Lánsfjárlög 1989
Föstudaginn 17. febrúar 1989

     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Eiður Guðnason):
    Herra forseti. Ég verð að segja að þessi beiðni hv. 2. þm. Norðurl. e. kom mér svolítið á óvart. Ég hygg raunar að eitthvað í þessu máli hafi komið honum á óvart líka vegna þess að við áttum samtal í morgun um framgang mála hér í deildinni í dag og raunar einnig í gær og þá hygg ég að hv. 2. þm. Norðurl. e. hafi verið allsendis ókunnugt um þessa bón og ég mælist til þess að við fáum að ljúka þessu eins og um var samið. Mér býður í grun að hæstv. landbrh. sé ekki staddur á landinu. (Gripið fram í.) Jæja, er hann það. Þá vonandi fæst hann hingað hið allra fyrsta. Ég vona bara að það verði reynt að standa við það samkomulag sem hér er búið að gera og búið að ítreka tvo daga í röð og mér finnst það afar slæmt og í rauninni mjög alvarlegur hlutur ef það getur ekki staðið. Það var síðast ítrekað í morgun og ég veit að hv. 2. þm. Norðurl. e. --- ég treysti því fullkomlega sem hann sagði og frá var gengið þannig að ég held að honum hafi verið komið í opna skjöldu. Ég mælist eindregið til þess að við getum látið orð standa og látið þessi mál ganga fram eins og um hefur verið talað.