiri, að hægt hafi verið að veita slíka fyrirgreiðslu sem hefur auðvitað valdið miklum vandræðum víðs vegar um landið. Ég vil af þessu tilefni einnig spyrja hæstv. fjmrh. hvað til sé í því sem stendur í yfirlýsingu hæstv. ríkisstjórnar að nú standi til að afnema vörugjald af byggingarefni. En í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar hefur komið fram að það muni verða gert á árinu. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hvenær þess sé að vænta að lagt verði fyrir þingið frv. um niðurfellingu vörugjalds á ýmsum vörum vegna þess að það sé nú komið í ljós og ríkisstjórnin sé orðin sannfærð um að rangt hafi verið staðið að breytingum skattalaga nú á jólaföstu.
    Ég vil jafnframt vekja athygli á því í þessu sambandi að skerðingin á Atvinnuleysistryggingasjóðnum er aukin. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. vegna þess að hæstv. félmrh. er ekki hér í salnum: Er eitthvert lát á því að tilkynningar um atvinnuleysi berist félmrn.? Eða hækkar staflinn um atvinnulausa jafnt og þétt? Er það rétt sem fram hefur komið að þetta atvinnuleysi nái til æ fleiri starfsstétta? Og er það rétt að verulegur fjöldi þess fólks sem nú er orðið atvinnulaust sé búinn að vera það í hálft ár og að atvinnuleysisbætur muni því
falla niður frá og með næstu mánaðamótum?
    Spurningin er líka þessi: Hvernig hyggst ríkisstjórnin tryggja Atvinnuleysistryggingasjóði nægilegt fé á þessu ári til þess að geta staðið í skilum með atvinnuleysisbætur? úr því að ríkisstjórnin er ákveðin í því að reyna að stjórna landinu þannig að atvinnuleysi sé sem víðast og þannig að launatekjur fólks fari jafnt og þétt lækkandi. Hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að tryggja Atvinnuleysistryggingasjóði nægilegt lausafé til að geta staðið í skilum við það fólk sem er atvinnulaust?
    Ég tel nauðsynlegt í tengslum við þetta frv. að fá

svör sérstaklega varðandi atvinnulífið vegna þeirra gildu og breiðu yfirlýsinga sem hæstv. forsrh. hefur gefið um þau mál, ekki aðeins hér í þinginu heldur einnig utan þingsins.